Samherjar Kristófer Acox og Björn Kristjánsson eigast við í leik Vals og KR fyrir fjórum árum. Þeir voru áður samherjar hjá KR og eru það nú hjá Val.
Samherjar Kristófer Acox og Björn Kristjánsson eigast við í leik Vals og KR fyrir fjórum árum. Þeir voru áður samherjar hjá KR og eru það nú hjá Val. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltamaðurinn Björn Kristjánsson tók skóna fram að nýju undir lok síðasta árs eftir tveggja ára hlé sem hafði ekki komið til af góðu. Nýrnasjúkdómur sem Björn greindist með árið 2017 leiddi að lokum til nýrnabilunar árið 2022 og þurfti hann að hætta nokkuð skyndilega í nóvember það ár

Körfubolti

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Körfuboltamaðurinn Björn Kristjánsson tók skóna fram að nýju undir lok síðasta árs eftir tveggja ára hlé sem hafði ekki komið til af góðu. Nýrnasjúkdómur sem Björn greindist með árið 2017 leiddi að lokum til nýrnabilunar árið 2022 og þurfti hann að hætta nokkuð skyndilega í nóvember það ár.

„Það er mjög gott að vera kominn aftur, ég get ekki logið til um það. Það er spennandi,“ sagði Björn í samtali við Morgunblaðið. Hann lék fjóra leiki með KR í úrvalsdeildinni í desember og janúar á þessu tímabili og skipti svo nýverið til Íslandsmeistara Vals.

„Það hefur gengið ágætlega að koma sér aftur af stað. Þetta er svolítið upp og niður. Ég var búinn að vera lengi frá og var ekki að gera neitt mikið í staðinn. Maður var svolítið að koma, ekki beint úr neinu, en að byrja að æfa aftur var klárlega svolítið upp og niður.

Maður var ferskur eina vikuna og fann svo vel fyrir því hina vikuna. Með þetta eina nýra þá vantar svolítið upp á þrekið og úthaldið. Það þarf svolítið að koma í ljós hvort ég geti þetta almennilega,“ sagði Björn, sem er 32 ára gamall skotbakvörður.

Ekkert ósætti við KR

Björn varð á sínum tíma fjórum sinnum Íslandsmeistari með KR og einu sinni bikarmeistari. Hjá Val endurnýjar hann kynnin við þjálfarann Finn Frey Stefánsson og fyrirliðann Kristófer Acox, en saman voru þeir afar sigursælir hjá KR.

„Ég var hjá Val eftir áramót í fyrra, þar sem ég æfði. Þegar ég ákvað að spila langaði mig að gera það hjá KR. Ég var eiginlega ekki að pæla í neinu öðru. Svo talaði ég við Finn, við vorum í sambandi síðustu vikuna áður en glugginn lokaðist.

Ég talaði líka við Kristó og það var bara áhugi báðum megin. Þetta snerist ekkert aðallega um að spila, þannig séð, þetta var svolítið upp á félagsskapinn að gera. Þá vildi ég frekar vera í Val. Það var ekkert ósætti eða neitt svoleiðis við KR,“ sagði Björn um skiptin til Vals.

Össur hjálpaði mikið til

Í samtali við Vísi í nóvember árið 2022 greindi Björn frá því að hann neyddist til að hætta vegna sjúkdómsins og gæti ekki spilað körfubolta áfram. Í febrúar árið 2023 gekkst Björn undir skurðaðgerð þar sem hann fékk nýra frá móður sinni, Berglindi Steffensen kvensjúkdómalækni.

„Ég er í rauninni með þrjú nýru en það er bara eitt sem virkar,“ sagði Björn og útskýrði hvers vegna hann gæti nú spilað körfubolta:

„Þetta var í rauninni bara læknirinn minn sem sagði við mig að ég þyrfti að hætta af því að þeir settu nýrað í kviðinn rétt hjá mjaðmabeininu. Þannig að það var aðallega högghættan við íþróttina.

Það var ekki vegna hreyfingar eða einhvers svoleiðis. Það hefði bara þurft að koma í ljós. En svo allt í einu fór ég að pæla í því að ég vissi að einhverjir gaurar hefðu spilað körfubolta eftir að hafa fengið nýtt nýra.

Ég sá að fótboltamaður hafði gert það líka. Þá fór ég sjálfur að pæla í því hvort ég gæti gert þetta og talaði við þá hjá Össuri. Þeir voru geggjaðir og hjálpuðu mér að búa til vörn fyrir nýrað. Þá gat ég alveg spilað. Líkaminn er fínn, þannig séð, en ég á bara eftir að sjá hvort ég höndli þetta.“

Þurfti að hætta skyndilega

Spurður nánar út í nýrnasjúkdóminn sagði Björn:

„Þetta var þannig að ég greinist árið 2017 með nýrnasjúkdóm, sem virkar í rauninni þannig að nýrun bila hægt og rólega. Það er rosalega erfitt að vita hvort það gerist eftir fimm ár, tíu ár eða hvað það er.

Svo fóru þau að dala mjög hratt haustið 2022. Ég þurfti að hætta frekar skyndilega. Mér versnaði mjög hratt á nokkrum vikum. Ég hélt að ég ætti nokkur ár eftir. Svo varð það eitt ár, svo fram að áramótum og svo var það bara: „Þú þarft að hætta í dag.“ Þetta gerðist allt á svona einum mánuði.

Ég var veikur í einhverja mánuði með nýrnabilun, fór svo í aðgerð og jafnaði mig á henni. Ég er ennþá að jafna mig á því í dag. Það er í rauninni ekki vitað hvort sjúkdómurinn herji á nýja nýrað eða ekki. Það getur gerst en það gæti líka ekki gerst.“

Seinni tíma vandamál

Ertu þá í reynd ekki með sjúkdóminn í dag?

„Nei, hann er ekki virkur allavega. Það á eftir að koma í ljós hvort þetta komi aftur en ég veit ekki hvort það skipti einhverju máli. Gjafanýru endast ekkert það lengi, þ.e.a.s. ekki alla ævi.

Þau endast í einhver 10-15 ár hvort sem sjúkdómurinn kemur aftur eða ekki. Það gæti verið að ég þurfi annað nýra einhverjum árum fyrr ef hann kemur aftur en það er seinni tíma vandamál,“ útskýrði hann.

Björn sagði líðan sína almennt góða og að hann væri nokkuð bjartsýnn á framhaldið í körfuboltanum.

„Fyrir utan körfuboltann myndi ég segja að mér líði alveg þokkalega. Það er ákveðinn skortur á þreki og úthaldi og þreyta sem segir til sín dagsdaglega. En varðandi körfuboltann á það svolítið eftir að koma í ljós.

Eins og ég sagði þarf ég bara svolítið að prófa þetta, sjá hvort maður geti þetta og hvort ég geti eitthvað í körfubolta yfirhöfuð! Það á allt eftir að koma svolítið í ljós en ég er alveg þokkalega jákvæður og það er gaman að vera kominn aftur í þetta,“ sagði Björn að lokum í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson