Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Erfitt ástand er í Breiðholtsskóla nú um stundir og er ástæðan sú að fimm 12 ára gamlir drengir beita aðra nemendur ítrekað ofbeldi af ýmsum toga. Er hluti þeirra sagður vera frá Mið-Austurlöndum, en einn af íslensku bergi brotinn. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins.
Kvartað hefur verið yfir litlum sem engum viðbrögðum frá skólayfirvöldum í Reykjavík vegna þessa, þrátt fyrir ítrekuð klögumál vegna ástandsins og nefna heimildarmenn að svo virðist sem reynt sé að verja kerfið með því að hafast lítt eða ekkert að vegna ástandsins.
Hefur ofbeldi drengjanna verið kært til menntamálaráðuneytisins, eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu.
„Brúarsmiðir“ að störfum
Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið hefur aflað sér eru fjórir af þessum fimmmenningum sagðir af erlendu bergi brotnir og a.m.k. tveir þeirra frá Mið-Austurlöndum og arabískumælandi. Sá fimmti er aftur á móti íslenskur. Í skólasamfélaginu eru þeir „brúarsmiðir“ kallaðir sem hafa það verkefni að koma á sambandi milli heimilis og skóla, en ætlunin var að fá tvo arabískumælandi menn til að sinna því verkefni.
Illa mun hafa gengið að fá foreldrana frá Mið-Austurlöndum til að eiga samskipti við skólann. Er ástæðan sögð sú, samkvæmt heimildum blaðsins, að karlmennirnir bera enga virðingu fyrir konum og þær mega ekki koma fram fyrir hönd fjölskyldunnar gagnvart skólanum. Þetta viðhorf smitast síðan yfir til drengjanna sem virða þ.a.l. konur að engu. Ekki bætir úr skák að alla þeirra skólagöngu hér á landi hefur kona verið kennari þeirra. Drengjunum mun nú tímabundið vera haldið frá öðrum börnum í skólanum.
Fullyrt er við blaðið að þeir búi við illt atlæti heima við, séu læstir úti og ekki treyst fyrir lykli að heimilum sínum og valsi um göturnar í reiðileysi. Kvartað hefur verið yfir þessu til barnaverndar, bæði af skólans hálfu sem og einstaklinga. Lögregla hefur einnig verið kölluð til í einhverjum tilvikum vegna ofbeldisverka drengjanna. Óttast foreldrar barna við skólann hið versta, verði ekki gripið inn í.
Harma úrræðaleysið
Starfsmenn skólans, kennarar, skólaliðar og aðrir starfsmenn, sendu í gær frá sér yfirlýsingu vegna ástandsins. Harma þeir úrræðaleysi stjórnvalda og kalla eftir tafarlausum úrbótum á hvernig ráða eigi við aukið ofbeldi meðal nemenda.
„Börnin líða fyrir það á meðan stjórnvöld fljóta sofandi að feigðarósi. Samfélagslegur kostnaður verður aðeins sífellt hærri og við starfsfólkið upplifum daglega ábyrgðar- og skilningsleysi ráðamanna. Við finnum einnig til vanmáttar og öryggisleysis innan vinnustaðarins. Það fást fáir til að starfa lengi við slíkar aðstæður,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá segir í yfirlýsingunni að Breiðholtsskóli sé góður skóli með með vinalegum brag og að virk og öflug eineltisstefna sé við skólann. Öll eineltis- og stríðnismál sem komi upp séu tekin föstum tökum.
Starfsfólkið bendir hins vegar á að það hafi ekki lagalegar heimildir til að grípa inn í atburðarás sem gerist eftir að skóladeginum lýkur. Það gæti með því ógnað eigin öryggi. „Það er á ábyrgð forráðamanna, félagsþjónustu, lögreglu, barnaverndaryfirvalda og Reykjavíkurborgar. Af allri umræðu um skólamál og vaxandi ofbeldi í samfélaginu er ljóst að sveitarfélög þurfa að fara að hugsa sinn gang og tryggja bæði öryggi nemenda og starfsmanna á sínum vinnustöðum.“