Birmingham Alfons Sampsted gekk til liðs við Birmingham frá Twente í Hollandi síðasta sumar en hefur lítið spilað vegna meiðsla og veikinda.
Birmingham Alfons Sampsted gekk til liðs við Birmingham frá Twente í Hollandi síðasta sumar en hefur lítið spilað vegna meiðsla og veikinda. — Ljósmynd/Birmingham City
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Alfons Sampsted er allur að koma til eftir að hafa slitið liðband í ökkla í leik með íslenska landsliðinu gegn Wales í lokaleik liðsins í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í Cardiff 19

England

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Knattspyrnumaðurinn Alfons Sampsted er allur að koma til eftir að hafa slitið liðband í ökkla í leik með íslenska landsliðinu gegn Wales í lokaleik liðsins í 4. riðli B-deildar Þjóðadeildarinnar í Cardiff 19. nóvember á síðasta ári.

Alfons, sem er 26 ára gamall, er samningsbundinn Birmingham í ensku C-deildinni en hann gekk til liðs við enska félagið frá Twente í Hollandi síðasta sumar.

Hann hefur lítið spilað með liðinu á yfirstandandi keppnistímabili vegna bæði meiðsla og veikinda en hann hefur komið við sögu í átta deildarleikjum með liðinu og hefur hann komið inn á sem varamaður í þeim öllum. Þá hefur hann leikið sex bikarleiki í þremur keppnum. Þrátt fyrir það er hann fullur eldmóðs og staðráðinn í að hjálpa liðinu að tryggja sér sæti í ensku B-deildinni í vor.

Matareitrun og nýrnabólga

„Loksins er maður heill heilsu og tilbúinn í slaginn,“ sagði Alfons í samtali við Morgunblaðið.

„Síðustu mánuðir hafa verið frekar þungir, andlega, en ég hef æft af fullum krafti undanfarna daga og hlakka mikið til þess að komast aftur inn á völlinn. Ég fór vel af stað í haust, fékk mínútur og var að nálgast byrjunarliðssæti í liðinu. Ég lenti svo í því að fá matareitrun í landsliðsverkefni í október og veikindin héldu mér frá keppni í einhvern tíma.

Ég sleit svo liðband í ökkla í landsliðsglugganum í nóvember og síðast lenti ég í nýrnabólgu. Ég pissaði blóði í nokkra daga, þannig að þetta hefur verið hvert áfallið á fætur öðru. Ég hef því aldrei náð almennilegum takti með liðinu alveg frá því að ég kom og það hefur verið ansi þreytandi,“ sagði Alfons.

Birmingham trónir á toppi ensku C-deildarinnar með 66 stig eftir 28 umferðir, er með sjö stiga forskot á Wycombe Wanderers, sem er í öðru sætinu, og auk þess á leik til góða. Birmingham hefur aðeins tapað tveimur leikjum í deildinni allt tímabilið, en síðasti tapleikur liðsins var gegn Shrewsbury 23. nóvember á útivelli.

Þarf að nýta tækifærið

„Tilfinningin er sú að ég hafi alltaf verið kominn ansi nálægt byrjunarliðinu en svo lendi ég í því að meiðast og þá byrjar maður aftur á núllpunkti. Maður er í þessu til þess að spila fótbolta og það er erfitt þegar það gengur ekki upp. Mér finnst ég vera nálægt liðinu í dag en á sama tíma hefur gengið verið frábært að undanförnu.

Það er erfitt að sjá fyrir sér að þjálfarinn muni gera miklar breytingar en ég held að sjálfsögðu í vonina. Ég tel mig eiga heima í byrjunarliðinu og það er mikið af leikjum í C-deildinni, og svo er neðrideildabikarinn líka í gangi. Það kemur að því að maður fær tækifæri og þá er það algjörlega undir sjálfum mér komið að nýta það til hins ítrasta.“

Allt öðruvísi stíll

Alfons lék með Twente í Hollandi í eitt ár eftir þrjú tímabil í herbúðum Bodö/Glimt þar sem hann varð tvívegis norskur meistari.

„Stíllinn á fótboltanum hérna er allt annar en í Hollandi. Hollendingurinn er mikið í þessum áferðarfallega fótbolta þar sem allt snýst um það að halda í boltann. Þeir vilja spila skemmtilegan fótbolta og mun minna er til dæmis um alvöru einvígi og návígi inni á vellinum, ólíkt því sem gengur og gerist á Englandi.

Hérna þarf maður að berjast fyrir tilverurétti sínum í hverjum einasta leik, inni á vellinum. Þær eru nokkrar alvöru tæklingarnar sem þú lendir í en ég fíla mig mjög vel á Englandi. Stuðningsmennirnir hérna eru frábærir og þeir eru hjartað og sálin í félaginu. Gengið hefur auðvitað verið mjög gott, þannig að þeir hafa ekki yfir miklu að kvarta þessa dagana.“

Vildi berjast fyrir sínu

Alfons var lánaður til Birmingham fyrir þetta tímabil og í samningi hans við félagið er kveðið skýrt á um að enska félagið þurfi að kaupa hann í sumar.

„Eins og staðan er í dag hefur ekkert breyst og ég mun alfarið ganga til liðs við Birmingham í sumar frá Twente. Ég átti gott spjall við forráðamenn félagsins á dögunum því mér stóð til boða að fara annað á láni. Þeir lögðu hins vegar áherslu á að halda mér og þeir sjá mig sem framtíðarmann innan liðsins.

Ég ákvað því að vera um kyrrt og berjast fyrir mínu. Við erum í bullandi toppbaráttu og markmiðið er að sjálfsögðu að fara upp um deild. Þetta er félag sem á ekki heima í C-deildinni, þetta er félag sem var í efstu deild þegar maður byrjaði að fylgjast með enska boltanum og við ætlum okkar stóra hluti á komandi árum.“

Undir þjálfaranum komið

Alfons var fastamaður í íslenska landsliðinu þegar Åge Hareide var með liðið en Arnar Gunnlaugsson var ráðinn landsliðsþjálfari á dögunum.

„Ég hef ekkert heyrt í Arnari en ég er mjög spenntur að sjá og heyra hvernig hann sér hlutina fyrir sér. Hann gerði frábæra hluti með Víkingana og þetta er þjálfari sem vill spila flottan fótbolta. Ég held að mannskapurinn sem hann hefur úr að velja hjá landsliðinu henti mjög vel þegar kemur að hugmyndafræði Arnars um fótbolta.

Ég tel mig vera í nægilega góðu formi til þess að spila með landsliðinu í dag en þetta er að sjálfsögðu undir þjálfaranum komið. Ég þarf fyrst og fremst að einbeita mér að því að fá mínútur með Birmingham og koma mér í almennilegt leikform. Vonandi mun það svo skila mér sæti í landsliðinu þegar þar að kemur,“ bætti Alfons við í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason