Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Það er ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum og sveitarfélögum þegar þau ganga frá samningum við þessi fyrirtæki að tryggt sé að ekki sé verið að fara illa með og vanvirða starfsfólk,“ segir Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins.
Forystufólk í verkalýðshreyfingunni hefur lýst því yfir að það vilji að ríki og sveitarfélög segi upp samningum við ræstingafyrirtæki sem ekki hafi staðið við umsamdar launahækkanir við starfsfólk sitt. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hefur sagt að dæmi séu um að laun ræstingafólks hafi verið lækkuð um allt að 20 prósent eftir að það hefur verið látið skrifa undir breytingar á ráðningarsamningi.
Verða að axla ábyrgð
Vilhjálmur segir í samtali við Morgunblaðið að hann hafi óskað eftir fundi með Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra vegna málsins. Svar hafi borist á fimmtudag og staðfest sé að fundur verður haldinn á föstudag í næstu viku. Hann sitja auk Vilhjálms og Kristrúnar þau Sólveig Anna Jónsdóttir og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Stjórnvöld og sveitarfélög geta ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð að þau eru búin að leita til þessara aðila með því að úthýsa ræstingunni,“ segir Vilhjálmur.
Koma fram af virðingu í stað þess að níðast á fólki
Hann segir að fyrir liggi að opinberar byggingar, hvort sem það eru ráðuneyti eða leikskólar, séu ónothæfar ef þær eru ekki ræstar í þrjá daga. Því sé mikilvægt að koma fram af virðingu við fólk sem við það starfar í stað þess að níðast á því.
„Við þurfum að standa vörð um þetta fólk sem er að stórum hluta erlent. Dæmin sem við erum að fá núna og sögur eru að ræstingafólk upplifir sig eins og það sé utanveltu. Það er erfitt að ná utan um þennan hóp en við ætlum ekki og munum ekki líða þetta ástand.“