Kvikmyndin Afleggjari hins helga fíkjutrés var tekin á laun í Íran og leikstjórinn flúði land skömmu áður en hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí í fyrra, þar sem hún hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar. Nú hefur hún verið tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir bestu erlendu myndina. Hér verður myndin sýnd á Þýskri kvikmyndahátíð, sem hefst í Bíó Paradís á fimmtudag.
Myndin gerist á tímum ólgu í Íran. Landið logar í óeirðum og mótmælum eftir andlát Möhsu Amini, sem lést árið 2022 í haldi siðferðislögreglunnar eftir að hafa verið handtekin á götu úti fyrir að hylja ekki hár sitt með fullnægjandi hætti.
Konur leiddu mótmælin og tóku af sér slæðurnar undir slagorðinu „konur, líf, frelsi“ til að mótmæla yfirgangi yfirvalda, sem svöruðu af hörku með þeim afleiðingum að mörg hundruð manns létu lífið.
Myndin fjallar um fjölskyldu í Teheran, höfuðborg landsins. Heimilisfaðirinn, Iman, er nýbúinn að fá stöðuhækkun og er orðinn rannsakandi, sem vekur væntingar um að brátt verði hann orðinn dómari. Við það mun hagur fjölskyldunnar vænkast og getur hún þá leyft sér nýja íbúð þar sem dæturnar tvær fái sitt hvort herbergið.
Óeirðir og sundrung
Framgangurinn á sér hins vegar stað um leið og óeirðirnar hefjast og Iman þarf að afgreiða mörg hundruð mál á dag án nokkurs tíma til yfirlegu. Í upphafi koma vöflur á hann, en hann hefur helgað líf sitt viðgangi klerkastjórnarinnar og skyldan kallar, auk þess sem hann kemst að því að forveri hans missti starfið vegna þess að hann neitaði að hlýða skipunum.
Dæturnar líta það sem er að gerast öðrum augum en faðirinn. Þær eru í skóla og lenda í hringiðu mótmælanna. Þær vita að konurnar sem eru að rífa af sér slæðurnar í mótmælaskyni eru rétt eins og þær, ekki „druslur“ eins og faðir þeirra kallar þær.
Á milli stendur móðir í klemmu. Hún vill styðja mann sinn, forðast vandræði og fá betri lífskjör en skilur einnig viðhorf dætranna.
Spennan á heimilinu fer vaxandi og þegar byssa hverfur úr náttborði heimilisföðurins fer allt úr böndunum.
Afleggjari hins helga fíkjutrés er pólitísk spennumynd, þótt atburðarásin sé full hæg framan af, og má segja að þessi litla fjölskylda sé notuð til að endurspegla ástandið í landinu.
Mohammad Rasoulof er leikstjóri myndarinnar og má segja að gerð hennar sé ekki síður efniviður í kvikmynd en myndin sjálf. Rasoulof sagði í viðtali við AFP þegar Afleggjari hins helga fíkjutrés var sýnd í Cannes í fyrra að það hefði tekið hann 20 ár að læra hvernig ætti að gera kvikmyndir á laun.
Lærði af kvölurum sínum
„Eftir því sem maður ver meiri tíma í yfirheyrslum, hjá leynilögreglunni, áttar maður sig betur á því hvernig á að afvegaleiða hana,“ sagði hann. „Þeir sýna þér tölvupóstana þína þannig að þú lærir hvernig á að skrifa þá. Þeir sýna þér bankayfirlitin þín þannig að þú áttar þig á hvenær hefði verið betra að nota ekki kreditkortið. Af því að umgangast þá áttar þú þig á hvernig þeir fundu þig og hvernig hægt er að tryggja að þeir finni þig ekki næst. Ég viðurkenni að það er smá glæpabragur á þessari atvinnugrein minni. En fangelsið er góður staður til að læra þessa hluti.“
Rasoulof fékk einnig hugmyndina að söguþræði myndarinnar í fangelsi.
„Sagan í myndinni sprettur af persónulegri reynslu,“ sagði Rasoulof í viðtali sem fréttakonan Christiane Amanpour tók fyrir CNN. „Þegar hreyfingin Konur, líf, frelsi hófst var ég í fangelsi. Mín reynsla af þessari uppreisn fólst í því að sjá áhrif hennar á fólk sem vann í fangelsinu. Ég rakst á háttsettan embættismann fangelsisins, sem virtist þekkja mig. Hann kom upp að mér og sagði mér á laun hvað hann skammaðist sín fyrir sjálfan sig og hann væri jafnvel að hugsa um að svipta sig lífi. Svo sagði hann mér að fjölskylda sín, börnin sín, gerðu ekki annað en að gagnrýna sig og spyrja sig hvers vegna hann starfaði í þágu kerfisins, í þágu þessarar kúgunar.“
Þar bættist við reynsla hans í áranna rás af því að glíma við yfirvöld. „Ég hef oft verið yfirheyrður. Ég hef setið í fangelsi. Ég hef farið fyrir dómstóla. Og alltaf spurði ég sjálfan mig hvernig þetta fólk fengi af sér að vinna fyrir kerfið.“
Innblástur frá unga fólkinu
Rasoulof sagði að í framhaldinu hefði hann farið að velta fyrir sér þátttakendunum í mótmælunum. „Þegar ég losnaði úr fangelsinu fór ég síðan að horfa á þessi hryllilegu myndskeið sem mótmælendur höfðu sjálfir tekið af kúguninni og ég tók eftir því hvað þetta unga fólk veitti mikinn innblástur og þá sérstaklega þessar ungu konur.“
Því hefði hann ákveðið að segja sögu með víðara sjónarhorni: „Og ég er undir miklum áhrifum frá ungu kynslóðinni í Íran.“
Slík myndskeið urðu síðan lykilþáttur í myndinni. Hann gat ekki tekið upp mótmælaatriði á götum Teheran vegna yfirvalda. Þess í stað skeytti hann myndskeiðum af félagsmiðlum inn í myndina til að miðla andrúmsloftinu í samfélaginu meðan á mótmælunum stóð. Þar má sjá hvar lögregla lætur til skarar skríða gegn mótmælum og fólk liggur í blóði sínu.
Snerust gegn fjölskyldu og vinum
Rasoulof segir að myndin snúist um nútímasögu Írans. „Ég hef heyrt að í upphafi byltingarinnar hafi svo margir, sem tóku þátt í henni og voru mjög uppteknir af hugmyndafræðinni, framið mestu ofbeldisverkin á sínum nánustu, úr eigin fjölskyldu, eigin ættingjum. Þeir dæmdu sín eigin börn til dauða og svo má telja og þetta hefur alltaf fylgt mér,“ sagði hann. „Hins vegar fékk ég þá hugmynd að í þessari mynd væri hægt að sýna hvernig undirgefni við valdið leiðir til öfgahyggju og hvernig öfgahyggjan síðan leiðir til ofbeldis.“
Það var ekki áhlaupaverk að gera mynd í Teheran í andstöðu við stjórnvöld. Yfirleitt var Rasoulof ekki á tökustað vegna þess að fylgst var með honum og stundum stóð hann álengdar. Leikarar fengu oft ekki að vita tökustaði fyrr en nokkrum tímum fyrir tökur og stundum þurfti að fresta fyrirvaralaust. Það átti sérstaklega við um útitökur. Grunsamlegar mannaferðir gátu nægt til að hver færi sína leið.
En það voru líka spaugileg atvik. Einhverju sinni var verið að mynda atriði á götu úti þar sem konur voru með hulið höfuð og vegfarendur áttu leið hjá. „Enn ein grátlega ríkisframleiðslan, enginn á eftir að horfa á þetta,“ sagði annar. „Ef þau bara vissu,“ hugsaði einn í tökuliðinu með sér.
Að sama skapi þurfti að fara varlega við að koma efninu úr landi til að hægt væri að klippa myndina. Ekki var hægt að nota venjulegan tölvupóst og voru búnir til skuggareikningar til að vera skrefi á undan ritskoðurunum.
Rasoulof hefur tvisvar verið dæmdur í fangelsi og alls setið inni í 11 mánuði, þar af 65 daga í einangrun. Árið 2020 fékk hann eins árs dóm vegna myndarinnar Það er engin illska, sem fjallar um dauðarefsinguna í Íran. Fyrir þá mynd fékk hann reyndar einnig Gullbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín sama ár.
Meðan á fangavistinni stóð þurfti að leggja hann inn á sjúkrahús. Þar heyrði hann tvo fangavarða sinna tala um að þeir hefðu séð ræningjaútgáfu af myndinni Það er engin illska – hún hefur ekki verið sýnd opinberlega í landinu – og verið hrifnir af henni. Fór svo að þeir horfðu aftur á myndina með honum á sjúkrahúsinu.
Dæmdur í átta ára fangelsi
Á meðan á gerð myndarinnar Afleggjari hins helga fíkjutrés stóð var Rasoulof dæmdur í átta ára fangelsi og til hýðingar að auki fyrir að grafa undan ríkinu. Margir úr leikarahópnum og tökuliðinu voru færðir til yfirheyrslu. Lögmaður hans sagði að refsingin yrði ekki umflúin, en hann gæti fengið nokkurra vikna gálgafrest með því að reyna að áfrýja. Það gaf honum tíma til að ljúka við myndina. Þegar leið að því að hann skyldi hefja afplánun lét hann fætur toga. Þar kom sér aftur vel að hafa setið inni. Í fangelsinu hafði hann kynnst andófsmönnum, sem nú hjálpuðu honum að laumast úr landi. Það tók hann tvær vikur að komast til Þýskalands, þar sem hann hefur fengið hæli og reyndar er myndin framlag Þjóðverja til Óskarsverðlaunanna.
Leikararnir sem leika systurnar, Mahsa Rostami og Setareh Maleki, flúðu einnig til Þýskalands. Shoeila Golestani og Misagh Zareh, sem leika foreldrana, eru hins vegar enn í Íran. Golestani hefur verið ákærð fyrir að breiða út spillingu og grafa undan stjórn landsins. Fleiri sem komu að gerð myndarinnar eru undir þrýstingi.
Rasoulof segist ekki hafa átt annars kost en að flýja Íran. Hann eigi eftir að gera margar myndir og ekki sé hægt að gera bíómyndir í fangelsi.
„Þarna er ástand alræðis, einræði hefur fest rætur í landinu í nafni trúar,“ segir Rasoulof. „Íslamska lýðveldið er með írönsku þjóðina í gíslingu.“