Stefán Már Jónsson fæddist 2. maí 1963. Hann lést 25. janúar 2025.

Útför hans fór fram 14. febrúar 2025.

Það er mikil gæfa að hafa átt Stebba að félaga og vini í lífinu. Við brottför hans er söknuður minn mikill, minningarnar lifa um góðan dreng og þakklæti fyrir að hafa átt svo mikilsverðan ferðafélaga á fimmta áratug. Stebbi var kvæntur Hrefnu Lind Borgþórsdóttur og eiga þau fjögur börn. Faðir hans var forstöðumaður í Víðinesi á Kjalarnesi, þar kynntist ég honum fyrst er ég fór með Gunna vini mínum og frænda hans í heimsókn, hefur vinskapur okkar verið traustur allar götur síðan.

Stebbi var mikill fjölskyldumaður, hugsaði vel um heimilið og allan hópinn sinn, var alltaf til staðar ef eitthvað þurfti að leysa og gekk jafnan í öll verk. Hann barðist við illvígan sjúkdóm í tíu ár, sem því miður hafði sigur að lokum. Æðruleysið hjá honum í veikindunum var aðdáunarvert. Hann var einstaklega ljúfur, skemmtilegur og traustur vinur og hafði einstakt lag á að halda vinahópnum saman, hvort sem það voru fjallaferðir, hestaferðir, veiðiferðir, ferðir erlendis eða matarveislur. Hann var ekki síður ákveðinn ef honum fannst ástæða til að koma með flóknar og erfiðar spurningar á okkur vinina.

Hugur okkar Ásthildar er hjá fjölskyldu Stebba. Megi minningarnar um hann veita ykkur styrk og huggun á þessum erfiðu tímum. Þótt horfinn sé okkur allt of snemma mun hlýja hans, góðmennska og gleði lifa áfram með okkur. Blessuð sé minning Stebba vinar míns.

Matthías Sveinsson.

Mig langar að minnast míns elsta og besta vinar Stebba sem fallinn er frá allt of snemma eftir langvinn og erfið veikindi.

Það voru spennandi tímar þegar ég fór í 9 ára bekk í Klébergsskóla haustið 1972 og von var á nýjum strák í bekkinn og við yrðum þannig tveir þennan vetur. Þar hófst ævilöng vinátta okkar sem aldrei bar skugga á. Stebbi flutti af Rángárvöllum í Víðines á Kjalarnesi með foreldrum sínum Jóni og Guðrúnu sem voru frumkvöðlar í að hjálpa áfengissjúklingum. Það var heilmikill ævintýraheimur að koma í Víðines og gista hjá Stebba og vera með honum og sjá hvað honum var snemma treyst til að keyra traktor og bíl og gerði hann það eins og herforingi enda öruggur bílstjóri.

Við fórum svo áfram í Gagnfræðaskólann í Mosfellssveit og svo í Verslunarskólann. Margt var brallað á þessum árum og allir komu heilir heim eins og sagt er. Stebbi vann alltaf mikið og lék allt í höndunum á honum, var hann frumkvöðull í mörgu og allt varð betra sem hann kom að. Hann fór fljótt út í eigin rekstur og vegnaði vel.

Hann var mikill fjölskyldumaður og eignaðist fjögur yndisleg börn. Með Hrefnu Lind eiginkonu sinni byggði hann upp fallegt heimili að Ólafsgeisla 71 sem þau hafa búið í sl. áratugi. Söngur var sameiginlegt áhugamál okkar og fórum við áratugum saman á æfingar hjá Karlakór Kjalnesinga í Fólkvangi og oft var mikið fjör við söng og skemmtanir.

Það er skarð fyrir skildi í vinahópi okkar þar sem Stebbi var límið og leiddi m.a. skipulagningu og matseld í árlegum veiði- og ferðatúrum okkar. Guð geymi þig Stebbi minn. Innilegar samúðarkveðjur kæra fjölskylda.

Nú hverfur sól við segulskaut

og signir geisli hæð og laut,

en aftanskinið hverfur fljótt,

það hefur boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason)

Kristinn Gylfi Jónsson.

