„Mér fannst heillandi að sjá horfinn tíma í gegnum persónur sem eiga sitt daglega líf, sorgir og gleði, rétt eins og við, en eru bundnar af ólíku samfélagi,“ segir Vilborg.
„Mér fannst heillandi að sjá horfinn tíma í gegnum persónur sem eiga sitt daglega líf, sorgir og gleði, rétt eins og við, en eru bundnar af ólíku samfélagi,“ segir Vilborg. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er ekki með sterkmótaða trúarsýn að öðru leyti en því að ég er sannfærð um að til er annar heimur en okkar, vídd sem stundum fæst innsýn í þótt óskiljanleg sé.

Vilborg Davíðsdóttir rithöfundur rekur Laxdæla sögu á sinn hátt á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi. Hún hefur skrifað fimm skáldsögur um tvær persónur hennar – þríleik um Auði djúpúðgu og tvennu um Þorgerði Þorsteinsdóttur, barnabarn Auðar. Vilborg þekkir vel til á Söguloftinu, en þar endursagði hún þrjár bækur sínar um Auði í tvo vetur frá 2017 til 2019, þrjátíu sinnum alls fyrir fullu húsi.

Í flutningi hennar á Laxdælu er ástarþríhyrningurinn í forgrunni: Guðrún, Kjartan og Bolli.

„Laxdæla hefði auðvitað átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur því ævi hennar og ástir binda söguna saman, en Íslendingasögur heita aldrei eftir konum. Í flutningi mínum tálga ég utan af sögunni allt sem snýst ekki um hana, Kjartan og Bolla. Frásögnin hverfist um ástarþríhyrninginn,“ segir Vilborg.

Hún segir afskaplega skemmtilegt að vera á Söguloftinu. „Þetta er allt öðruvísi en þegar ég er að skrifa. Þá er ég ein í mínum heimi en þarna er ég í mikilli nánd við fólk. Fjörutíu manns á hvora hönd og ég geng fram og til baka eftir loftinu meðan ég segi frá. Ég komst að því þegar ég sagði sögu Auðar á sínum tíma að sumir sitja með lokuð augu, ekki af því að þeim leiðist heldur vegna þess að þeim finnst best að hlusta þannig. Fyrir mig sem sögukonu er þægilegra að horfast í augu við áheyrendur, þannig að að ég finn þá bara önnur andlit og horfi á þau meðan ég tala.

Og af því að ég er alltaf með nýja áheyrendur er sagan jafn gefandi í hvert sinn, sama hversu oft ég segi hana. Þetta er að einhverju leyti samsköpun, það verður til mögnuð orka á milli mín og fólksins sem hlustar sem gefur sögunni lífið.“

Fólk tekur andköf

Spurð hvernig hún túlki hin frægu orð Guðrúnar: „Þeim var ég verst er ég unni mest“ segir Vilborg: „Í lok sýningarinnar kem ég með minn snúning á þau orð, en ég ætla ekki að gefa það upp hér hvernig ég túlka þau svo að það komi nú sem flestum á óvart. Á þessum sýningum sem eru að baki hef ég fengið sterk viðbrögð, eiginlega sterkari en ég átti von á, við því. Skemmtilegast er þegar fólk lifir sig svo inn í frásögnina að það getur ekki orða bundist, tekur andköf og segir eitthvað eins og: Það er naumast! Og engin furða því þarna eru mergjaðar línur og lýsingar. Eins og þegar Guðrún eggjar bræður sína til að fara og drepa Kjartan með þeim orðum að ef þeir hafi gleymt því sem hann hefur gert á hlut þeirra hljóti þeir að hafa svínsminni, allir fimm, og bætir við að þeir hafi alltaf verið helst til margir! Og þegar Þorgerður, dóttir Egils Skallagrímssonar og móðir Kjartans, vill fá blóðhefnd fyrir frumburðinn lætur hún svipuna dynja á sonunum, og segir þá ólíka afa sínum. Illt er að eiga dáðlausa syni, segir hún grimm, og skömminni skárra ef þeir hefðu verið dætur og giftar burt af heimilinu!

Þegar ég fer með þessi svíðandi orð sé ég augun í fólki stækka. Þær líkja báðar körlum við kvenfólk til að smætta þá og þá má ekki gleyma því hversu sterkt karlaveldið var á sagnatímanum, þá var ekki til meiri smán fyrir karlmann en að vera kallaður kona – og reyndar tíðkað enn, þúsund árum síðar.

Ég fer stundum hratt yfir sögu en hægi svo á og tek stóru atburðina nokkuð nákvæmlega fyrir, þegar sverfur til stáls í þessum ástar-, haturs- og afbrýðisemisþríhyrningi og það kraumar í aðalpersónunum af bræði.“

Það kann að koma nokkuð á óvart en Vilborg segist hafa meiri samúð með Bolla en Guðrúnu og Kjartani. „Það er skerandi að Bolli er alltaf í öðru sæti á eftir Kjartani. Þetta er eins og að fá alltaf silfurverðlaunin meðan Kjartan hirðir gullið í hvert sinn. Í Laxdælu er mjög löng lýsing á Kjartani, hvað hann er fagur ásýndum og bestur í öllu. Ég tímamældi hana, hún tekur fimmtíu sekúndur í flutningi. Lýsingin á Bolla er hins vegar bara tvær línur.

Okkur er sagt að Kjartan hafi allar íþróttir mjög umfram aðra menn. Um Bolla er síðan sagt á sömu síðu: Bolli var mikill maður. Hann gekk Kjartani næst um allar íþróttir. Hvernig er að standa alltaf í skugga annars manns? Ég finn sárast til með honum. Auk þess er Kjartan umkringdur aðdáendum frá fæðingu en foreldrar Bolla og systkin flytja úr landi þegar hann er enn ungur, í fóstri á barnmörgu heimili frænda síns í Hjarðarholti, greyið strákurinn.

Í lýsingunni á Kjartani er líka tekið fram að hann sé öllum lítillátari en hegðun hans rímar alls ekki við það. Þegar á reynir er hann mjög hrokafullur í framkomu og ögrandi.

Það er mikið púður sett í að lýsa fögru útliti karlmanna og glæsilegum klæðaburði, Kjartan er til dæmis með ljóst og liðað hár, fagurt sem silki, en við vitum aftur á móti ekkert hvernig hárið á Melkorku kóngsdóttur var á litinn, þótt við sjáum hana fyrir okkur sem rauðhærða því það er erkitýpan af Íra, né heldur hár Guðrúnar eða hinna kvennanna. Þeim er lýst sem miklum skörungum í verki og vitsmunum, sagðar vitrar, Guðrún er kænust allra, best orði farin og svo framvegis.

Mér finnst langlíklegast að konur hafi haldið þessari sögu lifandi og umskapað kynslóð fram af kynslóð og Laxdæla gengið lengi í munnlegri geymd áður en hún var skráð á skinn. Hún er fyrst og fremst um sterkar konur og þótt þær hreyfi sig innan gríðarlegs karlaveldis og lifi samkvæmt gildum þess eru þær stöðugt að reyna að hafa áhrif á eigin örlög.“

Sílesandi krakki

Vilborg hefur skrifað tíu sögulegar skáldsögur sem gerast á fyrri tíð, flestar á landnámsöld. Þar eru sterkar og hugrakkar konur í aðalhlutverkum og ferðast oft á milli landa. Spurð hvenær áhugi hennar á þessum tíma hafi vaknað segir hún: „Það var mjög snemma. Kannski vegna þess að ég er fædd og uppalin á Þingeyri og nánast í miðju þorpinu er friðlýst svæði, Þinghólarnir, óreglulegir grasi vaxnir hólar. Munnmæli segja að þarna hafi verið búðir þingsins sem gaf eyrinni og þorpinu nafnið. Ég vissi þetta sem krakki, þannig að landnámssagan var ekki í þúsund ára fjarlægð heldur daglega fyrir augum, og man eftir að hafa velt fyrir mér hvernig það skyldi hafa verið að vera til á þeim tíma, koma fyrst að óbyggðu landi, sjá Sandafellið ofan við þorpið sem hefur auðvitað verið alveg eins þá og nú.

