Fyrir fáeinum misserum, meðan Lola Young var að ganga gegnum erfið sambandsslit, settist hún niður í herberginu sínu og samdi lítið lagt. Hvernig er betra að gera þungar tilfinningar upp en einmitt með því að semja sig frá þeim? „Sambandið var á enda og þetta var lúkningin af minni hálfu,“ segir söngkonan í samtali við Variety.
Síðan rölti hún með lagið til útgefanda síns, Island Records, sem leist vel á smíðina og þótti hún tilvalin á aðra breiðskífu Young, This Wasn’t Meant for You Anyway. Fínn hluti af heild, ekkert meira, ekkert minna. Platan átti að koma út vorið 2024 en menn byrjuðu að tína smáskífurnar út strax haustið 2023, eina af annarri, eins og gert er til að kynda undir breiðskífunni. Og veðjað var strax á litla sambandsslitalagið? Nei, ekki aldeilis. Ekki bara ein og ekki bara tvær, heldur fimm smáskífur komu út á undan því ágæta lagi.
„Ég held að enginn hafi kveikt á þessu,“ segir Young í Variety. „Ég var alla vega ekki: Hei, þetta er smellurinn. Útgefandinn minn kveðst hafa vitað hvað hann var að gera en ég held að enginn geti vitað fyrir víst hvað kemur til með að virka. Við vorum með skýra sýn á sándið, hverjar smáskífurnar voru og hvað átti að hafa forgang.“
Á engan er hallað þótt fullyrt sé að fyrstu smáskífurnar fimm hafi ekki komið fram á skjálftamælum. Spyrjið bara Magnús Tuma. Young virtist bara halda áfram að tala inn í tómið, eins og á fyrstu breiðskífunni, My Mind Wanders and Sometimes Leaves Completely, sem kom út ári áður. Umsagnir voru að vísu á jákvæðum nótum og menn upp til hópa á því að stúlkan byggi yfir miklum hæfileikum en smellirnir létu á sér standa. Og fáir vissu hver hún var.
Inn steig sjötta smáskífan af seinni plötunni, sambandsslitalagið okkar, Messy. Jú, jú, fínt lag en áfram fátt að frétta. Lengi vel. Smáskífan kom út síðasta vor og virtist ætla að hljóta sömu örlög og hinar fimm á undan henni. En bíðum nú við! Einhverjir áhrifavaldar á samfélagsmiðlinum TikTok grípu Messy á lofti, sömdu dans við lagið og óvænt og skyndilega fóru hjólin að snúast. Og það á engum smá hraða. Messy æddi upp breska vinsældalistann og linnti ekki látum fyrr en það var komið alla leið á toppinn. Það sama gerðist í Ástralíu, á Írlandi og í Ísrael, auk þess sem lagið skilaði sér inn á topp 20 í Bandaríkjunum.
Lola Young var komin rækilega á kortið.
Lagið er sannarlega grípandi, ber öll einkenni góðs sálarskotins poppsmells, en Young hefur ekki síður fengið lof fyrir textann – sem virðist höfða til breiðs hóps. Allir og amma þeirra virðast bókstaflega fíla lagið; allt frá Kylie Jenner upp í rosknar konur hafa lofsamað það á TikTok, þar af ein með rafrettu í annarri og bjór í hinni: „94 and still messy.“
Kíkjum á viðlagið:
'Cause I'm too messy, and then I'm too fucking clean
You told me, "Get a job", then you ask where the hell I've been
And I'm too perfect till I open my big mouth
I want to be me, is that not allowed?
And I'm too clever, and then I'm too fucking dumb
You hate it when I cry unless it's that time of the month
And I'm too perfect till I show you that I'm not
A thousand people I could be for you and you hate the fucking lot.
Eigum öll misjafna daga
Í samtali við vef breska ríkisútvarpsins, BBC, kveðst Young í skýjunum með viðtökurnar, ekki síst fyrir þær sakir að lagið sé ákaflega persónulegt og fyrir vikið sé gaman að svo margir tengi við það. Um leið og að hún sé að syngja um það hversu erfitt geti verið að fá að vera maður sjálfur þá sé hún að vekja athygli á því að við eigum öll misjafna daga; erum með allt lóðbeint niðrum okkur einn daginn en með allt á hreinu þann næsta.
„Ætli lagið höfði ekki til svona margra vegna þess að ég er að vinna með þá pælingu að það séu tvær hliðar á öllum manneskjum, þversagnir,“ segir Young við BBC.
Í viðtali við Metal Magazine kallar Young Messy „baráttusöng ADHD“. „Það fjallar um allt sem ég upplifði í síðasta sambandi, en ristir samt dýpra en það, vegna þess að ég er líka að tala um það hvað mér finnst yfir höfuð um sjálfa mig – að ég sé of subbuleg einn daginn en of hrein þann næsta og eigi þar með í basli með að finna jafnvægið innra með mér sjálfri.“
Spurð af BBC hversu nálægt raunveruleikanum textinn sé svarar Young: „Mjög nálægt. Satt best að segja eins nálægt og komist verður. Ég skrifa um eigin reynslu og allt er það raunverulegt. Þetta eru allt hlutir sem ég hef gengið í gegnum, aðstæður og upplifanir. Tónlistin er eini staðurinn þar sem ég get verið fullkomlega ærleg. […] Annars velti ég því svo sem ekkert fyrir mér. Þetta er í raun alls ekkert erfitt, mér líður ekki eins og að ég sé að afhjúpa sál mína eða neitt slíkt. Ég hef bara alltaf gert þetta í minni tónsköpun.“
Í Variety-viðtalinu ræðir Young um að sjálf sé hún ekki undanþegin gagnrýni; hún sé hávær og kjaftfor og vilji láta á sér bera. Það geti verið vandmeðfarið.
En velgengnin er kærkomin. „Ég hef beðið lengi eftir þessu og er klár í slaginn. Ég hef alltaf verið ærleg og hví ætti ég að breytast?“
Það er einmitt sú staðreynd sem um leið skelfir hana mest. „Ég er hræddust við slaufunarmenninguna. Pólitísk rétthugsun er ekki mín sterkasta hlið.“
Byrjaði að semja 11 ára
Lola Young fæddist í Lundúnum 4. janúar 2001 og varð því 24 ára fyrir skemmstu. Faðir hennar er af jamaísku og kínversku bergi brotinn en móðirin ensk. Foreldrar Young skildu þegar hún var lítil og stjúpi hennar, sem er bassaleikari, vakti með henni áhuga á tónlist, ásamt móður hennar. Sex ára gömul hóf hún píanó-, gítar- og söngnám og 11 ára var Young farin að semja sína eigin tónlist. Hún gekk Island Records á hönd 2019 og fyrsta lagið kom út sama ár.
Young hefur rætt opinskátt um andleg veikindi sín en hún er greind með geðhvarfaklofa (e. schizoaffective disorder) sem er stundum skilgreindur sem blanda geðklofa og lyndisraskana. Þá hefur hún glímt við blöðrur á raddböndum sem hafa orðið til þess að hún hefur þurft að aflýsa tónleikum.