Nú hefur kær söngfélagi og vinur Stefán Már Jónsson, eða Stebbi frá Víðinesi, horfið á braut eftir þunga baráttu við erfiðan sjúkdóm sem hann tókst á við af sama æðruleysinu og önnur verkefni í lífinu. Alltaf var framganga Stebba fáguð, vönduð og af virðingu fyrir samferðafólki sínu. Við áttum oft samleið í lífinu, t.d. þegar Stebbi rak söluturninn Drauminn þá kom hann daglega í Gripið og greitt, heildverslun Sláturfélags Suðurlands, sem ég stýrði á þeim tíma.

Góð kynni tókust með okkur þegar við vorum ungir söngmenn í Karlakór Kjalnesinga, þá var Stebbi gjaldkeri kórsins á upphafsárum hans og fjármál kórsins þar með í góðum höndum. Stebbi söng 1. tenór og var góður söngmaður og stóðum við saman á pöllunum í mörg ár. Fyrir fyrstu utanlandsferð kórsins fór ég fyrir fjáröflunarnefnd kórsins og var því í miklu samstarfi með Stebba sem skilaði góðum árangri.

Söngbæklingurinn sem við gáfum út verður lengi í minnum hafður enda nánast jafn þykkur og símaskráin og í stóru upplagi. Frægust var auglýsing Hótel Sögu í bæklingnum, opna á mörgum tungumálum, minna dugði ekki. Svo vel gekk fjáröflunin að kórmenn og makar fóru sér að kostnaðarlausu í ferðina og höfðu að auki farareyri og þessu stýrði Stebbi af öryggi.

Eitt sinn vorum við að skrifa út reikninga og senda út gíróseðla sem við gerðum í Speglagerðinni hjá Stebba ásamt Kristni í Brautarholti en hann lagði okkur gott lið í fjáröfluninni og þeir Brautaholtsfeðgar. Já, svo mikil var gleðin yfir góðum árangri svífandi yfir vötnum að við og sumir reikningarnir voru aðeins skakkir er kvöldinu lauk. Er talið að markaðsáhrif bæklingsins hafi tryggt rekstur Hótel Sögu í a.m.k áratug í viðbót, jafnvel þó að við hefðum heyrt fréttir af einhverjum eintökum af bæklingnum sem hefðu fundist í kjallara svínahúss hér í nágrenni Reykjavíkur.

Ferðin var frábær og er æði oft vitnað til hennar og orðspor kórsins lifir í Leiven ávallt síðan fyrir sanna lífs- og sönggleði.

En öll verkefni sem Stebbi tók að sér leysti hann af alúð og á öruggan og traustan hátt. Stebbi var góður söngmaður, frábær félagi og vinur.

En fyrst og fremst var Stebbi fjölskyldumaður, eiginmaður og faðir og fjölskyldan var honum allt. Stebbi var mannkostamaður, einn mesti drengskaparmaður sem ég hef átt samleið með á lífsins leið, sýndi samkennd, drengskap, trúnað og hollustu. Við erum öll betri manneskjur eftir samleið með Stebba.

Elsku Hrefna Lind og fjölskylda, við Sigrún, fjölskyldan frá Eyjum II, sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi birta minninganna og ljós kærleikans lýsa ykkur á kveðjustund. Þakka þér samfylgdina og kærleikann, kæri vinur og félagi, Guð gefið þér góða heimkomu.

Kveðjustund.

Helg er komin stundin, heilög kveðjustund,

herra og faðir lífsins, kallar á sinn fund.

Horfinn burt af jörðu, horfinn
eigi mér,

helgur máttur gæti, gleymum ekki þér.

Ljóssins englar áfram, lýsi veginn þinn,

ljúfi og góði Jesús tak í faðminn sinn.

Sárt er lífið án þín, sorg í hjarta mér,

sumarnóttin bjarta vaki yfir þér.

Ólafur M. Magnússon frá Eyjum II, Kjósarhreppi.