Ég hef líka alltaf haft sterka tengingu við náttúruna, eflaust af því að hafa alist þarna upp, fjallið fyrir ofan hús og fyrir neðan fjaran og sjórinn. Náttúran er rótsterk í mér.

Áhuginn á að skrifa sögulegan skáldskap kviknaði í framhaldi af því að um tvítugt datt ég í að lesa á ensku hnausþykkar skáldsögur sem gerðust á miðöldum. Mér fannst heillandi að sjá horfinn tíma í gegnum persónur sem eiga sitt daglega líf, sorgir og gleði, rétt eins og við, en bundnar af ólíku samfélagi, skorðum og skilyrðum. Það sem enginn man gerðist líka, sagði Kirsten Ekman einhvers staðar, og um það skrifa ég.

Frá því að ég var sílesandi krakki langaði mig til að skrifa bók og þegar ég ákvað hálfþrítug að láta á reyna vildi ég fara eins langt aftur í Íslandssöguna og ég kæmist. Ég þekkti samt lítið til sveitasamfélagsins, alin upp í sjávarplássi, pabbi var sjómaður og ég hafði aldrei farið í sveit.

Laxdæla er fyrsta Íslendingasagan sem ég las af fúsum og frjálsum vilja, einmitt út af þessu. Áður hafði ég lesið Eglu og Grettlu í skóla og hrútleiðst báðar. En hugmyndin var sú að skrifa skáldsögu um írskættaða ambátt á landnámsöld og ég hafði heyrt að í Laxdælu væri sagt frá einni slíkri og líka að konur væru þar í aðalhlutverkum. Ég var með kjarnann að fléttunni í kollinum en átti margt ólært til að geta hafist handa. Ég fór því á Landsbókasafnið og bókaverðirnir fundu bækur fyrir mig. Þannig byrjaði þetta grúsk og seinna tók ég reyndar þjóðfræðina í HÍ. Núna er ég áskrifandi að stóru gagnasafni þar sem ég get slegið inn leitarorð og fengið á sekúndubroti aðgang að fræðigreinum á hvaða sviði sem er, sagnfræði, þjóðfræði eða fornleifafræði.“

Fyrsta skáldsaga Vilborgar, Við Urðarbrunn, kom út 1993 og framhald hennar, Nornadómur, árið eftir. Þær gerast um aldamótin 900 og segja frá baráttu norsk-írskrar ambáttar fyrir frelsi úr ánauð. Bækurnar hlutu verðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur og Íslandsdeildar IBBY og voru síðar gefnar út í einni undir titlinum Korku saga.

Síðan komu miðaldaskáldsögurnar Eldfórnin, Galdur og Hrafninn, en sú síðastnefnda var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Vilborg skrifaði um landnámskonuna Auði djúpúðgu í þremur bókum. Auður, fyrsta bókin, hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Önnur bókin var Vígroði og sú síðasta Blóðug jörð.

Skáldsagan Undir Yggdrasil kom út 2020 og fjallar um Þorgerði Þorsteinsdóttur, sonardóttur Auðar djúpúðgu, en bókin var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Seinna bindið, Land næturinnar, kom út árið 2023 og fékk tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Fær send tákn

Vilborg skrifaði einnig bókina Ástin, drekinn og dauðinn sem kom út árið 2015 og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Þar fjallaði Vilborg um makamissi og sára sorg. Eiginmaður hennar Björgvin Ingimarsson, kennari og sálfræðingur, var 47 ára gamall þegar hann dó úr heilakrabba árið 2013. Þau hjón nefndu heilakrabbann dreka.

„Við vorum í okkar lífsævintýri, hann sem hinn hugrakki prins og ég sem hin undurfagra prinsessa! Drekinn var bæði meinið sjálft en líka viðfangsefnið að eiga góðan dag, á hverju sem gengi. Þannig að drekinn varð okkar tákn. Hann lést reyndar á síðasta deginum í ári drekans, í febrúar fyrir tólf árum.

