Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is
Færeyingurinn Osmund Joensen kom fyrst til Íslands þegar hann var 18 ára sumarið 1945 og á góðar minningar frá þeim tíma. Hann vissi fyrst á nýliðnu hausti að hann hefði eignast dóttur með íslenskri konu fyrir 78 árum. Feðginin hittust í kjölfarið, eins og greint var frá á þessum stað í Morgunblaðinu í liðinni viku. „Það var gaman, ég átti allt í einu stóra familíu á Íslandi og allir í familíunni minni hérna voru ánægðir með það,“ segir Osmund, sem gekk undir nafninu Ásmundur á Íslandi og var kallaður Ási.
„Það var merkilegt og gott að heyra,“ segir Ási um tíðindin og fyrsta fund þeirra Bjarkar Straumfjörð Ingólfsdóttur í fyrrahaust. „Það komu tár og öll familían tók vel á móti Björk. Hún stoppaði stutt en ætlar að koma aftur seinna. Þetta er sólskinssaga, segir hún.“ Þegar hann fór frá Íslandi 1945 vissi hann ekki að vinkona sín væri barnshafandi og reyndi lengi að hafa uppi á henni eftir það án árangurs. Hún lét sig hverfa og hafði aldrei samband.
Ási er frá Sandavogi, skammt frá Vogaflugvelli. „Það var ekki mikið að gera hérna í Færeyjum, svo að við vorum sjö strákar sem fórum með skútu til Íslands til að vinna í sveit. Íslendingar vildu hafa Færeyinga að vinna í sveitinni, það var ódýrara en að hafa Íslendinga, og ég kom á gamalt prestssetur, Arnarbæli í Ölfusi. Hjörleifur Pálsson var bóndi þar. Það var góður tími en mikil vinna.“
Vinnumaður í sveit
Færeyskur umboðsmaður skipti strákunum niður á nokkra bæi á Suður- og Vesturlandi, þar sem þeir voru í fimm mánuði. „Þessi stúlka var hjá Óskari í Króki, nálægt þar sem ég var,“ rifjar Ási upp. Þau kynntust í heyskap. „Ég sá hana bara einu sinni aftur og það var í Reykjavík. Ég heyrði aldrei frá henni aftur og fann hana aldrei aftur.“
Síðan tók sjómennska við hjá Ása, m.a. á Íslandsmiðum, og þá kom hann oft til landsins. „Ég var skútukarl, nokkrum sinnum skipstjóri, og þá fiskuðum við mest síld í reknet í Norður-Atlantshafi.“ Síðan var hann togarasjómaður en fór í land eftir að hann slasaðist í baki, aflaði sér kennararéttinda og kenndi í 26 ár áður en hann fór á eftirlaun.
Ási kvæntist nágrannakonu sinni í Sandavogi 1955 og eignuðust þau þrjá syni. „Þeir eru nú gamlir menn, sá elsti 67 ára,“ segir kappinn, sem er 97 ára. Hann býr hjá Egon, 53 ára og yngsta syni sínum í Þórshöfn, og er við góða heilsu sem fyrr, en hinir synirnir eru Osvald, 67 ára, og Jónsvein Torbjörn, 65 ára, sem á heima í Danmörku og sigldi með Björk á Norrænu á fyrsta fund feðginanna. „Ég fer stundum í húsið mitt í Sandavogi en sonur minn vill ekki að ég keyri mikið lengur. Hann segir að ég sé of gamall til að keyra.“
Gamli maðurinn hefur nóg að gera við að gera ekki neitt, eins og hann segir. Hann sé í tölvunni, horfi á sjónvarp og spili dálítið á harmoniku. „Ég læt tímann ganga.“
Osmund lifnar allur við þegar hann heyrir íslenskuna. „Ég var góður, þegar ég var á Íslandi og talaði íslensku líka þegar ég kom heim. Ég tala eitthvað ennþá. Ég heiti Ásmundur á íslensku og í sveitinni var ég alltaf kallaður Ási. Óskar í Króki, Bjössi í Nýja Bæ, Gvendur í Stuðlum og Bergur í Nethömrum. Ég man eftir öllum þessum gömlu, góðu sveitakörlum. Þessir menn voru fátækir hjáleigubændur frá Arnarbæli og komu oft þangað að spjalla og taka í nefið.“ Og nú halda honum engin bönd. „Ég heyrði einu sinni þetta: Ertu bóndi, gamli? Já, já. Bóndi að nafni, á eina belju, tvær kindur og helminginn af hundi.“ Hann hlær. „Það er gaman að tala aftur íslensku.“