Skák
Helgi Ólafsson
helol@simnet.is
Það er í sjálfu sér ekki óalgengt að keppnismaðurinn „brenni af“ í góðu færi á ögurstundu. Á stórmótinu í Wijk aan Zee á dögunum gerðist það að tveir efstu menn, Indverjarnir Gukesh og Praggnanand, töpuðu báðir í lokaumferðinni en frammistaða þeirra fram að því hafði verið með slíkum ágætum að það breytti ekki meginniðurstöðu mótsins: þeir urðu samt jafnir í efsta sæti. Þetta minnti á úrslit áskorendamótsins í London 2013, en þegar lokaumferð þess hófst voru Magnús Carlsen og Vladimir Kramnik efstir og jafnir. Þeir töpuðu báðir síðustu skákinni en urðu samt efstir og jafnir en Norðmaðurinn var með betri mótsstig og öðlaðist réttinn til að skora á heimsmeistarann Anand.
En þeir eru líka til sem standast álagið þegar mikið liggur við. Og rifjast þá upp að þessa dagana eru 50 ár liðin frá því að Guðmundur Sigurjónsson stóð frammi fyrir þeirri þraut að vinna skák sína í lokaumferð Hastings-mótsins sögufræga, en með sigri gat hann öðlast nafnbót stórmeistara. Þetta voru merkir tímar í skáksögu Englendinga því að Jim Slater, maðurinn sem tvöfaldaði verðlaunaupphæðina í einvígi Fischers og Spasskís, hafði heitið hverjum þeim Breta sem fyrstur yrði stórmeistari fimm þúsund sterlingspunda verðlaunum. Mótið í Hastings þótti heppilegur vettvangur til þess að krækja sér í áfanga að titlinum. Guðmundur hafði reynst heimamönnum erfiður og enginn þeirra komst á „pall“; einn lagði niður vopnin eftir 19 leiki og sá þeirra sem fremstur fór, Tony Miles, tapaði líka án þess að fá rönd við reist. Og kaldan vetrardag í janúar 1975 rann svo upp lokaumferð mótsins og þá settist okkar maður andspænis öflugasta skákmanni Kúbverja. Það var allt undir:
Hastings 1974-75; 15. umferð:
Guillermo Garcia – Guðmundur Sigurjónsson
Kóngsindversk vörn
1. c4 Rf6 2. Rc3 g6 3. d4 Bg7 4. e4 d6 5. Be2 O-O 6. Bg5 c5 7. d5 h6 8. Be3 e6 9. Dd2 exd5 10. exd5 Kh7 11. h3 He8 12. Bd3 b5!
- Sjá stöðumynd 1 -
Beittasti leikurinn og sá besti. Staðan fær svipmót „Benkö-bragðs“ eftir svar Kúbumannsins en leiki hvítur 13. Rxb5 kemur 13. … Re4! því að 14. Dc2 er svarað með 14. … Rg3! 15. Hh2 Ra6! 16. a3 Da5+! og svartur stendur til vinnings, t.d. 17. Kd1 Hxe3! 18. fxe3 Rb4 ásamt – Rxd3 og – Bf5. Best er 14. Bxe4 Hxe4 15. Hc1 en svartur hefur gott spil fyrir peðið.
13. cxb5 Rbd7 14. Rge2 Re5 15. Hd1
Hvítur hefur þegar ratað í vandræði. Hann gat ekki hrókað vegna 15. … Bxh3! o.s.frv.
15. … a6 16. bxa6 Rxd3 17. Dxd3 Rd7!?
Frestar því augljósa en 17. … Bxa6 strax var ekki síðra.
18. b3 Bxa6 19. Dd2 Da5 20. Ra4 Db5 21. Rac3 Db4 22. Ra4 Dh4
Góður leikur en „vélarnar“ mæla með 22. … f5!
23. O-O Bb5
24. Rac3
Lætur skiptamun af hendi því að eftir 24. Hc1 Bxa4 25. bxa4 Hxa4 er hvíta staðan algerlega óteflandi.
24. … Bxc3 25. Rxc3 Bxf1 26. Hxf1 Rf6 27. f3 Ha6 28. Hd1 Hb6 29. Bf4 Hb4 30. Bxd6?
Tapar skjótt. Meiri mótspyrnu veitti 30. Be3.
30. … Hd4! 31. Dc2
31. … He1+ 32. Hxe1 Dxe1+ 33. Kh2 Hd2 34. Db1 Df2 35. Dg1 Dxf3 36. Rb1 Hxa2
- og hvítur gafst upp.
Vlastimil Hort varð efstur með 10½ vinning (af 15). Guðmundur varð í 2.-3. sæti ásamt Rafael Vaganian með 10 vinninga. Næstir komu Ulf Andersson og Alexander Beliavskí með 9½ vinning hvor.