Allt síðan þá hef ég talað við hann og bið hann að senda mér tákn þegar ég þarf á styrk að halda. Og hann gerir það,“ segir Vilborg og nefnir dæmi: „Nóvember er sá mánuður sem er mér erfiðastur. Björgvin átti afmæli 16. nóvember og síðasta nóvembermánuðinn sem hann lifði vissi ég að skammt væri eftir. Í nóvember 2023 fór ég enn og aftur inn í þennan dimma tíma og bað Björgvin um að senda mér nú dreka. Þá sá ég auglýsingu frá Ásatrúarfélaginu um fyrirlestur bandarísks rithöfundar um bók sem hann væri að skrifa um dreka. Ég mætti vitanlega og það var skemmtilegur klukkutími. Núna í miðjum nóvember síðastliðnum bað ég aftur um dreka, og sá sama dag skærgulan bíl innan um fjölda grárra á stóru bílastæði við Bónus með plastdreka á mælaborðinu. Á númeraplötunni stóð með hástöfum: DREKI.“

Hún biður Björgvin ekki einungis að senda sér dreka heldur einnig regnboga ef henni liggur á. „Drekar eru kannski ekki eitthvað sem maður býst við í hversdeginum. Það er fljótlegra að fá regnboga, ásbrúna, í þessu blauta landi, en þá er hann oft tvöfaldur, breiðir úr sér yfir fjall eða er á einhvern hátt sérstakur.

Ég lenti í því í vetur að fá gallsteinakast og var ósköp lítil í mér, lá inni á Landspítala og þurfti að fara í bráðaaðgerð. Þar sem ég lá þarna hugsaði ég til Björgvins og sagði við hann: Mikið væri gott að fá regnboga núna. Þá klingdi í símanum. Ég hafði fengið senda mynd frá vinafólki stöddu í Orkneyjum, á uppáhaldsstað mínum þar, Steinanesi, sem ég skrifaði inn í Blóðuga jörð. Þarna eru gríðarháir bautasteinar, reistir fyrir 5.000 árum, þar sem ég sviðsetti brúðkaup sonardóttur Auðar djúpúðgu. Á myndinni snertast endarnir á tveimur regnbogum við einn bautasteinanna, þannig að þeir mynda V, upphafsstafinn í nafninu mínu.

Einhver gæti kallað þetta sjálfssefjun eða tilviljun en það skiptir ekki máli. Þetta styrkir mig og er óskiljanlega yfirnáttúrulegt, skemmtilegt og skrýtið.“

Vilborg hefur fundið ástina aftur, kærastinn heitir Þorgrímur Pétursson. „Hann er kletturinn minn. Það kom mér á óvart að hægt sé að elska tvo menn í einu. Það er svo margt að læra í sorginni og enginn hefur sagt manni frá, sem von er.“ Hún segist trúa á ástina. „Annað er ekki hægt. Það væri ekkert gaman að þessu lífi öðruvísi.“

Faðir birtist í draumi

Sögulegar skáldsögur hennar gerast á tímum þegar örlagatrú var ríkjandi. Er hún örlagatrúar? „Já, ég legg metnað minn í að trúa á yfirnáttúruna og vera með opinn huga gagnvart því sem ég fæ ekki skilið! Ég er ekki með sterkmótaða trúarsýn að öðru leyti en því að ég er sannfærð um að til er annar heimur en okkar, vídd sem stundum fæst innsýn í þótt óskiljanleg sé. Það er hroki í því þegar nútíminn þykist hafa skilið allt sem fyrir ber. Viðhorfið fyrr á tímum endurspeglaði hins vegar virðingu jafnt fyrir náttúrunni sem óskiljanlegri yfirnáttúrunni.

Pabbi lést árið eftir að Björgvin dó. Við fengum að vita að hann væri með útbreitt krabbamein þegar ég fór með honum í rannsókn daginn eftir útför Björgvins. Þegar við kvöddumst í síðasta sinn bað ég hann um að koma til mín í draumi þegar hann væri kominn inn í ljósið og segja mér hvernig væri þar. Hann lofaði því og eftir sjö vikur dreymdi mig hann. Hann faðmaði mig og sagði: Þetta er eins gott og það getur orðið. Það eina sem ég man úr draumnum er skjannahvítt umhverfi, hann að faðma mig og þessi orð hans.

Árið eftir andlát pabba fæddist fyrsta barnabarnið mitt, lítil stúlka sem fékk nafnið Viktoría, löngu fyrir tímann og lést þriggja vikna gömul, 6. nóvember 2015. Þá voru þúsund dagar frá dauða Björgvins. Af tilvist hennar, þótt stutt væri, spratt mikill kærleikur sem lifir enn. Áhrifin sem hún hafði á líf okkar eru ekki í neinu hlutfalli við þá fáu daga sem hún fékk í veröldinni. Mér finnst þannig mjög áþreifanlegt að kærleikur sem verður til, hann varir.“

Bók um veturinn

Vilborg er með óskáldaða bók í smíðum sem kemur líkast til út næsta haust. „Það er snúið að lýsa henni. Vinnuheitið, og líklegur titill, er Vetrarbókin. Útgangspunkturinn er að hjálpa sjálfri mér og lesandanum vonandi líka að komast í gegnum íslenskan vetur, þennan erfiða og frostkalda tíma með myrkri og fárviðrum.

Ég skoða hvernig formæður okkar og forfeður, bæði keltnesk og norræn, fóru að í fyrndinni og hvaða vættir voru þeim til halds og trausts, hvaða hefðir og hjálp eru í fornum sögum og þjóðtrú til að skynja helgidóminn og fegurðina í hvunndegi vetrarins.

Allar kynslóðir fram á 20. öld þurftu að þrauka í ótrúlegum aðstæðum til að lifa þessa árstíð af, áttu allt sitt undir náttúruöflunum, að til væri forði í búri að hausti og hægt að róa til fiskjar. Barnadauðinn var lengi gríðarlegur. Tölur frá miðri 19. öld sýna að þá náðu aðeins rúmlega 600 af hverjum 1.000 börnum eins árs aldri. Þannig að það er engin furða þótt áfallastreitan sitji enn í erfðaefninu og valdi okkur andþyngslum og kvíða þegar skammdegið leggst yfir.

Ég byrja um veturnætur í lok október, þeim fornu áramótum, helsta veislutíma Íslendingasagnanna þegar haldin voru dísablót, þræði mig svo í gegnum skammdegið, vetrarsólstöður, vetrarvættirnar, jóladraugasögur, um stjörnuhimin Snorra Sturlusonar og fram á vorjafndægur. Í þjóðtrú norrænna manna sem Kelta eru skil eins og vetrarupphaf og vetrarsólstöður tíminn þar sem hulan þynnist á milli heima. Og þá getur allt gerst.

Fyrir nokkrum árum fékk ég óskaplegan áhuga á Grýlu og sökkti mér ofan í ýmislegt sem henni tengist og fjalla um hana í þessari bók. Hún þekkist víðar, birtist í grímusiðum í Færeyjum, Hjaltlandi og Orkneyjum og á systur á Írlandi og Skotlandi sem heitir á gelísku Cailleach. Nafnið merkir Kerlingin og þær eiga margt sameiginlegt, tilheyra báðar vetrinum og fjöllunum, eru ógnvekjandi og krefjast virðingar.

Veturinn er leiðarstefið en ég segi líka sögur af eigin forforeldrum, og leyfi mér alls kyns útúrdúra eftir því hvert grúskið og hugurinn teymir mig. Þegar ég var búin með tvennuna um Þorgerði Þorsteinsdóttur var ég frjáls og gat valið að skrifa um hvað sem er. Það er góður staður til að vera á. Þá er allt opið. En um leið og ég er byrjuð að skrifa skáldsögu þarf að þrengja fókusinn. Þetta á ekki við um Vetrarbókina og þess vegna er þetta svo skemmtilegt. Ég hef aldrei áður skrifað bók þar sem ég hef getað leyft mér að fara í allar áttir bara eftir því hvað mér finnst forvitnilegt og spennandi.“

Dyggir lesendur bóka Vilborgar hljóta svo að bíða eftir nýrri sögulegri skáldsögu eftir hana. „Ég er með ákveðna hugmynd en hún er ekki mikið meira en það,“ segir hún. „Það hefur heillað mig að skapa sögusvið stuttu eftir kristnitöku, og læknislist, til dæmis á Sturlungaöld, er nokkuð sem kallar á mig. Þetta er að gerjast í huganum og á eftir að þróast. Það er gaman að vera á þeim stað.“