Spennandi „Í heildina er Hin fordæmdu afar gott byrjendaverk með spennandi þema.“
Spennandi „Í heildina er Hin fordæmdu afar gott byrjendaverk með spennandi þema.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Smárabíó og Bíó Paradís The Damned / Hin fordæmdu ★★★½· Leikstjórn: Þórður Pálsson. Handrit: Jamie Hannigan og Þórður Pálsson. Aðalleikarar: Odessa Young, Joe Cole, Siobhan Finneran, Rory MCCann, Turlough Convery, Lewis Gribben, Francis Magee, Mícheál Óg Lane og Andrean Sigurgeirsson. England, Belgía, Ísland og Írland, 2025. 90 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Hin fordæmdu er erlend framleiðsla en leikstjórinn Þórður Pálsson er íslenskur og er þetta fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd. Myndin gerist í lok 19. aldar og fjallar um skuggalega atburði sem gerast í verbúð eftir að fólkið þar verður vitni að sjóslysi. Þessi litla verbúð er það eina sem aðalpersónan Eva (Odessa Young) á eftir en hún missti manninn sinn í sjóslysi ári áður. Eva er föst þarna yfir veturinn ásamt matráðskonunni Helgu (Siobhan Finneran) og sex sjómönnum. Það er kalt og matur er af skornum skammti. Þegar þau sjá skip sökkva við ströndina standa þau frammi fyrir erfiðri ákvörðun. Eru þau tilbúin að leggja líf sitt í hættu til að bjarga lífi útlendinga, vitandi að ekki er til nóg af mat fyrir þau öll? Þar sem Eva er eigandi verbúðarinnar er henni falið að taka ákvörðunina (og ef lesandi kærir sig ekki um að fá að vita hvaða ákvörðun Eva tekur er best að sá hinn sami hætti að lesa núna).

Eva ákveður að fylgja ráðum Ragnars (Rory McCann), og leggja ekki af stað í þessa björgunarferð. Daginn eftir finnur hún tunnu af kjöti sem hefur rekið á land og í von um finna fleiri tunnur með góðgæti á floti leggur teymið af stað á slysstaðinn. Þar eru hins vegar nokkrir erlendir sjómenn sem komust lífs af og bíða skjálfandi í klettunum. Þegar þeir sjá árabátinn stökkva þeir á hann, í von um að halda sér á lífi, en teymi Evu óttast að báturinn muni sökkva og gætir þess að enginn komist um borð, sama hvað það kostar. Atriðið er vel útfært hjá Þórði leikstjóra og leikarateyminu og eftir atriðið sitja áhorfendur eftir í mikilli geðshræringu. Líkt og persónur myndarinnar reyna áhorfendur að sjá fyrir sér hvernig þetta hefði getað farið öðruvísi og hver sé besta mögulega útkoman. Jafnframt reyna áhorfendur að sannfæra sjálfa sig um að persónur myndarinnar hafi ekki átt annarra kosta völ.

Umrætt atriði á sér stað snemma í myndinni og gefur tóninn fyrir restina af myndinni en eftir þessa uppákomu er fólkið í verbúðinni ofsótt af draug, einn af sjómönnunum er genginn aftur, fullur af hatri, til að hefna sín. Þessum draug fylgja margar túlkunarleiðir en ein þeirra er sú að það sé í raun enginn draugur heldur séu þau, sérstaklega Eva, bara þjökuð af sektarkennd sem blandast illa við hungrið og kuldann. Áhorfendur fá að sjá drauginn og, líkt og persónur myndarinnar, trúa því að hann sé raunverulegur. Drauginn leikur Andrean Sigurgeirsson og hann og förðunar- og búningateymið eiga mikið hrós skilið en það er ekki alltaf sem það tekst að gera draug í kvikmynd virkilega hræðilegan eins og í þessu tilfelli.

Hins vegar eru svokölluð „jumpscare“-skot, eða skot sem eiga að bregða áhorfendum með því að láta skelfilega mynd birtast skyndilega í rammanum í fylgd með háværri tónlist, mjög óspennandi. Oftar en ekki er það bara tónlistin sem gefur það í skyn að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast en svo er bara klippt í annað atriði með látum eða að einhver persóna kemur inn með fyrirgangi sem verður fljótt þreytandi.

Kvikmyndatakan hjá Eli Arenson er í heildina litið vönduð og hjálpar það mikið til hversu flott leikmyndin, búningarnir, förðunin og allt í myndheildinni (f. mise en scène) er. Það er að minnsta kosti óhætt að segja að það er greinilegt að Þórður var ekki að vinna með sama fjármagn og er í mörgum öðrum íslenskum kvikmyndum enda kostaði hún um 725 milljónir króna. Það eru mjög mörg flott drungaleg skot í myndinni sem hjálpuðu til við að skapa þessa óþægilegu tilfinningu hjá áhorfendum eins og til dæmis þegar aðalpersónan finnur Helgu krjúpandi í snjónum.

Í þokunni virðist þetta vera draugurinn sem er búinn að vera að hrella þau, myndavélin færist hægt og rólega nær draugnum en síðan flýgur höfuðið í burtu, í ljós kemur að þetta er hrafn sem situr á Helgu. Í kvikmyndatökunni er hins vegar oft óljóst hvort það er nótt eða dagur af því það er ekki nógu áþreifanlegur munur á tunglsljósi og dagsbirtu en það er eflaust viljandi til að sýna að persónur eru búnar að missa allt tímaskyn en draugurinn kemur aðeins á næturnar. Einnig var gaman að sjá hvernig tökumaðurinn notaði stundum bara kerti til að lýsa atriði sem á mjög vel við þar sem myndin gerist í lok 19. aldar, en það er auðveldara sagt en gert. Einnig er vert að nefna að maður finnur ekki fyrir náttúrukláminu sem er svo algengt í íslenskum myndum, þ.e.a.s. þegar fallega, íslenska náttúran er notuð sem ódýrt uppfyllingarefni.

Seinni hluti myndarinnar er frekar einsleitur að því leyti að það er alltaf það sama að gerast. Aðalpersónan Eva mætir ekki nýjum hindrunum heldur er það bara alltaf draugurinn sem flækist fyrir henni og sama atburðarásin á sér stað aftur og aftur, þar sem draugurinn kemur sér fyrir í einhverju horni í verbúðinni og einn sjómaðurinn missir vitið. Stærsta vandamálið við myndina er hins vegar að ekki tekst að búa til nægilega gott samband milli áhorfenda og persónanna. Áhorfendum stendur því nokkuð á sama þegar einhver þeirra deyr, þeir finna ekki til með persónunum af því þeim var aldrei hleypt inn fyrir. Það gerir það að verkum að þessi þungu og sorglegu atriði missa svolítið vægi. Myndin náði hins vegar að fanga rýni alveg í lokaatriðinu, sem er ótrúlega sterkt og býður upp á margar túlkunarleiðir sem gerir það að verkum að mann langar að horfa aftur á myndina nema nú í öðru ljósi.

Í heildina er Hin fordæmdu afar gott byrjendaverk með spennandi þema – þessa þrúgandi sektarkennd – sem gefur myndinni dýpt og opnar fyrir ýmsar túlkanir og gerir áhorfið enn áhugaverðara fyrir virka áhorfendur. Hins vegar missir myndin svolítið dampinn á köflum og persónusköpunin hefði mátt vera sterkari, þar sem skortur á tengingu við persónurnar dregur úr áhrifamætti atburða þegar þær mæta örlögum sínum.