Pútín stjórnar í krafti ógnar og yfirgangs

Sjónir manna beinast nú til Münchenar. Þar stendur yfir árleg ráðstefna um öryggis- og varnarmál sem á upphaf sitt að rekja til þess að Berlínarmúrinn var reistur fyrir bráðum 75 árum.

Fyrir 18 árum steig Vladimír Pútín, forseti Rússlands, í pontu í München og flutti ræðu þar sem hann tilkynnti að Rússar væru hættir að þykjast vera auðmjúkir og bljúgir. Hann sakaði vestrið um hræsni og yfirgang. Fall kommúnismans hefði ekki verið sameiginlegur sigur Rússa og Vesturlanda. Rússar hefðu verið niðurlægðir, en niðurlægingin hefði einnig stælt Rússa til að takast á við grimman og siðlausan heim. Þessi ræða markaði þáttaskil.

Nú er Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, gestur á ráðstefnunni í München. Brátt eru þrjú ár frá gimmilegri innrás Pútíns í Úkraínu.

Málflutningur Selenskís byggist á því að ekki verði gengið fram hjá Úkraínu í að koma á friði.

Í raun misheppnaðist innrásin hrapallega. Pútín ætlaði sér að knýja fram stjórnarskipti í Kænugarði og draga Úkraínu inn á áhrifasvæði Rússa, ef ekki innlima landið.

Hann hefur hins vegar lagt undir sig hluta Úkraínu og sennilega verður ekki samið um frið nema hann haldi honum að miklu leyti.

Það er auðvitað ömurlegt að Pútín komist upp með sinn yfirgang. Um leið er rétt að hafa í huga fyrir hvað hann stendur. Á vígvellinum kann hann sér engin mörk.

Bók Sofi Oksanen, Í sama strauminn, um stríð Pútíns gegn konum var að koma út á íslensku. „Það kynferðisofbeldi sem beitt er í nafni rússneskra stjórnvalda í Úkraínu leikur lykilhlutverk í yfirstandandi þjóðarmorði á Úkraínum,“ skrifar Oksanen.

Fyrir nokkrum dögum var greint frá því að Rússar tækju stríðsfanga skipulega af lífi þvert á ákvæði Genfarsáttmálans.

Heima fyrir er stjórnað með ógnarhendi og þeim sem andæfa stríðinu eða votta Úkraínumönnum minnstu samúð er umsvifalaust hent í fangelsi.

Um leið stunda Rússar áróður og árásir af ýmsum toga á netinu og í Eystrasaltinu hrökkva neðansjávarstrengir í sundur og bila grunsamlega oft. Einn æðsti yfirmaður þýska sjóhersins segir í viðtali við Der Spiegel í gær að þar ríki ástand einhvers staðar á milli átaka og friðar.

Það er mikilvægt að stríðið í Úkraínu verði leitt þannig til lykta að Pútín gangi ekki frá borði með þær hugmyndir að hann geti haldið áfram að traðka á nágrönnum sínum.