Halla Dröfn Júlíusdóttir fæddist 26. mars 1946 í Sólvangi á Fáskrúðsfirði. Hún lést á heimili sínu, Sindrabæ á Fáskrúðsfirði, 2. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Margrét Þóra Jakobsdóttir, f. 13. janúar 1927 í Fögruhlíð, Geithellnahreppi, S-Múl., d. 13. september 1977, og Stefán Júlíus Þórlindsson, f. 12. júlí 1921 í Hvammi, Kolfreyjustaðarsókn, S-Múl., d. 29. desember 1978.
Bræður Höllu eru Smári Júlíusson, f. 19. desember 1948 á Fáskrúðsfirði, og Þröstur Júlíusson, f. 27. desember 1952 á Fáskrúðsfirði.
Árið 1968 giftist Halla Garðari Svavarssyni, f. 10. desember 1941 í Reykjavík, d. 14. apríl 2020. Foreldrar Garðars voru Ingileif Guðrún Friðleifsdóttir, f. 22. mars 1921 í Reykjavík, d. 31. maí 2000, og Svavar Kristinn Kristjánsson, f. 29. júlí 1913 í Borgarfirði, Mýr., d. 16. október 1978.
Börn Höllu og Garðars eru: 1) Svavar Júlíus Garðarsson, f. 8. maí 1967 í Reykjavík, unnusta hans er Jane Carlsen. 2) Þormar Þór Garðarsson, f. 16. ágúst 1970 í Reykjavík. Eiginkona hans er Auðbjörg Kristín Guðnadóttir, f. 29. maí 1966 í Neskaupstað. Sonur þeirra er Þórhallur Daði Þormarsson, f. 28. ágúst 2002 í Reykjavík. Fyrir á Auðbjörg þrjú börn. Þau eru Sylvía Una Ómarsdóttir, f. 25. september 1985, Kristján Páll Jónsson, f. 14. september 1988, og Thelma Rut Jónsdóttir, f. 22. ágúst 1990. Alls eru barnabörnin orðin sjö.
Útför Höllu fer fram frá Fáskrúðsfjarðarkirkju í dag, 15. febrúar 2025, klukkan 14. Athöfninni verður streymt á Facebook-síðu kirkjunnar. Jarðsett verður í Mosfellskirkjugarði mánudaginn 17. febrúar klukkan 13.
Elsku Halla vinkona mín.
Það eru margar minningarnar sem munu geymast í hjarta mér og ég þakka þér fyrir þær allar. Góðir vinir eru vandfundnir. Þegar ég lít til baka og rifja upp okkar skemmtilega ferðalag saman í gegnum lífið og allt það sem við náðum að gera saman er þakklæti ofarlega í huga.
Vel ég man
hvar vin hef átt
þótt venjulega
segi fátt.
En þegar burt
hann frá mér fer
finn ég best
hvað hann var mér.
(Gunnar Dal)
Kveðja, þín vinkona
Sigrún.
Með þakklæti í hjarta langar mig að minnast yndislegrar manneskju, hennar Höllu. Halla var gríðarlega hlý, góð, dugleg og umhyggjusöm. Ég átti ásamt mömmu og pabba yndislegar stundir með Höllu og Garðari bæði í heimsóknum okkar á Fáskrúðsfjörð og þegar við fórum til Þýskalands saman. Við erum mjög þakklát fyrir sérstakan hlýhug til okkar í gegnum lífið. Minning þín verður ávallt ljós í okkar lífi. Sendum fjölskyldu og ástvinum okkar dýpstu samúðarkveðjur.
Linda og fjölskylda.