Ólafur Þór Jóhannsson fæddist 6. apríl 1954. Hann lést 2. febrúar 2025. Útför hans fór fram 13. febrúar 2025.
Á nánast augabragði veiktist Óli, okkar kæri bekkjarbróðir, og lést degi síðar, án þess að læknar fengju nokkuð við ráðið. Þvílíkt reiðarslag og sorg þegar svo ótímabærar fréttir berast, en staðreynd sem ekki verður breytt. Óli var alltaf svo líflegur og hress, ímynd hreystinnar, frá okkar fyrstu kynnum.
Fyrir tæpri hálfri öld myndaðist afar samstæður bekkur á 1. ári við Kennaraháskóla Íslands. Rúmlega 20 nemendur voru saman í A bekk, stúlkur í góðum og ráðandi meirihluta, ásamt undirrituðum og nokkrum Laugarvatnspiltum sem létum vel að stjórn. Eftir þrjú ár á skólabekk og útskrift vorið 1979 ákvað þessi hópur að halda áfram að hittast reglulega og hefur það haldist alla tíð. Mánaðarlega hefur bekkurinn hist, fyrst sem „saumaklúbbur“ í heimahúsi og í seinni tíð við fast borð á einu af kaffihúsum borgarinnar. Einstaklega ánægjulegar samverustundir sem ber að þakka fyrir. Vináttan og samheldnin hefur bara aukist og styrkst okkar á milli með hverju ári og makar ekki undanskildir.
Óli var ómissandi í hópnum og lífgaði sannarlega upp á tilveruna með nærveru sinni, frásagnargleði og fyndni. Óli var farsæll bæði í störfum og einkalífi og naut stuðnings fjölskyldunnar sem kennari, stýrimaður, athafnamaður og íþróttafrömuður. Til að ná markmiðum sínum þarf hver maður að sýna ákveðni, skipulag og samskiptahæfileika. Þessir þættir einkenndu Óla. Hann átti auðvelt með að vinna traust og öðlast vináttu allra þeirra sem hann kynntist, óháð aldri.
Við bekkjarsystkini Óla erum harmi slegin yfir fráfalli okkar kæra vinar og munum sannarlega sakna hans og alls þess sem hann var okkur með glaðværð sinni og vináttu. Þórunni og börnunum vottum við innilega samúð. Fallinn er frá einn af bestu sonum Grindavíkur, bænum þar sem Óli bjó allan sinn aldur og unni heitt.
Blessuð sé minning okkar kæra bekkjarbróður Óla, sem lifa mun áfram í hjörtum okkar.
Fyrir hönd bekkjarsystkina í Kennaraháskólanum,
Helgi Árnason.
Kynni sumra okkar og Óla hófust í Héraðsskólanum á Laugarvatni seint á sjöunda áratugnum, þegar við komum þangað til náms, mörg harla lítil í okkur og óörugg. Fram undan var að máta sig við vaxandi þroska og nýtt umhverfi.
Þarna var saman kominn hópur unglinga víða af landinu. Sveitakrakkar af Suðurlandi voru mest áberandi, svo og drjúgur hópur af Suðurnesjum, sem var talinn bera með sér keiminn af sjómannsblóði, bítlatónlist og smiti frá herstöðinni. Þessi blanda sveitakrakkanna, „lífsreyndra“ af Suðurnesjum og fleirum gekk auðvitað allavega, en það sem úr varð hafði varanleg áhrif á okkur öll.
Eftir landspróf lá svo leið sumra okkar í Menntaskólann, haustið 1970. Þar bættist í hópinn ungt fólk með ýmsan bakgrunn og við tóku ný skref til þroska. Á fjórum árum fækkaði í þessum hópi og svo fór að við vorum 24 sem loks lukum þarna stúdentsprófi vorið 1974.
Dvöl í heimavistarskóla mótar ungt fólk á ýmsa vegu, en kannski er mikilvægasti lærdómurinn af svona skóla sá að það verður til vinahópur sem stendur saman ævina á enda.
Nú er Óli fallinn frá, óvænt og á besta aldri. Þessi ágæti félagi og vinur í alla þá áratugi sem liðnir eru frá fyrstu kynnum skilur eftir sig ansi stórt skarð. Hann unni lífinu og var hrókur alls fagnaðar, sögumaður með afbrigðum skemmtilegur. Þá var hann íþróttamaður af guðs náð. Alltaf var hann klár þegar eitthvað stóð til og margt eftirminnilegt gerðist í ML, en kannski vantar nú Óla til að segja frá einstökum viðburðum, með strákslegu glotti og hressilegum hlátri.
Það var eftirsóknarvert að vera í liði með Óla, enda óskoraður leiðtogi þegar kom að hópíþróttum, körfubolta og blaki. Hvar sem hann bar niður á því sviði var hann bara bestur.
Bílar nemenda voru fáir á þessum tíma. Þar með dvöldust nemendur á vistinni meira og minna allar helgar og þær urðu oft ansi ærslafullar. Það var skóli fram að hádegi á laugardögum, en eftir það tók yfirleitt við íþróttaiðkun og ýmiss konar frístundastarf og um kvöldið böll eða skröll af öðru tagi. Á vistinni var gleðin við völd og þar sat Óli oft og sagði sögur af fjölbreyttum toga.
