Sigurður Ísaksson fæddist 16. ágúst 1934. Hann lést 8. janúar 2025.

Hann var jarðsunginn 24. janúar 2025.

Góður og kær vinur hefur kvatt. Meira en hálfrar aldar vinátta að baki.

„Margs er að minnast og margt ber að þakka,“ eins og sálmaskáldið sr. Valdimar Briem segir í hinum vel þekkta sálmi sínum.

Já, kallið var komið til Sigga Ísaks eftir langt og farsælt ævistarf.

Hann var gæfumaður í lífi sínu með Eddu sér við hlið á meðan hennar naut við og svo börnin fimm, sem reyndust honum afar vel til síðustu stundar.

Hann var okkur vinunum sínum traustur og ráðagóður, ávallt tilbúinn að leggja til hjálparhönd ef á þurfti að halda. „Við þurfum að spyrja Sigga Ísaks“ var setning sem oft heyrðist á heimilum okkar, ekki síst þegar um var að ræða tæknilega hluti, svo ekki sé minnst á allt er varðaði bíla heimilanna.

Margar fórum við ferðirnar saman um landið og var það einróma álit að þá mætti einn félaganna síst vanta, einkum ef á leið okkar yrðu bullandi jökulár eða annar ámóta farartálmi; sá félagi var að sjálfsögðu Sigurður Ísaksson.

Siggi var þekktur fyrir vönduð vinnubrögð í starfi og leik, bridgespilari góður svo ekki sé minnst á skotfimina, sem hann vann til verðlauna fyrir á sínum tíma.

Það er komið enn eitt skarðið í vinahópinn. Það er sárt að missa, en eftir situr þakklæti fyrir að hafa átt svo góðan vin sem Sigurð Ísaksson.

F.h. vinahópsins, Eddu og Þrastar Laxdal, Ólafs Bjarnasonar og Sveins Einarssonar,

Sigríður Ásgeirsdóttir.