Jón Viðar fæddist á Dalvík 18. febrúar 1953. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. janúar 2025.

Foreldrar hans voru Óskar Gunnþór Jónsson, f. 19.7. 1925, d. 19.1. 2016 og Elín Sigurbjörg Sigurðardóttir, f. 30.5. 1928, d. 28.1. 2019. Systkini Jóns Viðars eru Sigrún, Petrína, Jóhanna og Óskar. Fjölskyldan bjó lengst af á Stórhólsvegi 7 á Dalvík. Þar undi Jón sér best á skíðum yfir vetrartímann og við stangveiðar á sumrin.

Jón Viðar giftist Snjólaugu Steinunni Jónmundsdóttir 25. september 1976. Foreldrar hennar voru Jónmundur Stefánsson, f. 17.6. 1922, d. 20.9. 2015 og Kristín Guðfinna Þorsteinsdóttir, f. 18.10. 1923, d. 4.10. 2014. Dóttir Jóns Viðars er Petrína Þórunn, f. 1974. Maður hennar er Björgvin Þór Harðarson og börn hennar eru: Hjördís Bára Sigurðardóttir, hún er gift Sindra Snæ Bjarnasyni og þau eiga Heiðdísi Björk, Arnþór Elí og Ottó Rafn; Rakel Ósk Sigurðardóttir, maður hennar er Axel Johan Ehlin og börn þeirra eru Kayra Elías og Viðar Henrik; Auðun Magni Björgvinsson, kona hans er Birta Sóley Skúladóttir; Guðný Vala Björgvinsdóttir og Sindri Snær Björgvinsson.

Fyrir átti Snjólaug Þorstein Snævar Björnsson, f. 1969, börn hans eru: Jón Björn Þorsteinsson Blöndal, kona hans er Karítas Ósk Ársælsdóttir, og þau eiga París Önnu, Carmen Hrönn, Aron Leví og Ívar Elí; Auður Birna Þorsteinsdóttir Blöndal, maður hennar er Sigurður Haukur Valsson og sonur þeirra er Gabríel Björn; Bjarni Snær Þorsteinsson Blöndal, sem og Kristínu Jónínu Rögnvaldsdóttur, f. 1972, hún er gift Þorsteini Sveinssyni og börn þeirra eru: Ólíver Þorsteinsson, hann er giftur Kolfinnu Bjarnadóttir og sonur þeirra er Emil Steinn; Sylvía Þorsteinsdóttir og Tómas Leó Þorsteinsson.

Saman eiga Jón Viðar og Snjólaug Elínu Sigurveigu Jónsdóttur, f. 1975, hún er gift Hlyni Hafsteinssyni og synir þeirra eru Jón Viðar Hlynsson, kona hans er Franziska Hörber, Kristján Snævarr Hlynsson, Eyþór Júlíus Hlynsson og Kasper Jóel Emil Hlynsson, f. og d. 28.11. 2011, sem og Óskar Gunnþór Jónsson, f. 1977.

Jón og Snjólaug bjuggu á Ólafsfirði þar sem hann vann sem sjómaður, fyrst á togaranum Sólbergi og síðar voru þau með sína eigin smábátaútgerð. Þau bjuggu í Miðbæ meðan þau byggðu Bylgjubyggð 6. Þar bjuggu þau þar til þau fluttu suður og Jón fór að starfa sem sölumaður veiðarfæra hjá Netasölunni. Stofnaði í kjölfarið Sjóco. Síðar starfaði hann sem sölumaður hjá Ísfelli og var framkvæmdastjóri Kemi. Jón og Snjólaug bjuggu síðustu áratugi í Ásbúð í Garðabæ. Hann var virkur félagsmaður í Ármönnum, félagi um stangveiði á flugu. Stofnaði einnig veiðivörunetverslunina Jóakims.

Útför Jóns Viðars hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Elsku pabbi, tengdapabbi og afi, lífið hefur nú ekki alltaf verið dans á rósum en þú kenndir okkur æðruleysi, að leysa öll verkefni af kostgæfni og að standa saman í gegnum súrt og sætt. Við eigum ótalmargar góðar minningar með þér sem við munum halda fast í. Við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þig að og erum stolt af því að vera fjölskyldan þín. Við trúum því að núna sértu kominn í sumarlandið að veiða og að þér líði vel.

Með sorg í hjarta kveðjum við þig í hinsta sinn en þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjörtum okkar.

Um undra-geim, í himinveldi háu,

nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;

á fegra landi gróa blómin bláu

í bjartri dögg við lífsins helgan straum.

(Benedikt Gröndal)

Elín Sigurveig,
Hlynur, Jón Viðar, Kristján Snævarr og Eyþór Júlíus.

Jón kom inn í líf okkar þegar við vorum 2ja og 5 ára. Við bjuggum í Miðbæ á meðan Jón og mamma byggðu Bylgjubyggð 6. Þar var líf og fjör, bæði skrifstofa fyrir útgerðina og hárgreiðslustofa, jafnvel verið að fella net í eldhúsinu í hádeginu og mikill gestagangur frá fjölskyldu og vinum.

Margar góðar minningar koma upp í hugann á kveðjustundum sem þessari, flestar eru reyndar hversdagslegar, fjölskyldan að hjálpast að í sjóhúsinu þar sem við krakkarnir fengum hin ýmsu verkefni allt frá því að hausa, pækla, salta fisk eða smúla gólf, þessar minningar eru samt þær dýrmætustu. Öll eigum við systkinin sögur af veiðiferðum því þær voru líf hans og yndi. Barnabörnin voru honum dýrmæt og velkomið að fara með í veiðiferðir og læra að veiða. Uppáhaldsstaðurinn hans var Veiðivötn, þrátt fyrir erfið veikindi fór hann þangað síðasta sumar, það var ekkert gefið eftir.

Við vitum að það verður tekið vel á móti þér í sumarlandinu og vonum að veiðin þar sé góð. Með hlýhug og þakklæti,

Kristín Jónína og Þorsteinn Snævarr.

Kæri vinur. Nú er baráttan á enda og þú ert frjáls, laus úr þessum löngu og erfiðu veikindum sem þú glímdir við svo lengi og af svo miklum dugnaði og æðruleysi.

Það er svo stutt síðan við vorum að plana veiðiferðirnar fyrir næsta sumar, en nú verða þínar veiðiferðir í fjallavötnum sumarlandsins, þar sem fiskarnir eru víst stærri og sterkari en hér, þú tekur svo á móti mér og kennir mér að veiða þar eins og þú gerðir í Veiðivatnaferðunum okkar. Áhugamálin tengdu okkur og snerust ekki bara um veiði þó veiðin væri númer eitt.

Takk fyrir vináttuna. Takk fyrir allar góðu minningarnar. Takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér.

Innilegar samúðarkveðjur sendi ég til Snjólaugar og aðstandenda. Guð blessi minningu þína kæri vinur.

Fiskur er ég á færi í lífsins hyl,

fyrr en varir kraftar mínir dvína.

Djarfleg vörn mín dugir ekki til,

dauðinn missir aldrei fiska sína.

(Steingrímur Baldvinsson í Nesi)

Júlíus

Guðmundsson.