Stjórnendur Arion banka tilkynntu Íslandsbanka formlega í gær um áhuga sinn á að efna til viðræðna um samruna bankanna og að hefja sameiginlega vinnu við að meta tækifæri til verðmætasköpunar sem í samruna felast, eins og það er orðað í bréfi þeirra til stjórnenda Íslandsbanka

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Stjórnendur Arion banka tilkynntu Íslandsbanka formlega í gær um áhuga sinn á að efna til viðræðna um samruna bankanna og að hefja sameiginlega vinnu við að meta tækifæri til verðmætasköpunar sem í samruna felast, eins og það er orðað í bréfi þeirra til stjórnenda Íslandsbanka.

Markmiðið er aukin skilvirkni sem á að skila sér í beinum ávinningi fyrir hluthafa og viðskiptavini með lægra verði og betri þjónustu. Bankinn segist tilbúinn að vinna náið með Samkeppniseftirlitinu og tryggja að minnst 5 milljarðar af sparnaði skili sér á ári til neytenda í formi lægri kostnaðar.

Íslandsbanka er gefinn 14 daga frestur til að svara því hvort stjórn hans sé reiðubúin að taka þátt í viðræðum en tekið er fram í bréfinu að sjálfsagt sé að laga tímafrestinn að þörfum bankans sé þess óskað.

Arion banki er reiðubúinn að bjóða hluthöfum Íslandsbanka 5% yfirverð á markaðsvirði bankans, þegar skiptihlutföll bankanna yrðu ákvörðuð, og þannig myndu hluthafar bankans, þar á meðal íslenska ríkið, fá hærra verð fyrir sinn hlut og eignast stærri og skilvirkari hlut í sameinuðum banka.

Það er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að í nýlegu verðmati Akkur – Greiningar og ráðgjafar er Íslandsbanki metinn um 30-45% hærra en dagslokagengi bankans í gær gerir ráð fyrir. Þá er gengi Arion banka um það bil hlutfallslega jafn vanmetið að mati Akkur – Greiningar og ráðgjafar.

Arion banki talar beint til stjórnvalda og ræðir m.a. hið svokallaða Íslandsálag og þjóðhagslegan sparnað af samrunanum í bréfinu en hvaða áhrif skyldi áhugi Arion banka á Íslandsbanka hafa á fyrirhugaða sölu ríkisins á hlut sínum í bankanum? » 26