— Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið
„Stefna Íslands er óbreytt. Framtíð Úkraínu er í NATO, samanber leiðtogayfirlýsingu Atlantshafsbandalagsins síðasta sumar sem var samþykkt af leiðtogum allra bandalagsríkja,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra Íslands í samtali við Morgunblaðið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

„Stefna Íslands er óbreytt. Framtíð Úkraínu er í NATO, samanber leiðtogayfirlýsingu Atlantshafsbandalagsins síðasta sumar sem var samþykkt af leiðtogum allra bandalagsríkja,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra Íslands í samtali við Morgunblaðið.

Ráðherra er á Öryggisráðstefnunni í München, en þangað kom hún beint af fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Brussel á fimmtudag. Með í för í München er Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Fundurinn í Brussel var sögulegur vegna yfirlýsinga Pete Hegseth, nýbakaðs varnarmálaráðherra Donalds Trump, sem sagði m.a. að vonir Úkraínu um NATO-aðild væru óraunhæfar, að landið gæti ekki vænst þess að endurheimta allar lendur sínar frá Rússlandi og að Evrópuríki NATO þyrftu að bera ábyrgð á eigin vörnum.

„Ísland stendur sem fyrr með Úkraínu gegn árásarstríði Rússlands og baráttu Úkraínumanna fyrir varanlegum og réttlátum friði þar sem framtíð og fullveldi Úkraínu er á þeirra forræði og forsendum,“ segir Þorgerður Katrín við spurningu um hvort íslensk stjórnvöld væru sammála Bandaríkjunum um að Úkraína ætti ekki erindi í NATO.

„Eins og ég hef sagt, ekkert um Úkraínu án Úkraínu.“

Fyrir NATO-fundinn átti Þorgerður Katrín fjarfundi með utanríkisráðherrum Norðurlanda, þar sem málefni Úkraínu og norðurslóða voru í brennidepli, en Norðurlönd eru einhuga um stuðning við vörn Úkraínu.

Höf.: Andrés Magnússon