Sjónarhorn
Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Í störfum sínum sem forsætisráðherra sýndi Katrín Jakobsdóttir ótvíræða leiðtogahæfileika. Þegar hún hvarf úr stóli forsætisráðherra leið ekki á löngu þar til ríkisstjórn Vinstri-grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hvarf einnig á braut. Eins og svo margoft hefur verið haft á orði var Katrín límið í samstarfinu.
Stjórnmálin eru óneitanlega fátæklegri vegna brotthvarfs Katrínar. Afburðamanneskjur eru ekki á hverju strái í stjórnmálaflórunni. Katrín hefði sómt sér vel sem forseti Íslands, en helst voru það villtir vinstrimenn sem komu í veg fyrir að svo varð. Þeir vildu víst frekar kjósa Dale Carnegie-forseta, sem hefur náð litlum tökum á starfinu.
Dagur B. Eggertsson var varla stiginn út úr Ráðhúsinu þegar meirihluti borgarstjórnar sprakk. Hann var límið í samstarfinu. Í borgarmálum hafði hann einstakt lag á að leiða ólíka flokka til samstarfs. Það var hann sem hélt sjálfstæðismönnum frá völdum í borginni árum saman og gladdi þar með ótal vinstrisinnuð hjörtu. Þegar hann yfirgaf borgarmálin hefði hann átt að fá að njóta afreka sinna hjá flokki sínum, Samfylkingunni. Það hefur ekki enn gerst.
Formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, hefur vissulega verið afar önnum kafin og ýmislegt sem augljóst ætti að vera hefur hugsanlega farið framhjá henni. Hún hlýtur þó að fara að átta sig á því að Dagur B. Eggertsson er slíkur yfirburðamaður í stjórnmálum að ástæða er til að gera honum hátt undir höfði. Geri hún það ekki er það annaðhvort til marks um afar slæma dómgreind eða öfund í garð þungavigtarstjórnmálamanns. Góður leiðtogi leyfir hæfileikafólki að njóta sín en felur ekki af ótta við að það skyggi á sig.
Vonandi á Dagur B. Eggertsson vini innan þingflokks Samfylkingarinnar sem telja ekki eftir sér að minna formanninn á mikilvægi borgarstjórans fyrrverandi. Nema Kristrún hafi eingöngu raðað í kringum sig já-fólki, sem mænir á hana aðdáunaraugum dag hvern. Eitt það versta sem stjórnmálaleiðtogi getur gert er einmitt að umkringja sig slíku fólki, þótt slíkt sé örugglega mjög freistandi og auðvelt.
Hér skal þó ekki gleymt að hrósa Kristrúnu, sem er röggsöm og rökföst og ekki líkleg til að láta pólitíska andstæðinga slá sig út af laginu. Leiðtogi má ekki fara á taugum. Einmitt það gerði borgarstjórinn Einar Þorsteinsson þegar hann fyrirvaralaust sleit meirihlutasamstarfi vegna vægast sagt afleitrar stöðu í skoðanakönnunum. Þessi slit hefur hann reynt að réttlæta á ýmsa vegu en skýringar hans eru einkar ótrúverðugar. Engan veginn er hægt að bera virðingu fyrir taugaveiklunarlegri ákvörðun hans sem skapaði upplausn og óróa og var ekki í þágu borgarbúa.
Í nýlegum þætti af Silfrinu í Ríkissjónvarpinu mættust oddvitar flokkanna í borginni. Þátturinn vakti almenna athygli vegna slakrar frammistöðu oddvitanna. Þeir höfðu lítið sem ekkert fram að færa, voru áberandi hugmyndasnauðir og skorti allan myndugleika. Öðru hvoru blöðruðu oddvitarnir um að þeim þætti vænt um aðra oddvita. Eitthvað var svo kvakað um nauðsyn þess að vinna í þágu borgarbúa. Eftir áhorf á þáttinn blasir við að enginn oddvitanna virðist hafa dug til að vera leiðtogi. Það hefði kannski verið ráð að bjóða Degi B. Eggertssyni gestasæti við borðið til að veita oddvitunum almennilega ráðgjöf, nokkuð sem þeir virðast í sárri þörf fyrir.
Stundum er ansi erfitt að bera virðingu fyrir stjórnmálamönnum. Það á við um slaka frammistöðu oddvitanna í þessum þætti. Kosturinn við þáttinn var hins vegar hversu vel hann opinberaði það innihaldsleysi sem einkennir íslensk stjórnmál um of.
Stjórnmálaflokkar landsins þurfa að huga að oddvitaskiptum í borginni fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Skemmtileg tilbreyting væri ef einhverjir þeirra byggju yfir áberandi leiðtogahæfileikum.