Guðrún Hulda Guðmundsdóttir (Dúna) fæddist 17. júní 1938 í Reykjavík. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 24. janúar 2025.

Foreldrar hennar voru Sigurbjörg Ólafsdóttir, f. 24. júní 1914, d. 10. júlí 1989, og Guðmundur Brynjólfsson, f. 13. ágúst 1915, d. 15. maí 2000.

Systkini Guðrúnar í aldursröð: 1) Bryndís, f. 1933, 2) Gísli, f. 1934, d. 1936, 3) Jón Vilberg, f. 1935, d. 1997, 4) Ágúst Hróbjartsson, f. 1936, d. 2002, 5) Ólöf Guðbjörg, f. 1939, d. 2007, 6) Hrafnhildur, f. 1941, 7) Kolbrún Birgitta, f. 1943 og 8) Sævar Örn, f. 1948, d. 2016. Sammæðra bróðir var Ingi Bergmann, f. 1931, d. 2005.

Dúna gifti sig 3. desember 1955. Eiginmaður hennar var Ragnar Þorsteinsson, fæddur að Hamri í Hörðudal 11. apríl 1928, látinn 29. september 2005. Dúna og Ragnar bjuggu lengst af í Efstasundi 23 eða frá 1966. Börn þeirra eru: 1) Guðmundur Rúnar, f. 1955, í sambúð með Kristborgu Níelsdóttur. Börn hans eru Guðrún Elva, Bjarki Þór og fósturdóttirin Berglind Þóra. 2) Hafdís Ragnarsdóttir, f. 1956, gift Pétri V. Hallgrímssyni. Börn þeirra eru Ragnar Snorri, Herdís Borg og Þórdís Rún. 3) Halldóra Björk Ragnarsdóttir, f. 1962, í sambúð með Birni Steingrímssyni. Dætur hennar eru Eva Dögg og Íris Björk.

Lengst af var Dúna heimavinnandi húsmóðir. Hún tókst á við hlutverkið af miklum metnaði og ósérhlífni. Dúna var góð amma og mikill dýravinur. Hún eignaðist kisur og áhugi hennar á köttum náði út fyrir veggi heimilisins. Hún öðlaðist viðurnefnið „kattakonan“. Dúna vann við ræstingar í Ríkisútvarpinu í 30 ár, fyrst á Skúlagötu og síðan í Efstaleiti þar sem hún lauk starfsævi sinni. Síðustu 10 árin bjó hún ein með kisum sínum. Hún var sjálfstæð og vildi ekki vera upp á aðra komin. Þegar heilsu hennar hrakaði flutti hún inn á hjúkrunarheimilið Skjól haustið 2023. Þar naut hún umönnunar og mikilvægs félagsskapar.

Útför hennar fór fram í kyrrþey 5. febrúar 2025.

Elsku amma, ég er svo þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á frá Efstasundi. Þið afi voruð alltaf með opið heimili fyrir alla sem vildu kíkja í kaffi. Við pabbi komum svo oft í heimsókn og þið voruð fastur punktur í tilverunni, alltaf eins. Afi annaðhvort að vinna á vörubílnum eða í hægindastólnum inni í sparistofu, man ekki eftir að hafa séð hann annars staðar í húsinu. Þú amma varst alls staðar en oftast inni í eldhúsi að stússast, laga kaffi sem að sjálfsögðu var alltaf gert með soðnu vatni í potti og trekt beint á brúsa, að stjana við gestina og afa. Þú sást um garðinn, matinn, heimilið og okkur Evu þegar ég var að gista. Ég var svo heppin að hafa jafnaldra frænku á heimilinu.

Ég fæ ótal minningabrot upp í hugann, við Eva í garðinum að tína orma og þvo þá í vaskinum og raða svo fallega á tröppurnar til að leyfa þeim að þorna eftir þvottinn, róla í litlu rólunni á snúrunum og syngja „stíma“ hástöfum, fá marmaraköku inni í eldhúsi og ég iðulega kroppaði brúna hlutann af, fannst hann ekki jafngóður, fá pening til að fara í Gummó og kaupa pónýhesta, fá pening til að fara að kaupa laugardagsnammi í Sunnubúð, hlusta á upplesnar sögur á vínilplötum í sparistofunni, kúra saman í litla herberginu þar sem þú söngst og bíaðir á mig þar sem ég átti oft erfitt með að sofna, spila tölvuleiki inni í sjónvarpsstofu, að fá stór páskaegg og alltaf nenntirðu að dekra við mig með Nóa Siríus-páskaeggi og emmessís þó annað væri almennt í boði.

Amma, þú varst kjarnakona, alltaf óeigingjörn og dugleg. Man að þú sagðir mér að þegar þú varst að fæða börnin þá var bara farið og bankað á gluggann heima hjá ljósmóðurinni, ekkert vesen. Lagið sem sungið var í jarðarförinni þinni um íslensku konuna var eins og skrifað um þig,

… hún vakti er hún svaf,

þerraði tár og þerraði blóð, hún var amma, svo fróð.

Hún er íslenska konan sem gefur þér allt sem hún á.

(Ómar Ragnarsson)

Eftir covid breyttist allt, einangrunin sem fylgdi var hvorki góð né holl. Ég held að þú hafir verið sátt við að fá að kveðja þennan heim, ég held að þú sért á betri stað núna.

Elsku amma, ég sakna þín. Takk fyrir allt.

Guðrún Elva Guðmundsdóttir.

Elsku amma. Minningarnar um þig eru svo margar enda árin mörg sem við áttum saman. Hér er aðeins brotabrot.

Ég hverf aftur í eldhúsið í Efstasundinu. Ilmurinn af heitum heimilismat í loftinu og úr útvarpinu berast nýjustu dánarfregnir og jarðarfarir. Afi að koma heim í mat og ég á leið í leikskólann. Miklu heldur vildi ég vera heima hjá ykkur. Ég man svo vel eftir brosinu þínu þegar þú komst að sækja mig í leikskólann, stundum svo veðurbarin eftir gönguna með svörtu alpahúfuna þína en alltaf brosandi. Bros sem lét mér hlýna að innan.

Þegar ég hugsa til baka er ekki annað hægt en að minnast myndarskaparins og metnaðarins sem þú lagðir í allt sem þú tókst þér fyrir hendur. Aldrei var neitt unnið með hangandi hendi. Nestið mitt í leikskólanum vakti athygli enda varstu annáluð fyrir góðar veitingar og nóg af þeim. Smurt brauð með reyktum laxi og stundum annað með súkkulaðihnetusmjöri. Og afmæliskökurnar, maður lifandi! Vörubíllinn sem þú byggðir úr skúffuköku og skreyttir var langt á undan sinni samtíð. Pönnukökurnar sem voru svo þunnar að rjóminn þrýstist út um litlu götin á kökunni og kleinurnar og smákökurnar sem þú notaðir næturnar í að útbúa. Kjólarnir sem þú saumaðir á mig og hin ýmsu dress sem voru pöntuð þegar unglingsárin bönkuðu upp á; neongrænt prjónapils eða gotnesk skikkja, allt gat amma græjað og gerði að sjálfsögðu brjálæðislega vel.

Sama átti við um gjafir sem þú keyptir fyrir barnabörnin en þær voru allar valdar af kostgæfni og ekkert til sparað. Ekki nóg með að gjöfin þyrfti að hitta í mark, heldur voru þær yfirleitt fleiri en ein og fleiri en tvær því það var jú skemmtilegra að fá fleiri pakka á jólunum. Og ef dótið í pakkanum var rafdrifið þá léstu rafhlöður að sjálfsögðu fylgja með, það væri svo leiðinlegt að geta ekki prófað dótið strax. Svo þurftu gjafirnar líka að vera vel innpakkaðar. Næturnar nýttir þú líka í innpakkanir enda kannski eini tíminn sem þú fékkst frið til að dúlla þér í þínu.

Ég minnist líka veiðiferðanna með afa í Laxá. Mikið var það gaman. Sérstaklega þegar Ragnar frændi kom með. Þá var sko fjör. Það var svo gaman hvað þú varst þolinmóð og umbarst allskyns vitleysu sem okkur datt í hug. Í eitt skiptið heima í Efstasundi grunar mig þó að við höfum gengið fram af þér og ekki bara þér heldur meira að segja sjálfum jólasveininum sem gaf okkur kartöflu í skóinn þá nóttina.

Hversdagslegu stundirnar okkar í seinni tíð yfir sjónvarpskrimmum eru ekki síðri minningar. Kósíkvöld með ömmu og kisunum, helst með KFC á kantinum. Þú varst nefnilega svo mikill sælkeri, það áttum við svo sannarlega sameiginlegt.

Umhyggja er rauður þráður í gegnum minningar barnæskunnar. Umhyggja sem ég vonast til að geta gefið áfram til dóttur minnar því það er engin tilfinning betri en að finna hve mikið einhverjum þykir vænt um mann. Amma var best í því.

Eva Dögg.