Sigurður Sigurðarson
Enn eru komnar á flot kröfur um að fá að flytja inn mjólkurkúakyn frá Noregi. Áður komu fram slíkar kröfur fyrir 20 árum. Þá var leitað álits Margrétar Guðnadóttur, prófessors og veirufræðings. Ég birti hér brot af áliti hennar, sem varð til þess að hætt var þá við innflutning á erfðaefni úr norskum mjólkurkúm, sem er alls ekki hættulaus. Það álit er enn í fullu gildi. Margrét segir:
„Ég er mjög hrædd um að þessi innflutningur (á fósturvísum) geti fært okkur hættulega sjúkdóma, er hafa aldrei fundist hér (og) vil gera það sem ég get til að koma í veg fyrir óbætanlegt tjón, sem af slíkum innflutningi getur hlotist. Löng reynsla í vinnu með hægfara smitsjúkdóma í sauðfé hefur kennt mér margt, sem getur komið kúabændum að gagni. Þess vegna ætla ég hér og nú að vara alveg sérstaklega við innflutningi norsku fósturvísanna vegna tveggja hæggengra kúasjúkdóma. Það eru kúariða og hvítblæði í kúm. Báðir geta þeir valdið banvænum mannasjúkdómum, ef sýklarnir, sem valda þeim komast í fæðukeðju manna.
Því má bæta við, að í mjólk erlendra kúa er meira af proteininu „beta-kasein A1“ heldur en í mjólk íslenskra kúa. Það hefur þýðingu er varðar sykursýki í börnum. Tíðni sykursýki er mun lægri hér á landi en í öðrum löndum vegna þessa eiginleika íslensku mjólkurinnar.
Höfundur er dýralæknir.