— Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
„Ása er forgangsröðunarforrit sem við hugsuðum strax sem hjálpartæki til að minnka álag á heilsugæslunni og forgangsraða eftir alvarleika þeirra einkenna sem fólk lýsir,“ segir Gísli Garðar Bergsson, nemandi í tölvunarfræði í Háskólanum…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Ása er forgangsröðunarforrit sem við hugsuðum strax sem hjálpartæki til að minnka álag á heilsugæslunni og forgangsraða eftir alvarleika þeirra einkenna sem fólk lýsir,“ segir Gísli Garðar Bergsson, nemandi í tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík, en hann hefur hannað gervigreindarlausnina Ásu með félaga sínum, Alex Orra Ingvarssyni, sem er að læra tölvunarfræði í EPFL-háskólanum í Lausanne í Sviss. Þeir hafa séð um forritunina en þriðji félaginn, Einar Skúli Zoega, nemandi í hagnýttri stærðfræði, er rekstrarstjóri fyrirtækisins.

Ása forgangsraðar, túlkar og skrifar sjálfvirkt sjúkrasögu fyrir lækna. Ása hefur verið þjálfuð af öllum þeim gögnum og rannsóknum sem birtar hafa verið á netinu til ársins 2023. Ása nýtir ScaleAI til að safna gögnum en OpenAI til að vinna þau frekar.

Sturlað álag

„Við erum vinir og kynntumst í MR. Fengum þá hugmynd að leggja okkar af mörkum til að minnka álagið hjá heilsugæslunni, frekar en að kvarta yfir ástandinu,“ segir Gísli. „Hugmyndin varð enn skýrari vegna þess að það er sturlað álag á heilsugæslunni og það þarf eitthvað að breytast svo læknar gefist ekki upp vegna álags og að sjúklingar geti komist til læknis.“

Hugmyndin er að Ása sé fyrsta skref þeirra sem ætla að fá tíma hjá heilsugæslunni og að hún geti metið einkenni eftir alvarleika og vísað þeim áfram sem ættu að vera í forgangi vegna einkenna, en aðstoða aðra við einfaldari lausnir ef einkenni eru væg og benda ekki til alvarlegs ástands.

Nákvæmnin 92,3%

Gísli segir að Ása hafi verið í prófunum hjá Heilsugæslunni á Höfða frá 18. desember til 6. janúar og hafi sú prufukeyrsla gefið góðan árangur og nákvæmni Ásu í greiningum verið 92,3%. „Frá því í ágúst þegar við byrjuðum að prófa Ásu hefur hún ekki gert mistök. Síðan skráir hún líka alla sjúkrasöguna niður fyrir lækninn, svo mikill tími sparast.“

Gísli segir að Heilsugæslan á Höfða hafi styrkt verkefnið en hún er hluthafi í Ásu ehf. og bauð aðstöðu til prófana. „Þegar við fórum að skoða síðuna hjá okkur og ráðleggingar Ásu kom í ljós að allt að 40% af tilfellum voru þess eðlis að hægt var að fá ráðleggingu mála án þess að mæta til Heilsugæslunnar, eða voru þess eðlis að þau væru ekki forgangsverkefni. Það verður að forgangsraða til þess að heilsugæslan geti starfað á eðlilegum forsendum.“

Ása talar 95 tungumál

Núna er búið að hanna Ásu 3.0 í samráði við læknanema í Háskóla Íslands og í þeirri útgáfu sem fer í loftið 28. febrúar nk. fer Ása dýpra í greininguna og ráðgjöfina og getur einnig rökrætt við sjálfa sig áður en hún gefur endanlegt svar.

„Síðan er Ása með stuðning í rauntíma við 95 tungumál, sem kemur sér einstaklega vel fyrir heilsugæsluna, sem fær mikið af erlendum skjólstæðingum.“

Þegar Gísli er spurður hvort hann telji að Ása muni verða tekin í notkun hjá heilsugæslum landsins, telur hann svo vonandi vera. „Ása verður bara betri og betri með meiri upplýsingum sem fást enn frekar við raunnotkun, eins og við sáum þegar við prófuðum hana við raunaðstæður frá 18. desember 2024-6. janúar 2025.“

Öflugur þróunarmarkaður

Gísli segir að Ása sé gjöf þeirra félaga til heilsugæslustöðva og íslensks þjóðfélags.

„Þótt við séum bara þrír strákar þá getum við samt haft áhrif til góðs og í hugbúnaðargeiranum í dag eru breytingar oft knúnar af litlum teymum fyrst,“ segir hann og svarar spurningunni um hvort útrás verði næsta skrefið á þann veg að vissulega sé Ísland öflugur þróunarmarkaður, en fyrst og fremst sé markmiðið að minnka álagið á heilsugæsluna.

Gísli vonast til að helst allar heilsugæslur landsins nýti sér Ásu, ekki síst í ljósi þess að lausnin er frí og tilbúin til notkunar. „Það er hægt að spara gríðarlega peninga og tíma með Ásu og minnka þannig álagið á heilbrigðiskerfið mikið. Ása er hugsuð sem stuðningur við lækna, en hún kemur alls ekki í stað þeirra.“

Áhugasamir geta prófað Ásu á slóðinni: asachat.is/

Gervigreindin Ása

Sparnaður á landsvísu um 5 milljarðar

Miðað við prófanir frá 18. desember til 6. janúar er hægt að fækka heimsóknum á heilsugæslustöðvar umtalsvert og spara þannig gríðarlegt fjármagn.

Sparnaðurinn byggist á áætluðum fjölda heimsókna sem Ása afstýrði eða kom í veg fyrir á prufutímabilinu. Það hlutfall var yfirfært á heildarfjölda rafrænna samskipta allra heilsugæslna á landinu.

Til að meta fjárhagslegan ávinning er þessi fjöldi margfaldaður með komugjaldi á dagvinnutíma, sem nemur 13.479 kr. hver heimsókn, skv. gjaldskrá heilsugæslunnar.

Áætlun allt landið 2024:

 Rafræn samskipti: 931.831.

 Áætl. fjöldi forðaðra heimsókna: 327.732 árið.

 Áætl. árlegur sparnaður: 5.024.060.020 krónur.

 Tímasparnaður (m.v. 15 mín. heimsókn ) : 93.183 klst. (11.648 vinnudagar).

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir