Kristjana sækir innblástur til nítjándu aldar. Verk hennar eru gjarnan mjög ævintýraleg.
Kristjana sækir innblástur til nítjándu aldar. Verk hennar eru gjarnan mjög ævintýraleg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er endalaust á antíkmarköðum og í gömlum landakortabúðum; alltaf að leita að einhverju nýju til að setja inn í myndirnar.

Í bókasafni Páfagarðs stendur nú yfir sýningin En Route, en þrír listamenn voru valdir til að búa til listaverk sem endurspegla heimsferðir nítjándu aldar. Listaverk þeirra eru nú til sýnis ásamt áður óséðum dagbókum og tímaritum um sama efni. Kristjana var nýkomin heim til sín í London frá Vatíkaninu þegar blaðamaður sló á þráðinn til að heyra um ferilinn og hvernig íslensk listakona endaði í heimsókn hjá páfanum sjálfum.

Græddum aldrei krónu

Kristjana er hálf íslensk og hálf bresk, alin upp við sjávarsíðuna á Seltjarnarnesi þar sem hún gekk í skóla. Tvítug að aldri flutti hún til Bretlands, þar sem hún hefur búið nú í þrjá áratugi.

„Áður en ég flutti til London hafði ég verið í rafeindatækni því þótt ég hafi alltaf verið listræn var ég skíthrædd að fara þá leið. Ég sá fyrir mér að ég yrði fátækur listamaður, ein að mála inni í herbergi,“ segir hún og hlær.

„Mér gekk ágætlega í rafeindatækninni en stærðfræðin var að vefjast fyrir mér. Ég hafði alltaf verið í myndlist sem barn og það fór svo að listin togaði í mig og endaði ég á að komast inn í listaskólann Central Saint Martins, en sá skóli er mjög virtur og erfitt að komast þar inn. Ég fór þar í grafíska hönnun og myndlýsingu,“ segir Kristjana.

„Eftir námið, þegar ég var um þrítugt, opnuðum við nokkur eins konar „pop-up“ búð og gallerí sem hét Beyond the Valley. Þar seldum við alls kyns varning; listmuni, tímarit, myndir og tískufatnað. Hugmyndin var að sinna listinni en eins að vera með söluvænan varning,“ segir hún, en búðin var starfrækt í sjö ár.

„Þarna mátti finna listmuni eftir hundrað listamenn sem flestir höfðu verið með okkur í skólanum. Ég lærði mikið af þessu, en við vorum þrjár stelpur sem rákum búðina og fengum við alls konar verðlaun og viðurkenningar. Við græddum aldrei krónu en þetta var rosalega skemmtilegt.“

Upplýsingar í myndrænu formi

List Kristjönu er ýmist tvívíð eða þrívíð og oftar en ekki er um einhvers konar klippimyndir að ræða. Myndirnar eru rómantískar, ævintýralegar, skrautlegar og stundum jafnvel súrrealískar. Kristjana á og rekur Kristjana S. Williams Studio og þar vinna fimm manns.

„Ég er í grunninn að nota klippimyndir, sem eru ofsalega skemmtilegt listform. Ég nota mikið málmristur og letur frá Viktoríutímabilinu, en á þeim má finna sögur og frásagnir frá þeim tíma áður en ljósmyndavélin kom til sögunnar. Það er rosalega mikið til af þessu. Oft þegar fólk býr til klippimyndir eru bútarnir notaðir í raunstærð en ég tek oft þessar gömlu myndir, þríf þær og skerpi og nota til að búa til myndir úr þeim. Ég ólst upp við sjóinn og svartan sand og man að þegar ég var barn var ég endalaust að óska mér að hér væru pálmatré og páfagaukar. Ég var alltaf að ímynda mér fjarlæg lönd og þegar ég flutti til Englands fór ég mikið að grúska í landakortum, sögu London og kóngafólkinu. Ég sé það þegar ég horfi til baka að ég er alltaf að vinna með upplýsingar í myndrænu formi,“ segir Kristjana.

„Ég bý til nútímalist úr þessu sögulega efni og hef unnið með ýmsum fyrirtækjum. Ég vann með Coldplay, en þeir taka oft söguleg augnablik og búa til úr þeim myndbandsverk eða myndlist. Ég vann líka verk fyrir The Shard, hæstu byggingu Evrópu, en þar gerði ég fimm metra ljósverk þar sem saga London fékk að njóta sín. Sum verk mín eru svoleiðis; að upplýsingar eru í forgrunni en önnur eru þannig að fólk á að geta horft á þau og týnt sér í náttúrunni eða ævintýraheimi,“ segir Kristjana, sem vinnur jöfnum höndum að eigin list og pantaðri list.

„Ég sel til dæmis alls kyns prent í takmörkuðu upplagi á heimasíðu minni. Ég er líka oft að vinna fyrir aðra, eins og Victoria & Albert Museum, en ég hef unnið fyrir þau í tíu ár. Svo tek ég þátt í stórum sýningum, þannig að það má segja að vinnan mín sé þríþætt,“ segir Kristjana, en meðal annarra fyrirtækja sem Kristjana hefur unnið fyrir má nefna Harrods, Paul Smith og Tanqueray auk ýmissa hótela.

„Stærsta verkefni mitt fyrir Victoria & Albert Museum var að myndskreyta hvernig sagan um Lísu í Undralandi hefur haft áhrif á tísku, teiknimyndir, leikhús og pólitík í gegnum tíðina.“

Hvernig eru verkin unnin? Ertu að klippa út myndir og skeyta saman eða er þetta allt unnið í tölvu?

„Bæði. Ég er endalaust á antíkmörkuðum og í gömlum landakortabúðum; alltaf að leita að einhverju nýju til að setja inn í myndirnar. Ég kaupi oft gamlar bækur sem eru með efni þar sem ekki er höfundaréttur og klippi þá út myndir, skanna þær inn og hreinsa. Oft nota ég tvö hundruð klippimyndir til að búa til eina mynd. Þær eru marglaga,“ segir hún.

„Stundum er ég búin að teikna myndina upp áður og leita svo að myndum sem passa inn í. Þetta er mikið púsl fram og til baka. Þegar ég er búin að eiga við myndirnar í tölvunni eru þær prentaðar út og klipptar. Stafræna hliðin er líka mjög mikilvæg.“

Var pósturinn nokkuð gabb?

Tölvupóstur barst Kristjönu einn góðan veðurdag frá Páfagarði. Í honum var hún beðin um að búa til verk fyrir bókasafn Vatíkansins ásamt tveimur öðrum listamönnum. Kristjana segist hafa lesið póstinn nokkrum sinnum því hún trúði vart sínum eigin augum og vildi vera viss um að þarna væri ekki gabb á ferð.

„Við fengum tölvupóst frá einum presti þarna sem var búinn að sjá verkin mín og vildi búa til þessa sýningu í bókasafninu. Hann vildi opna safnið meira fyrir almenningi og vildi nota tækifærið vegna afmælishátíðar og taka fyrir tísku, list, tónlist og upphefja hluti sem fyrir eru í safninu,“ segir Kristjana, en sýningin En Route, sem þýða mætti Á ferð, mun standa yfir í heilt ár og er samstarfsverkefni milli bókasafns Vatíkansins og listamannanna Kristjönu, Mariu Grazia Chiuri, sem er listrænn stjórnandi hjá Dior, og ítalska poppsöngvarans Jovanotti. Þema sýningarinnar er „Pílagrímar vonarinnar“, en þar eru ferðalög fyrri tíma skoðuð frá ýmsum sjónarhornum og til þess er notuð myndlist, tónlist, tíska og mannkynssaga.

„Það var til gamalt fréttablað sem hét En Route, en það skrifuðu tveir franskir menn sem ferðuðust um heiminn á hjólum á nítjándu öld. Þeir voru báðir fréttamenn og fóru heimshorna á milli; til Saigon, til Mexíkó, til Indlands, og hvert sem þeir fóru gáfu þeir út blað um ferðina, um staðina og um fréttir þess tíma. Í einu af verkunum mínum er ég að endurskapa þessa vegferð,“ segir hún, en þessi gömlu dagblöð fundust í bókasafninu.

„Ég hef unnið verk um konur frá nítjándu öld sem voru ferðalangar, en flestir þeirra voru karlmenn. Sýningarstjórar í Vatíkaninu fundu mig því þeir vissu að ég vann gjarnan verk innblásin frá þeim tíma. Ég vann náið með bókasafni Vatíkansins og fór margoft í ferðir til Rómar Við fengum að fara í gegnum bækur og skjöl í safninu, sem var æðislegt,“ segir Kristjana og segist mikið hafa skoðað kopar- og málmristur.

Talnabönd frá páfanum

Sýningin er opnuð 15. febrúar fyrir almenningi en Kristjana mætti um síðustu helgi á foropnun ásamt þrjú hundruð manns; listamönnum, ráðamönnum bókasafnsins og fleiri tignum gestum; sá tignasti var sjálfur páfinn.

„Frans páfi er mjög góður maður og réttsýnn. Við fengum að hitta hann, sem var mikil upplifun. Ég er enn aðeins að klípa mig og spyr mig: „Dreymdi mig þetta?“ segir Kristjana og hlær.

„Þetta var mjög afslappað og rólegt. Við fórum inn í stofu sem er í vistarverum hans og settumst þar. Hann kom svo þangað inn og við spjölluðum saman í tuttugu mínútur. Ég gaf honum mynd eftir mig. Við fengum svo öll að taka í höndina á honum og hann gaf okkur svo talnabönd,“ segir Kristjana að lokum.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir