Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Þetta er vel ígrundað verkefni sem við getum notið góðs af. Hér er ekki um massatúrisma eða átroðning að ræða og við sjáum gríðarleg tækifæri í þessu,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra.
Þekkt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ævintýraferðamennsku undirbýr nú byggingu lúxushótels í Fljótshlíð. Fyrirtækið Explora hefur fengið samþykkt deiliskipulag fyrir jörðina Tindfjallahlíð sem áður var í landi Barkarstaða. Hótelið verður reist á einstökum stað með óhindruðu útsýni um sveitina.
Fremst á sínu sviði
Tindfjallahlíð er tæpir 38 hektarar og hófst vegagerð á jörðinni síðasta haust. Lokið verður við hana í vor. Gert er ráð fyrir tveimur byggingarreitum, annars vegar þrjú þúsund fermetra hótelbyggingu á tveimur hæðum með 30 herbergjum fyrir 75 gesti og hins vegar eitt þúsund fermetra starfsmannahúsi. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir við hótelið hefjast.
Explora rekur sjö lúxushótel í Síle, Perú, Bólivíu og Argentínu. Að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins hefur það verið útnefnt fremsta fyrirtækið á sínu sviði sex ár í röð af World Travel Awards.
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa fulltrúar Explora lagt mikla vinnu í undirbúning þessa verkefnis. Þeir munu hafa kynnt sér aðstæður í Finnmörku í Norður-Noregi, á Grænlandi og Íslandi eftir að ákveðið var að færa út kvíarnar. Ísland varð fyrir valinu sem fyrsti uppbyggingarstaðurinn.
Anton Kári segir að forsvarsmenn sveitarfélagsins hafi fyrst heyrt af þessum áformum fyrir um tveimur og hálfu ári. Þá kom útsendari á vegum Explora hingað til að kanna mögulegar staðsetningar. Hann varði nokkrum mánuðum á Íslandi. „Hann keyrði hring eftir hring þar til hann fann þennan stað. Hér er staðurinn; hér er útsýnið og stutt inn í friðlönd,“ segir Anton Kári.
Aðdáunarverð vinnubrögð
Hann segir að í kjölfar þessa hafi stór sendinefnd á vegum fyrirtækisins komið til landsins. Aðdáunarvert hafi verið að fylgjast með því hvernig allt var unnið í rólegheitum. Enginn þrýstingur var á að hraða plani heldur er áhersla á að gera hlutina vel. „Það er mikill munur frá því sem sveitarfélög eiga að venjast. Hingað koma oft menn sem fengu hugmynd að verkefni í gær, vilja fund með sveitarfélagi í dag og hefjast handa á morgun. Það sem heillaði okkur við þetta verkefni var yfirvegunin og virðingin bæði við náttúruna og samfélagið. Ég held að við Íslendingar getum tekið okkur til fyrirmyndar hvernig þetta er unnið.“
Sveitarstjórinn segir jafnframt að til marks um það hvernig forsvarsmenn Explora vilja koma inn í samfélagið hafi aldrei komið annað til greina af þeirra hálfu en að starfsmenn hótelsins muni búa á Hvolsvelli. Byggð verða hús fyrir þá í bænum.
„Og þeir vilja helst fá Íslendinga í vinnu. Samfélagslega séð er þetta gríðarlega stórt verkefni. Það er miklu meira á bak við þetta en bara að fá fullt af fólki í gistingu.“
Ævintýri í haust
Íslandsferð á þrjár milljónir
Auk þess að reka lúxushótel skipuleggur Explora ævintýraferðir víða um heim. Fyrirtækið hefur nú ákveðið að taka forskot á sæluna og kynna Ísland fyrir viðskiptavinum sínum. Fjórar átta daga ferðir hafa verið auglýstar í haust. Aðeins er tekið á móti átta í hverja ferð en þeir fá einstaka upplifun af helstu náttúruperlum landsins.
Verð á hvern ferðalang er frá 3,1 milljón króna með öllu inniföldu en auk þess þurfa þeir að koma sér sjálfir til og frá landinu.