Áhugi Gestir ávarpaðir fyrir frumsýningu einnar myndarinnar.
Áhugi Gestir ávarpaðir fyrir frumsýningu einnar myndarinnar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Georgiana Pogonaru, ræðismaður Íslands í Rúmeníu, segir norrænt listafólk njóta vaxandi hylli í Rúmeníu og sé Norræna hátíðin til vitnis um það. Með því sé verið að fylgja eftir vel heppnaðri kvikmyndahátíð með norrænum kvikmyndum í Búkarest haustið 2023

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Georgiana Pogonaru, ræðismaður Íslands í Rúmeníu, segir norrænt listafólk njóta vaxandi hylli í Rúmeníu og sé Norræna hátíðin til vitnis um það. Með því sé verið að fylgja eftir vel heppnaðri kvikmyndahátíð með norrænum kvikmyndum í Búkarest haustið 2023.

Hátíðin, sem nefnist Nordic Festival á ensku, var sett á fimmtudag og henni lýkur á morgun.

Rúmenskt kvikmyndaáhugafólk fékk þar tækifæri til að sjá kvikmynd Hilmars Oddssonar, Á ferð með mömmu, og kvikmynd Ninnu Pálmadóttur, Einvera, en við það tækifæri ræddi Ninna við gesti.

Þá fer fram málþing í dag undir yfirskriftinni Bókmenntir fjarðanna: Milli himins og jarðar á Íslandi en við það tilefni kemur skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar, Fjarvera þín er myrkur, út á rúmensku.

Samtal um arkitektúr

Loks tekur Sigurjón B. Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, þátt í umræðum um húsagerðarlist ásamt Paula Popoiu.

Að sögn Pogonaru er hátíðin skipulögð af danska sendiráðinu í Búkarest, finnska sendiráðinu í Búkarest, skrifstofu ræðismanns Íslands í Rúmeníu, og sendiráðum Noregs og Svíþjóðar í Búkarest.

Pogonaru hefur mikinn hug á að kynna íslenska menningu í Rúmeníu. Rætt var við hana í Morgunblaðinu í júlí 2022 en hún bauð þá ungum Íslendingum að sækja um að gerast sjálfboðaliðar vegna menningarstarfs í Rúmeníu.

Aukin samskipti landanna

Samhliða þessu kynningarstarfi í Rúmeníu hafa tengsl landsins við Ísland styrkst með auknum aðflutningi Rúmena til landsins.

Þannig hafa rúmlega fjögur þúsund fleiri Rúmenar flutt til landsins en frá því frá aldamótum. Þar af ríflega 1.300 frá ársbyrjun 2021 til ársloka 2023, samkvæmt Hagstofunni.

Heimsókn Morgunblaðsins til Búkarest vorið 2022 leiddi hins vegar í ljós að samfélag Íslendinga í Rúmeníu er miklu smærra en rúmenska samfélagið á Íslandi.

Íslenskt listafólk hefur sýnt Rúmeníu áhuga. Meðal annars hafa þau Ólöf Nordal, Þorlákur Einarsson, Sigurður Atli Sigurðsson, Olga Lilja Ólafsdóttir og Auður Jörundsdóttir tekið samtalið um myndlist við rúmenskt listafólk.

Mynd Lilju á hátíðinni

Fram kemur í dagskrá Norrænu hátíðarinnar í Búkarest að mynd leikstjórans og handritshöfundarins Lilju Ingólfsdóttur, Elskling eða Lovable eins og hún heitir á ensku, var einnig tekin til sýninga í kvikmyndahúsinu Cinema Elvire Popesco, sem er við Dacia-breiðgötuna í Búkarest, eins og skrifstofa ræðismanns Íslands í Rúmeníu.

Rúmenskir fagurkerar hafa því úr mörgu að velja.

Höf.: Baldur Arnarson