Sími Staðsetningarbúnaður síma Páls sýndi hann í Efstaleiti 1. Það var 6. maí. Fjórtán dögum síðar fékk Páll símtöl frá blaðamönnum Stundarinnar og Heimildarinnar. Engin tenging virtist við RÚV, en það átti eftir að breytast.
Sími Staðsetningarbúnaður síma Páls sýndi hann í Efstaleiti 1. Það var 6. maí. Fjórtán dögum síðar fékk Páll símtöl frá blaðamönnum Stundarinnar og Heimildarinnar. Engin tenging virtist við RÚV, en það átti eftir að breytast. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar Páll Steingrímsson skipstjóri raknaði úr rotinu á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi þann 6. maí 2021 var hann eðli málsins samkvæmt illa áttaður. Sólarhringana á undan var tvísýnt um hvort hann myndi lifa af þau miklu veikindi sem herjað höfðu á hann aðfaranótt 3

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Þegar Páll Steingrímsson skipstjóri raknaði úr rotinu á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi þann 6. maí 2021 var hann eðli málsins samkvæmt illa áttaður. Sólarhringana á undan var tvísýnt um hvort hann myndi lifa af þau miklu veikindi sem herjað höfðu á hann aðfaranótt 3. maí.

Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins um þetta mál síðastliðinn fimmtudag taldi Páll allt frá því að veikindin gerðu vart við sig að sér hefði verið byrluð ólyfjan. Handvömm lögreglu og heilbrigðisstarfsfólks olli því að ekki var skimað eftir eitrun af völdum lyfsins Imovane, jafnvel þótt Páli hefði verið gefið móteitur gegn virka efninu í því lyfi, zópíklón, að morgni 3. maí þegar líf hans hékk á bláþræði og um svipað leyti og hann lenti í hjartastoppi. Páll hefur haldið því fram að hann hafi fundið bragðið af svefnlyfinu í bjór sem eiginkona hans færði honum að kvöldi 2. maí. Páll þekkti til lyfsins eftir að hafa notað það þegar hann rétti af sólarhringinn og svefn á vaktatörnum í sjómennskunni.

Síminn hvergi nærri eða hvað?

Þegar Páll komst til meðvitundar á Landspítalanum áttaði hann sig þó á að hann var allslaus að veraldlegum munum. Þeir höfðu allir orðið eftir, föt og annað, þegar hann var fluttur í ofboði með sjúkraflugvél frá Akureyri til höfuðborgarinnar.

Til þess að stytta Páli stundir útvegaði önnur dætra hans honum iPad. Sonur hans og önnur dóttir voru einnig við sjúkrabeð hans. Segir Páll að sonur sinn hafi þá spurt hvort hann væri ekki með svokallaðan Samsung-aðgang sem hleypti honum að gögnum sem vistuð voru á símtæki hans og tölvu. Höfðu þeir ástæðu til að ætla að búnaður þessi væri enn staðsettur norðan heiða.

Skipstjórinn stóð klár á því og hefur hann lýst því hvernig það hafi lokist upp fyrir þeim þegar þeir opnuðu Samsung-aðganginn að staðsetningarbúnaður símans vitnaði um að hann var alls ekki á Akureyri, heldur handan Bústaðavegarins. Staðsetningin sýndi hann í Efstaleiti 1, þar sem höfuðstöðvar RÚV eru til húsa. Þótti þeim það í meira lagi skrítið en gerðu ekkert með það.

Hleðsla enn á símanum

Næsta vers var að koma munum og fatnaði suður og tók eiginkona Páls, sem hann þá stóð í skilnaði við, að sér að koma föggum hans á spítalann. Í samtali við Morgunblaðið segir Páll að sú atburðarás hafi verið furðuleg í meira lagi. Þannig hafi konan komið inn á sjúkrastofu þar sem hann lá, fleygt á rúmið til hans poka með ýmsum munum, þar á meðal farsíma hans, og í kjölfarið vikið af vettvangi án þess að segja eitt aukatekið orð.

Segir Páll að það hafi komið sér spánskt fyrir sjónir að rafhleðsla á símanum reyndist 47%. Það hafi mátt teljast næsta undarlegt í ljósi þess að hann hafði verið ótengdur við rafmagn norður á Akureyri og hefði eftir þann tíma sem Páll lá sofandi í öndunarvél átt að vera rafmagnslaus.

Liðu nú nokkrir dagar þar sem Páll jafnaði sig af hinum alvarlegu veikindum og var hann útskrifaður af spítalanum þann 11. maí. Flaug hann þá strax norður og heim til sín. Degi síðar segir hann að hugsanir hafi leitað á sig vegna símans og staðsetningarinnar og hann hafi tekið að skoða hann nánar. Þá hafi hann áttað sig á að samskiptaforrit á borð við Messenger og WhatsApp voru horfin af heimaskjá tækisins. Segir Páll að sem tæknisinnaður skipstjóri hafi hann vitað hvað það þýddi. Síminn hafði verið afritaður.

Páll gengur á fund lögreglu norður á Akureyri föstudaginn 14. maí og kærir þar stuld og afritun á símanum. Hann virðist þó, af skýrslu lögreglu að dæma, nokkuð ráðvilltur og getur ekki bent með afgerandi hætti á þann sem hann grunar helst í málinu. Nefnir þó til sögunnar, að því er virðist af hálfgerðu handahófi, einn starfsmann Samherja sem honum þótti hafa sýnt af sér undarlega hegðun vikurnar á undan.

Símtöl sem breyttu stefnunni

Líður nú helgin og inn í nýja viku. Það er svo fimmtudaginn 20. maí sem málið tekur nýja og óvænta stefnu. Þá berast símtöl í síma Páls frá tveimur rannsóknarblaðamönnum. Annað frá Aðalsteini Kjartanssyni, sem hafði ráðið sig til Stundarinnar frá RÚV mánaðamótin á undan, og hitt frá Þórði Snæ Júlíussyni ritstjóra Kjarnans. Erindi þeirra er hið sama. Að bera undir Pál fyrirhugaða umfjöllun um fyrirbæri sem hlotið hefur heitið „skæruliðadeild Samherja“. Hafa blaðamennirnir tveir, og samverkamenn þeirra, teiknað upp þá mynd að þar hafi farið skipulagður aðgerðahópur þriggja starfsmanna útgerðarfélagsins sem „deildin“ er kennd við. Af gögnum máls má þó álykta að þar hafi farið þrír einstaklingar sem áttu það sameiginlegt að telja harkalega vegið að fyrirtækinu sem þeir störfuðu fyrir, en eins og alkunna er hafði Samherji þá troðið illsakir við yfirvöld um nokkurra ára skeið, ekki síst Seðlabanka Íslands, sem þó var að lokum gerður afturreka með allar ávirðingar og sektarboð sín í garð fyrirtækisins.

Lýsti Aðalsteinn Kjartansson þremenningunum þannig að þeir gegndu „lykilhlutverki í þeirri áróðursvél“ sem Samherji hefði ræst í kjölfar frétta af meintum mútugreiðslum fyrirtækisins til namibískra stjórnmálamanna.

Morgunblaðið hefur hlýtt á upptökur af þessum símtölum sem bárust með tíu mínútna millibili, klukkan 14.57 og 15.07. Er sláandi að heyra hversu fljótt Páll áttaði sig á hvernig í pottinn var búið og fékk hann blaðamennina til þess að staðfesta berum orðum að þeir hefðu undir höndum gögnin sem fyrirhugaðar fréttir áttu að byggjast á.

