Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Hildur Sverrisdóttir sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að ríkisstjórnin væri „óþægilega markalaus“ þegar kæmi að því að fara með sitt nýfengna vald. Jón Jens Kristjánsson sneri út úr því:
Valkyrjustjórnin með völdin fer
virðist þó tæp á ránni
sem að mun vera af því hún er
ekki í markaskránni.
Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónassyni í Hlíð á Langanesi:
Oft við bónorð brotnar sá,
býsna víða fjalli á,
kappi haldinn kvíða‘ og sorg,
og kenndur er við þýska borg.
Eins og áhugamenn þekkja felst merking lausnarorðsins í hverri línu gátunnar. Guðrún Bjarnadóttir leikur sér með lausnina:
Hryggbrotin, var hafnað, ligg.
Á hrygginn fjalls samt klifið gat,
döpur, hrygg. En dýran hrygg
um datt, Hamborgarjólamat!
Lausnarorðið er hryggur og ólík merking í hverri línu. Það þvælist ekki fyrir Úlfari Guðmundssyni:
Bónorðs hryggbrotin mæða menn.
Mikill fjallshryggur heillar enn.
Kappi hryggur af kvíða´ og sorg.
Kenndur er hryggur við Hamborg.
Erla Sigríður Sigurðardóttir er með svarið sem hún tileinkar þeirri mætu konu, Sigríði á Sunnuhlíð í Kópavogi:
Biðill oft hryggbrotinn er,
beittur fjallahryggur.
Hryggur jafnvel jaxlinn fer,
jólahrygginn tyggur.
Helgi Einarsson sendir lausnina alla leið frá Tenerife:
Hryggbrotinn harm sinn ber.
Hryggur mjög dapur er.
Hamborgarhryggurinn.
Hryggur er kamburinn.
Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:
Í vörubílum ennþá er,
uppi timburhúsið ber
Færeyingum finnst hún góð,
fest við staur og lokar slóð.
Friðrik Steingrímsson var eins og Helgi á Tenerife en varð fyrir óhappi!
Rólegur í sælu sat
á sólarströnd með drykk og mat,
þegar dúfu djöfullinn
drullað'oní bjórinn minn.