Kristján Kristjánsson er kvikmyndagerðarmaður og markaðsstjóri Menningarfélags Akureyrar.
Kristján Kristjánsson er kvikmyndagerðarmaður og markaðsstjóri Menningarfélags Akureyrar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var um sex ára aldurinn að amma mín, Dýrleif Jónsdóttir Melstað, amma Didda, sat með mér og kenndi mér að lesa upp úr Halldórs Laxness-safni hennar og Óla afa. Hún valdi það frekar en Morgan Kane-safnið

Það var um sex ára aldurinn að amma mín, Dýrleif Jónsdóttir Melstað, amma Didda, sat með mér og kenndi mér að lesa upp úr Halldórs Laxness-safni hennar og Óla afa.

Hún valdi það frekar en Morgan Kane-safnið.

Upp frá því varð lestur uppáhaldsiðja mín, enda ekkert jafn ólgandi ævintýralegt og að geta synt um í sögum.

Ég var áskrifandi að öllum hasarblöðum Siglufjarðarprentsmiðju og upplifði á þann háttinn alls kyns ævintýraheima. Þar man ég eftir Gög og Gokke, Tarzan og syni Tarzans, honum Kórak. Allt voru þetta alvöru hasarsögur sem vörpuðu manni út úr hversdagsleikanum. Síðan voru það Enid Blyton-bókaseríurnar og Narníuheimur C.S. Lewis sem maður hámaði í sig en það var ekki fyrr en ég komst í bækur Jan Terlouw sem ég varð algjörlega hugfanginn af bókmenntum. Þessi hollenski þingmaður náði einhvern veginn að skrifa unglingabækur sem báru mikla virðingu fyrir gáfum unglinga og gerðu mig að miklum aðdáanda. Stríðsvetur, Í föðurleit og Barist til sigurs í þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar voru bækur sem ég sökkti mér í.

Þegar ég var neyddur til að lesa skyldubókmenntir í 8.-10. bekk dvínaði áhugi minn á lestri, enda er það glórulaus vitleysa að þröngva bókmenntum upp á fólk. Gísla saga Súrssonar og einhver Halldórs-bókin voru því miður bara ákaflega leiðinlegar bækur, það sama gilti um Midt om natten.

Ég náði þó að endurvekja áhugann þegar ég uppgötvaði Stephen King. The Shining er sennilega ein af örfáum bókum sem ég hef lesið tvisvar í beit, slík áhrif hafði hún á mig. Ritstörf hans heilla mig ekkert endilega í gegnum ofbeldi eða hrylling, heldur er það hans einstaka leið að skrifa um innri baráttu manneskjunnar og mannlegan breyskleika í sínu ýktasta formi sem heldur mér í heljargreipum.

Aðrir minnisstæðir höfundar eru t.d. Arto Paasilinna, Neil Gaiman og Khaled Hosseini.

Vigdís Gríms, Auður Ava og margar af bókum Guðrúnar Evu hafa heillað og hef ég margoft lesið sögur Guðrúnar upphátt fyrir eiginkonu mína, sérstaklega á meðan hún er í baði. Smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey er frábært, sem og Yosoy.

Þessa dagana er ég að lesa nýjustu bókina um rauðhærða risann frá Súðavík eftir Stefán Mána og bíð spenntur eftir nýjustu bók Joe Hill.