Svo langt sem rýmið leyfir er titill sýningar Kristjáns Guðmundssonar í i8 gallerí. Á sýningunni er ný og stór innsetning sem hefst á vinstri hönd sýningarrýmisins með ætingu á pappír. Tvö rauð horn ætingarinnar virka sem afmarkandi þættir og skapa reglu þar sem sérhver eining lengist þegar líður á rýmið.
„Hérna er bara ein aðferð notuð, ég teygi úr hlutnum þangað til hann er orðinn svo langur að hann nánast brýst úr rýminu. Þetta verk er ekki að laga sig að rýminu heldur treður sér eins langt og hægt er. Það er frekt og árásargjarnt. Ef það væri sýnt í miklu stærri sal hefði ég bara bætt við það. Verkið er endalaust. Það vísar ekki út fyrir sig, hefur ekki skoðun á neinu, boðar ekkert, það hefur einungis eina löngun, sem er að lengjast,“ segir Kristján.
Samhliða sýningunni í i8 er Kristján einnig með einkasýninguna Átta ætingar í Listasafninu á Akureyri. Verkin, sem eru sýnd í fyrsta skipti á Íslandi, eiga sér hliðstæðu sem birtist í bókverkunum Prints (2002) og Prints 2 (2002). Verkin eru öll í einu eintaki.
„Ég gerði þessi grafíkverk árið 2002 fyrir sýningu sem ég hélt í galleríi í Þýskalandi. Ingibjörg Jóhannsdóttir þrykkti þau fyrir mig, þá var hún grafíker og er núna safnstjóri Listasafns Íslands. Síðan hafa þessi verk legið í geymslu hjá mér,“ segir Kristján.
Grípur það sem hentar
Kristján er þekktur fyrir konseptlist sína en ekki síður fyrir bókverk sín. „Ég byrjaði snemma að gera bókverk. Fyrsta bókverkið varð til árið 1972 þegar ég hugsaði: „Hvað er það minnsta sem ég þarf að gera til að verða ljóðskáld?“ Útkoman af því varð að ég fékk vinkonu mína Jóhönnu Ólafsdóttur, sem vann hjá Árnastofnun, til að ljósmynda af handahófi þrjá punkta úr útgefnu ljóðasafni Halldórs Laxness. Ég fór svo með þessar ljósmyndir upp í Hólaprent og punktarnir voru stækkaðir 1500-falt og prentaðir aftur.“
Kristján, sem er einn þekktasti núlifandi myndlistarmaður landsins, er sjálflærður í myndlist. Blaðamaður spyr hvort það hafi hjálpað honum eða hindrað hann á einhvern hátt í listinni. Hann svarar: „Það er í rauninni enginn sjálfmenntaður í myndlist. Þótt ég hafi ekki farið í listaskóla menntaðist ég af öðrum listamönnum sem ég hef umgengst, bæði eldri og yngri. Maður grípur það sem hentar og hafnar öðru.“
Ekki undrabörn í myndlist
Spurður hvort hann vinni reglulega að list sinni neitar hann því. „Ég hugsa eitthvað um list á hverjum degi en ég er ekki mikið að vinna. Samt er ég núna með tvær einkasýningar, hér í i8 og á Akureyri, og svo er ég að ganga frá sýningu í Berlín sem verður opnuð 1. maí og þar sýni ég þrívíðar teikningar. Ég fer ekki sjálfur þangað heldur sendi strákana mína.
Ég hef verið að hugsa um það hvenær myndlistarmenn séu virkastir. Mér sýnist að þeir séu virkastir á milli þrítugs og sextugs. Það eru engin undrabörn til í myndlist, ekki eins og í tónlist. Það er enginn Mozart í myndlistinni. Myndlistarmenn sem gera eitthvað af viti eru nær alltaf komnir yfir tuttugu og fimm ára aldurinn. Þeir hafa ekki þessa meðfæddu snilligáfu sem tónlistarmenn, og jafnvel skáld, geta haft sextán, sautján ára gamlir. Myndlistarmenn þroskast seinna.“
Sýning Kristjáns í i8 stendur til 22. mars og sýning hans á Akureyri stendur til 4. maí.