Leiðarljós lífsins geta verið misvísandi en alltaf vonumst við eftir því að geta fylgt því ljósi sem lýsir veginn gegn hinum ýmsu boðaföllum sem mæta okkur á lífsgöngunni.

Það var fyrir 10 árum sem leiðir okkar félaganna í Krabbagenginu lágu fyrst saman. Við höfðum allir greinst með krabbamein og tókumst á við þann sjúkdóm af miklu æðruleysi. Með keppnisskap að leiðarljósi höfum við staðið þétt saman í baráttunni við þann óboðna gest sem hafði bankað svo óvænt upp á. Við sóttum okkur styrk og ráðgjöf í Ljósinu, sem leiddi okkur áfram og styrkti okkar bæði andlega og líkamlega. Þar varð til sú samkennd og vinátta sem batt okkur félagana fimm þeim vinaböndum sem við höfum varðveitt svo vel æ síðan.

Við nutum þess að eiga saman góðar samverustundir í ræktinni, fara í gönguferðir, kíkja á kaffihús eða fara í bíó. Hápunktarnir voru þó jólahittingurinn hjá Stefáni og Hrefnu þar sem við komum saman og nutum kræsinga í pálínuboði þar sem hver lagði til sín veisluföng.

Það varð okkur öllum ljóst nú í síðasta jólahittingnum okkar hvert stefndi hjá vini okkar, sem hafði barist svo hetjulega gegn þeim illvíga vágesti sem sótti æ fastar að. Stefán er annar félaginn úr okkar hópi sem yfirgefur þessa jarðvist en áður hafði Björn Þórisson kvatt okkur fyrir fjórum árum. Stefán var kletturinn í hópnum okkar, Krabbagenginu. Hann var sá sem studdi og hvatti þegar á þurfti að halda þrátt fyrir að veikindin sæktu á stundum harkalega að honum. Hann kenndi okkur að njóta lífsins, hlæja í mótlæti og meta hvert augnablik. Í tíu ár var hann fyrirmynd okkar allra í því hvernig á að lifa lífinu þrátt fyrir öll áföllin og erfiðleikana.

Nú hefur leiðarljós Stefáns Más vísað veginn til eilífðarinnar. Við minnumst einstaks vinar og félaga sem nú hefur kvatt þessa jarðvist eftir hetjulega baráttu við sjúkdóminn sem upphaflega sameinaði okkur félagana í Krabbagenginu og hnýtti þau einstöku vinabönd sem við áttum saman meðan á orrustunni stóð. Við sem eftir stöndum kveðjum ekki aðeins vin, heldur bróður í anda og við geymum allar dýrmætu minningarnar í hjörtum okkar að eilífu.

Elsku Hrefna Lind, Elsa Rún, Davíð Már, Katrín Ósk, Kristín Birna og aðrir ástvinir, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Þeir segja mig látinn, ég lifi samt

og í ljósinu fæ ég að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá hjarta mínu berst falleg rós,

því lífið ég þurfti að kveðja.

Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,

sem ykkur er ætlað að gleðja.

(Höf. ók.)

Ólafur Már, Jakob
og Ragnar Th.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Þessar línur úr Hávamálum eiga svo vel við um hann Stefán sem fæddist eins og við hin sem óskrifað blað en skrifaði sitt svo einstaklega vel, hans verður lengi minnst sökum manngæsku og góðmennsku.

Stefán var duglegur og ósérhlífinn, alltaf vinnandi. Öll verk vann hann af alúð, hvort sem var að blása myndir í gler eða hífa mold eða veggjeiningar með krananum sínum á réttan stað. Hann var tekinn frá okkur allt of fljótt.

Stefán átti yndislega konu, hana Hrefnu Lind, sem stóð sem klettur með honum í öllum hans verkum og ekki síður veikindum. Þessi samheldna fjölskylda, Hrefna Lind, dæturnar þrjár og sonurinn sakna nú og syrgja einstakan eiginmann og föður – skarðið er stórt. Megi góður Guð, fjölskylda og vinir hjálpa þeim í gegnum sorgina.

Elsku Hrefna Lind og fjölskylda, við færum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og kærleik.

Bryndís, Engilbert

og Kristín.