Guðmundur Sv. Hermannsson
Írar eru enn að gera upp við ljótan kafla í sögu sinni, Magðalenuþvottahúsin svonefndu sem voru um aldir rekin á vegum kaþólsku kirkjunnar og ríkisins. Þangað voru ungar ógiftar stúlkur, sem höfðu orðið þungaðar, sendar til að eiga börn sín, sem gjarnan voru tekin af þeim eða jafnvel dóu vegna illrar meðferðar.
Írskir listamenn hafa á síðustu árum fjallað talsvert um þessi mál, það má minnast á skáldsöguna Smámunir sem þessir eftir Claire Keegan, sem kom út hér fyrir rúmu ári og vakti mikla athygli. Bókin hefur síðan verið kvikmynduð með Óskarsverðlaunaleikaranum Cillian Murphy í aðalhlutverki.
Og nú er hægt í Sjónvarpi Símans að horfa á framhaldsþætti sem nefnast Konan í veggnum og voru raunar framleiddir af breska ríkisútvarpinu BBC en gerast á Írlandi og fjalla um konu sem enn er að leita að barni sínu þrjátíu árum eftir að það var tekið af henni í Magðalenuþvottahúsi. Þetta eru myrkir þættir um miklar tilfinningar og erfiða reynslu sem markar líf persónanna. Þótt stundum sé í fléttunni farið út að ystu mörkum trúverðugleikans halda þættirnir áhorfandanum og vekja hann til umhugsunar um grimmd mannskepnunnar og mátt vonarinnar.