Líkt og skipstjóra er háttur gekk Páll hreint til verks og fór hann rakleiðis til lögreglunnar og lagði þar fram kæru, fyrst gegn „óþekktum einstaklingi“, en í skýrslutöku sem fram fór degi síðar, gegn konu hans. Í samantekt lögreglu segir meðal annars:

„Páll sagðist nú gruna að eiginkona hans, X [Morgunblaðið hefur ekki blandað nafni fyrrverandi eiginkonu Páls í umfjöllun sína], stæði fyrir þessu öllu saman. Páll sagði að hann og X standa í skilnaði sem væri að vinda upp á sig.“

Þá segir enn fremur frá því að Páll hafi upplýst lögreglu um að skilaboð hefðu verið send úr síma hans meðan hann lá sofandi í öndunarvél. Þau hafi beinst að samstarfskonu hans, sem eiginkona hans grunaði um að eiga í framhjáhaldi með Páli. Skilaboðin hafi verið þess eðlis.

„Páll sagði að í símanum hans væri búið að eyða út þessum skilaboðum og því hafði hann ekki haft hugmynd um þau fyrr en [samstarfskonan] lét hann vita af þeim.“

Líður og bíður

Líður nú vor og sumar í íslenskri sveit. Og lögregla virðist ekkert aðhafast meira í málinu uns eiginkona Páls er kölluð til skýrslutöku í Reykjavík í októbermánuði. Er henni þar kynnt að hún hafi stöðu sakbornings og að hún megi skorast undan því að svara spurningum ef ætla megi að í svari hennar felist játning eða bending um að hún eða aðili nákominn henni hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem geti valdið henni eða nákomnum aðila hennar siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni.

Þá segir í skýrslunni:

„X var boðið að tjá sig sjálfstætt um sakarefnið. X sagði það rétt að gögn voru tekin úr síma Páls. X sagðist hafa farið með síma Páls til fjölmiðla og þar hafi síminn verið afritaður í heild sinni. X sagðist hafa fengið símann aftur eftir sólarhring og þá hafi hún skoðað símann sjálf og hafi síminn innihaldið mikið af efni. X sagðist hafa séð í símanum myndir af Páli að hafa samfarir við aðrar konur.“

Viðurkennir eiginkonan að hafa tekið gögn úr símanum, afritað myndir og myndbönd.

Þá er hún spurð út í atburðina á Akureyri sem leiddu til þess að Páll var fluttur helsjúkur á sjúkrahús og að lokum suður til Reykjavíkur. Þar lýsir hún óánægju sinni með mikla símanotkun eiginmannsins og að hana hafi grunað að þar ættu sér stað óeðlileg samskipti fram hjá henni. Óskaði hún því eftir því við Pál að þau skiptust á símum og að það væri traustsmerki í hvors annars garð. Því hafi Páll hafnað.

Viðurkennir byrlun

„X sagðist svo hafa komið í svefnherbergið og veitt því athygli að brjóstahaldari hennar og náttkjóll voru ekki á sínum stað í herberginu. X sagðist hafa snöggreiðst við þetta og farið fram og náð í svefnlyf, sem hún vissi ekki af hvaða tegund var, og sett það út í bjór.“

Varð lýsing eiginkonunnar ekki lengri á málsatvikum þar sem verjandi hennar, Lára V. Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, stöðvaði framburð hennar og óskaði eftir því að hlé yrði gert á skýrslutökunni.

Breyttist framburður hennar nokkuð í kjölfarið, samkvæmt skýrslu lögreglunnar. Taldi hún eftir hlé að svefnlyfið sem rataði í bjórinn hefði ekki valdið Páli veikindum og þá þverneitaði hún að gefa upp hvaða fjölmiðlar hefðu veitt símanum viðtöku.

Það átti eftir að breytast. Innan tíðar komu nöfn upp úr krafsinu og í kjölfarið fylgdu gögn sem staðfestu síendurtekin og ítrekuð samskipti við lykilstarfsmenn Ríkisútvarpsins. Fjölmiðilsins sem ekki flutti fréttirnar af gögnunum úr síma Páls.

 Áframhald umfjöllunar um byrlunarmálið verður að finna í Morgunblaðinu sem berst áskrifendum inn um lúguna á þriðjudagsmorgun.

Höf.: Stefán E. Stefánsson