Pistill
Orri Páll Ormarsson
orri@mbl.is
Ekki verður logið upp á borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar, hann rís alltaf upp og endar í meirihluta, sama hvernig barið er á honum, hvort sem er af kjósendum eða samstarfsflokkum. Hann bara sleppir ekki takinu af borginni. Flokkurinn virðist meira að segja ætla að lifa af græna gímaldið. Þá djöflasýru. Þetta er einna helst farið að minna á The Hitcher, muniði ekki eftir honum? Rutger heitinn Hauer í sínu allra besta formi. Það var slétt sama hversu oft hann var drepinn, alltaf reis hann upp aftur. Tortryggnustu áhorfendurnir þorðu ekki öðru en að líta aftur við í bíóinu korteri eftir að textinn hafði rúllað yfir tjaldið til að tryggja að Hitcherinn væri örugglega ekki risinn upp – enn og aftur.
Nú síðast reyndi Einar Þorsteinsson borgarstjóri að koma hælkrók á borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar en varð ekki kápan úr því klæðinu. Lífseig er sú kenning að pólitísk klókindi Dags B. Eggertssonar, fyrrverandi borgarstjóra, hafi umfram annað ráðið því að flokkurinn hélt sér alltaf í meirihluta, enda virtist hann iðulega finna pláss til að koma enn einu varadekkinu undir vagninn, ef á þurfti að halda. En nú er Dagur á bak og burt, fékk aukahlutverk í uppfærslu Austurvallaróperunnar á Valkyrjunni eftir Richard Wagner. Fyrir vikið hefur Einar haldið að eftirleikurinn yrði auðveldur við að koma Samfylkingunni frá völdum. Ekki aldeilis. Reis þá ekki upp kona í allt öðru húsi og í allt öðrum flokki og hjó með flugbeittu sverði á fléttuna. Góðan daginn – og góða nótt!
Vonandi verður Ráðhúsið nú ekki að ráðleysishúsi en velta má fyrir sér hvort fimm flokka meirihluti sé á vetur setjandi, eða jafnvel á vor setjandi. Vinnuheitið, Kryddpíurnar, er heldur ekki gott. Skipti ekki ein af hinum upprunalegu Kryddpíum um hest í miðri á? Það veit ekki á gott. Annars munu þessar vendingar án efa ekki breyta neinu fyrir mitt hverfi, 116, enda efast ég um að margir borgarfulltrúar kunni að staðsetja það á korti.
Framsókn og Sjálfstæðisflokkur lofa kröftugri stjórnarandstöðu næsta árið fram að kosningum og vonast ábyggilega eftir því að Samfylkingunni hlekkist á og muni áfram tapa fylgi. Hún fái jafnvel ekki einn einasta mann kjörinn. Í ljósi sögunnar er samt engin leið að útiloka að flokkurinn endi þrátt fyrir það í meirihluta.