Hvernig kviknaði hugmyndin að gera hlaðvarpsþátt um þetta dularfulla mannshvarf?
Fyrir tilviljun hitti ég hóp Íra hér á Íslandi, þar á meðal Liam O’Brien sem hafði alltaf munað eftir þessu mannshvarfi í Dublin árið 2019. Við áttum gott samtal og ákváðum að vinna saman og þá varð ekki aftur snúið. Ég hélt í upphafi að þetta yrði áhugaverð mannleg saga og innsýn í það hvernig það er að eiga ástvin sem hverfur, en Liam var alltaf viss um að við gætum afhjúpað eitthvað meira og það kom fljótlega í ljós að svo væri.
Voru fjölskyldumeðlimir Jóns til í að segja frá?
Já, það voru allir tilbúnir að tala við okkur og þau berskjalda sig gjörsamlega, því það er þeirra eina von að leggja öll spil á borðið og að vonandi ýti þetta við einhverjum sem eitthvað veit. Við vildum byggja upp mynd af manninum sjálfum; Jón var ekki bara hvarfið og Jón var ekki bara pókerspilari. Það var stóra vandamálið við rannsóknina til að byrja með; hann var stimplaður pókerspilari sem væri að djamma. Hvarfið var ekki tekið alvarlega fyrr en tíu dögum síðar, þegar hann skilaði sér ekki í flugið heim.
Fórstu til Dublin í efnisleit?
Já, í fyrra þegar fimm ár voru liðin frá hvarfinu fór ég til Dublin ásamt systkinum Jóns í þeim tilgangi að rekja spor hans og taka viðtöl við lögreglu. En sú heimsókn breyttist því þá voru komnar fram nýjar vísbendingar sem lögreglan greindi frá á blaðamannafundi og við segjum frá í hlaðvarpinu. Ég átti ekki von á þessu, enda hef ég aldrei unnið að svona áður og er engin rannsóknarlögga. En það voru margir steinar sem átti eftir að velta. Við erum viss um eitt; að einhver veit eitthvað. Þetta er fullkomin ráðgáta en það hverfur enginn sporlaust, bókstaflega. Það eru spor þarna.
En hann er ekki enn fundinn?
Nei, það er kannski það sem ég get spillt fyrir hlustendum; hann er ekki fundinn. En það endar vonandi með því að hann finnist. Þátturinn hefur vakið gríðarlega athygli á Írlandi og því meiri athygli sem hlaðvarpið vekur, því líklegra er það til að ýta við hinu opinbera, almenningi og þeim sem kunna að vita eitthvað.
Where is Jón? eða Hvar er Jón? er nýr hlaðvarpsþáttur sem Anna Marsibil Clausen, ritstjóri hlaðvarpa hjá RÚV, skrifaði og framleiddi ásamt Liam O’Brien hjá RTÉ á Írlandi. Þættirnir eru sjö og fjalla um dularfullt hvarf Jóns Þrastar Jónssonar sem hvarf í Dublin í febrúar 2019. Where is Jón? má finna á hlaðvarpsveitum og í spilara RÚV.