Örn Pálsson
Sjávarútvegsumræðan þessa dagana og svo oft áður snýst um smábáta. Forystumenn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Félagi skipstjórnarmanna hafa varað stjórnvöld við því að auka veiðiheimildir til strandveiða og fara þannig gegn vilja 72,3% þjóðarinnar. Stjórnvöld hafa hins vegar ákveðið að verða við vilja þjóðarinnar, breyta lögum og tryggja 48 daga til strandveiða strax í sumar.
„Strandveiðar í forgangi“ var fyrirsögn Morgunblaðsins á aðfangadag. Sannarlega góð tíðindi fyrir íslenskan sjávarútveg og mikinn meirihluta þjóðarinnar.
Í fréttinni segir að svigrúm til strandveiða verði aukið til muna samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnar. Haft er eftir Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra: „Í ljósi þess hversu skýrt þetta er orðað, og hversu mikill vilji er hjá flokkunum þremur, þá verður þetta eitt þeirra verkefna sem fara í forgang.“
Góð reynsla af 48 dögum
Alþingi ákvað í maí 2018 að gera breytingar á fyrirkomulagi strandveiða. Í stað þess að ákveðið magn væri ætlað í hverjum mánuði var ákveðið að miða sóknina alfarið við fjölda veiðidaga. Niðurstaðan varð 48 dagar sem deildust jafnt á fjóra mánuði maí-ágúst. Þannig yrði veiðikerfið öruggara, ekki þyrfti að hafa áhyggjur að veiðar yrðu stöðvaðar eftir 3-5 daga í upphafi hvers mánaðar þegar veiðiheimildir kláruðust, slíkt myndaði óhjákvæmilega pressu á að fara á sjó þá daga. Áhersla var lögð á að þrátt fyrir að ráðherra væri skylt að stöðva veiðar, yrði afli umfram ákvæði í reglugerð, kæmi það vart til þar sem heimildir myndu duga í 48 daga.
Fyrstu tvö árin gekk það eftir, veiðum lauk 31. ágúst eins og lög kváðu á um. 548 bátar réru til strandveiða á árinu 2018 og 621 bátar ári síðar. Þorskafli á dag fyrra árið var 607 kg en nokkru minni árið 2019, 575 kg. Að meðaltali nýttu bátarnir 26,4 daga af þeim 48 sem þeim stóð til boða. Aðeins níu aðilum tókst að ná 48 dögum.
Svo fór um sjóferð þá
Árin 2020 og 2021 voru strandveiðar stöðvaðar upp úr miðjum ágúst, 2022 lauk veiðum 21. júlí, árið 2023 var lokadagur strandveiða 11. júlí og nú á liðnu sumri var skellt í lás 16. júlí. Ástæður þessa voru að aflaheimildir til strandveiða fylgdu ekki vaxandi fiskgengd og fjölgun báta.
Stöðvun veiða leiddi til mismunar milli veiðisvæða og óánægju sjómanna á svæðum þar sem fiskur gefur sig best á síðari hluta tímabilsins. Segja má með nokkurri vissu að óyndið hafi verið af sömu rótum og áður en kerfinu var breytt 2018. Þá fengu bátar, nú á „óánægju“ svæðunum, að veiða í fleiri daga en á öðrum svæðum. Árið 2017 var mismunurinn frá 28 dögum þar sem fæst var til 50 daga á svæði sem dagar voru flestir. Samhljómur óánægju sem kór; „mismunun milli landsvæða“.
Með lögfestingu á 48 dögum til strandveiða verður komið á fullum jöfnuði. Byggðafesta verður tryggari því öll svæðin fjögur fá jafnmarga daga í hverjum mánuði. Jafnframt verður meira öryggi til sjósóknar. Ekkert kapp að ná síðustu dögunum fyrir stöðvun veiða, eins og í júlí, á sl. þremur árum. Sókn kemur til með að breytast, verður jafnari á tímabilinu.
„Grafa undan verðmætasköpun“
Þó ánægja með væntanlegar breytingar séu hjá 72,3% þjóðarinnar og samkomulag stjórnarflokkanna liggi fyrir er næsta víst að flestum vopnum verður beitt til að koma í veg fyrir að þær nái fram að ganga. Líklegt er að stærsta tækifærið til andófs gefist þegar málið kemur til umræðu á Alþingi. Undanfari þessa hefur m.a. birst hjá forsvarsmönnum stórútgerðarinnar, forystu skipstjórafélagsins, upprifjun í Morgunblaðinu á grein fjármálaráðherra frá árinu 2021 „Strandveiðar „efnahagsleg sóun““ og nú síðast er leiðari Viðskiptablaðsins þann 8. janúar helgaður málefninu.
Í leiðaranum er gengið hvað lengst í að segja lesendum hverslags heimska það er að verða við vilja þjóðarinnar. Telja upp væntanleg afrek strandveiðibáta á komandi sumri:
Strandveiðibátar tvöfalda hlut sinn í veiðum á bolfiski
Strandveiðibátar landa um tuttugu þúsund tonnum
Strandveiðibátar á veiðum verði um þúsund.
Fórnarkostnaðurinn við breytinguna verður þessi:
Tapað aflaverðmæti fyrir þjóðarbúið á bilinu þrír til fjórir milljarðar
Sókn þyngist enn frekar á næstu árum
Krafa um sífellt stærri hlut til strandveiða
Harmleikur almenninganna innan hagfræðinnar mun hellast yfir þjóðina.
Ótti ástæðulaus verði strandveiðar auknar
Látum ekki blekkjast, takmarkanir á strandveiðum eru fjölmargar.
Náttúruöflin bíta þá harðar en stærri skip, nánast ekki hægt að stunda handfæraveiðar hjá meginhluta bátana þegar hvítt er í öldu.
Takmarkað veiðisvæði sem hægt er að renna fyrir fiski þar sem hver róður má ekki vara lengur en 14 klukkustundir frá því farið er úr höfn og komið til löndunar.
Dagarnir 48 deilast jafnt á mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Þann 5. maí verður heimilt að fara í fyrsta róður. Leyfilegir dagar eru 4 í viku, mánudagur-fimmtudags, alls 15 í maí. Það verður því að telja afar ólíklegt að margir nái að fara í 12 róðra.
Ónýttir dagar færast ekki milli mánaða.
Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.