Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Ég skrifaði fyrsta uppkastið að þessari bók fyrir um tíu árum, en sú útgáfa var ekki svona blóðug eins og endanlega útgáfan varð. Það var eitthvað við þessa sögu sem mig langaði að vinna meira með og fyrir um tveimur árum ákvað ég að gera hana blóðugri, þá small hún betur,“ segir Hildur Knútsdóttir rithöfundur um nýju nóvelluna sem hún sendi frá sér nú í upphafi árs. Bókin heitir Gestir, og er blóðugur spennutryllir þar sem segir af tveimur ungum konum sem kynnast í gegnum læðu annarrar þeirra sem fer að venja komur sínar til hinnar. Í kjölfarið tekst einlæg vinátta með þeim og smám saman hleypa þær hvor annarri inn í sína myrkustu kima, áföll og ástarsambönd. Þegar ógn steðjar að standa þær saman, jafnvel þótt það kosti ósegjanlega glæpi.
„Þegar fólk er í ofbeldissamböndum þá getur verið erfið staða fyrir þá sem fyrir utan standa að finna út hvað er hægt að gera til að hjálpa. Ég fór því að lesa mér til um ofbeldissambönd og kynna mér málin,“ segir Hildur sem þrátt fyrir blóðuga atburði nær að lauma húmor inn í söguna, þar er lúmskur glettnislegur undirtónn.
„Í þessari sögu skapast mjög fáránlegar aðstæður og ég held að fólk í raunheimum takist einmitt oft á við slíkar aðstæður með einhvers konar húmor. Stundum bregst fólk við með nánast ósjálfráðum taugaveikluðum hlátri, í mjög ófyndnum aðstæðum, jafnvel grafalvarlegum. Mér fannst því liggja beint við að setja smá húmor í blóðugasta hluta bókarinnar, annars hefði þetta orðið banalt.“
Hildur segir nýju bókina vera þá fjórðu í einhvers konar kattafjórleik.
„Nóvellurnar mínar sem á undan komu, Myrkrið milli stjarnanna, Urðarhvarf og Mandla, þær fjalla allar, rétt eins og þessi nýjasta, um konur, ketti og ofbeldi. Þessar fjórar bækur eru því þematískt tengdar, en Gestir verður síðasta kattabókin, í nýju bókinni minni sem ég er núna að skrifa er enginn köttur,“ segir Hildur sem hefur sjálf átt marga ketti yfir ævina.
„Alveg frá því að ég var barn hef ég átt ketti, en ég á reyndar hund núna og það sem mér finnst verst við það er að nú get ég ekki lengur spjallað við og klappað köttum sem verða á vegi mínum þegar ég fer út að ganga með hundinn, því þeir eru hræddir við hundinn.“
Djúp skúffa hugmynda
Hildur er afkastamikill höfundur, hún hefur sent frá sér 20 bækur á þeim 14 árum sem liðin eru frá því fyrsta bókin hennar, Sláttur, kom út, en þá var hún aðeins 26 ára. Hún hefur því nokkrum sinnum sent frá sér tvær bækur á ári.
„Ég er með djúpa skúffu af hugmyndum. Ég er yfirleitt með nokkrar hugmyndir í gangi sem eru mislangt komnar, þetta er svolítið eins og að vera með kveikt á nokkrum hellum á eldavélinni samtímis, en ég er skipulögð í skrifunum. Ég skrifa kannski samfellt í um hálft ár, en hinn helminginn af árinu nota ég til að hugsa og vinna í hugmyndum. Ég sest ekki niður og byrja að skrifa bók fyrr en ég veit hvað þar eigi að gerast, frá upphafi til enda. Ég er því búin að móta sögurnar mjög vel í huganum áður en ég sest niður, og þá get ég verið mjög fljót að skrifa fyrsta uppkastið, en svo þarf ég auðvitað að endurskrifa. Ég er fyrir löngu búin að læra að það hentar mér ekki að vera að skrifa á haustin þegar ég er að gefa út bók fyrir jólin og þarf að gera allt sem fylgir nýútkominni bók, mæta víða til að lesa upp og fara í viðtöl. Mér finnst það ekki henta vel með skrifunum, mér hentar betur að hafa langan samfelldan tíma þar sem ég er ekki að gera neitt annað en að skrifa.“
Ég veit hvað virkar fyrir mig
Hildur segir að skriftarþol hennar hafi vaxið á þeim 14 árum sem hún hefur fengist við ritstörf.
„Þegar ég var að byrja að skrifa voru afköst góðs skriftardags kannski 500 orð, en núna reyni ég að ná 3.000 orðum á dag. Ég er líka búin að læra að setjast ekki niður og byrja að skrifa fyrr en hugmyndin er fullmótuð, því annars verður það bara tímaeyðsla. Ef ég byrja of snemma þá lendi ég frekar í vandræðum með skrifin og það tefur. Ég er búin að læra hvað virkar fyrir mig. Ég hef líka fundið þor til að prófa eitthvað öðruvísi, til dæmis að skrifa nóvellur, en þegar ég var að byrja minn feril fannst mér eins og skáldsagan væri eina alvöru formið. Undanfarin ár hef ég skrifað til skiptis nóvellur og skáldsögur, en nóvellan er styttri og framvindan hraðari en í langri skáldsögu, og það tekur styttri tíma að skrifa í snörpu formi nóvellunnar. Ég var til dæmis mjög fljót að skrifa þessa nýju bók, Gesti, en þegar ég er fljót að skrifa þá finnst mér eitthvað vera að virka, þá er gott flæði í sögunni,“ segir Hildur sem skrifar bækur bæði fyrir fullorðna og ungmenni og hefur átt velgengni að fagna. Hún hefur raðað inn verðlaunum og sumar bóka hennar hafa verið þýddar á önnur tungumál. Hún játar því að velgengnin hafi eflt hana sem rithöfund og verið hvetjandi.
„Ég er líka komin með þykkan skráp, ég tók til dæmis nærri mér dóma um bækurnar mínar í upphafi ferils míns, en núna tek ég þá ekkert nærri mér. Ef ég er ánægð með bókina sem ég skrifa hverju sinni, þá pæli ég miklu minna í því hvað einhverjum öðrum finnst um hana. Ég var líka miklu spéhræddari og stressaðri yfir viðtökum þegar ég var yngri, fannst erfitt að láta fólk lesa og sjá hvað ég væri að skrifa, mér fannst það svo persónulegt. Mér finnst það ekki lengur, núna er þetta fyrst og fremst vinnan mín sem ég kann vel við, að skrifa sögur og skapa heima,“ segir Hildur og bætir við að þegar bók komi út eftir hana sé hún alltaf byrjuð að skrifa eitthvað annað.
„Þá er ég búin að skilja við hugmyndina sem er nýkomin út á bók, og farin að pæla í einhverju öðru. Sú var ekki raunin í upphafi, ég man þegar fyrsta bókin mín, Sláttur, var að koma út, þá fannst mér ég ekki geta byrjað að skrifa neitt annað fyrr en bókin væri komin í búðir og ég búin að fá einhver viðbrögð við henni. Ég var svolítið eins og lömuð og verklaus á meðan ég beið eftir að hún kæmi út, en það er sem betur fer liðin tíð, núna snýst þetta meira um hvað mér finnst sjálfri um verkin mín. Ég hef náð að aftengjast viðbrögðum, viðtökum og dómum. Ég hefði ekki trúað því þegar ég gaf út mína fyrstu bók ef einhver hefði sagt að ég kæmist þangað, að hætta að taka það inn á mig.“