Þegar stúdentsprófi lauk dreifðist hópurinn víða en við héldum samt sambandi reglulega. Hin síðari ár höfum við hist mánaðarlega til að rifja upp farinn veg og rækta tengslin. Við munum misvel það sem gerðist á Laugarvatni, en Óli var óþreytandi að rifja upp gömul ævintýri, í félagi við vin sinn, Jason Ívarsson.
Meðalævilengd fólks hefur aukist mikið síðan við vorum í ML. Nú finnst okkur að fólk á okkar aldri hljóti að eiga mörg góð ár eftir, en við erum nógu þroskuð til að átta okkur á að það er ekkert gefið í þeim efnum. Ótímabært andlát Óla er okkur mikilvæg áminning um það. Við hugsum til fjölskyldu hans á erfiðum tíma og við hugsum líka til hópsins okkar, sem nú horfir á bak traustum félaga.
Fyrir hönd útskriftarstúdenta vorið 1974 frá ML,
Páll Magnús Skúlason og Eiríkur Jónsson.
Ef ég ávarpaði hann í síma „er það stjórnarformaður?“ vissi hann að stutt var í stjórnarfund, en ef ég sagði „sæll nafni“ vissi hann að ég þurfti á honum að halda, þá ósjaldan, sem þurfti að mæta í ráðuneytið, nú eða að hitta hagaðila vegna málefna Fistækniskóla Íslands. Ólafur Þór tók við sem stjórnarformaður skólans skömmu eftir formlega stofnun árið 2009 og við fylgdumst síðan að, allt til við báðir létum af störfum fyrir nokkrum árum, ég sem skólameistari og hann sem formaður stjórnar.
Það verður að segjast að það var mikið lán að fá Óla Þór til liðs við okkur á þessum fyrstu árum. Óli var fulltrúi Grindavíkurbæjar í stjórn skólans óslitið til 2023, óháð öllum pólitískum vindum og breytingum í stjórnkerfinu.
Hann tók hlutverk sitt sem stjórnarformaður mjög alvarlega. Hann hafði gríðarlegan áhuga á öllu sem viðkom menntun í sjávarútvegi og setti sig mjög vel inni í öll mál. Þekking Óla Þórs og reynsla af kennslu, auk beinnar tengingar við greinina, var okkur afar dýrmæt á þessu fyrstu árum skólans, enda þurftum við að leggja allt okkar traust á fyrirtæki í veiðum, vinnslu og fiskeldi þegar kom að verkþjálfun og kennslu á vinnustað. Þetta samstarf við greinina var og er eitt megineinkenni og sérkenni skólans og þar reyndist Óli mikilvægur tengiliður.
Síðar hljóp Óli einnig undir bagga með því að kenna skipstjórn til pungaprófs, enda með full réttindi bæði til kennslu og skipstjórnar.
Óli var ákveðinn í samskiptum. Oft fannst honum hlutirnir ganga mjög hægt – og ekki síst það sem snéri að hinu opinbera. Þrátt fyrir ýmsar mótbárur og erfiðleika þessi fyrstu árin var Óli ætið til reiðu þegar kallið kom og taka þurfti einhverja slagi við uppbyggingu skólans – og það var oft.
Um leið og ég þakka þau ár sem leiðir okkar lágu saman vil ég þakka Óla það mikla framlag hans til eflingar fræðslu og menntunar á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis á Íslandi. Votta ég Þórunni, börnum, tengdabörnum og vinum innilega samúð.
Ólafur Jón Arnbjörnsson, fv. skólameistari Fisktækniskóla Íslands.
Ég hitti Óla fyrst í Héraðsskólanum á Laugarvatni fyrir tæpum 60 árum. Við urðum fljótt miklir mátar og áttum margt sameiginlegt. Þar sem annar fór var gjarnan spurt hvar hinn væri og úr varð ævilöng einstök vinátta sem aldrei bar skugga á. Við fylgdumst að í námi í 11 ár alltaf í sama bekk eða námshópi.
Á menntaskólaárunum hittumst við ekki í sumarleyfum enda uppteknir við vinnu á ólíkum stöðum. Það var því alltaf tilhlökkunarefni að hittast í skólabyrjun að hausti og fara yfir hvað á dagana hafði drifið um sumarið. Á þeim tíma var Óli á síldveiðum í Norðursjónum. Svo vel sagði hann frá að mér fannst ég hafa verið með honum um borð í Grindvíkingi. Hvar sem skóla- og veiðifélagar hittust var Óli fremstur í flokki að rifja upp góðar stundir og hressa þannig upp á minni viðstaddra. Óli var góður í þeim íþróttum sem hann stundaði. Hann lék fyrstu landsleikina í blaki en körfuboltinn í Grindavík átti hug hans allan. Sumir hafa nefnt hann föður körfuboltans á staðnum. Hann er það í eiginlegri merkingu þar sem synir hans hafa verið í fremstu röð í keppni og þjálfun hjá félaginu.
Eftir að við vorum búnir að koma þaki yfir höfuðið og mesta barnauppeldið var að baki urðu samskipti okkar meiri. Það leið ekki langur tími á milli þess að við hittumst eða töluðumst við. Þá fór ferðum í stang- og skotveiði að fjölga. Arnarvatnsheiðin var í uppáhaldi en bestu stundirnar voru við veiðar í Fljótaánni í hópi vina og fjölskyldu Óla. Við Hulda ferðuðumst einnig mikið með Óla og Þórunni. Hann hafði ferðast víða og var útsjónarsamur í ferðaáætlunum sem við nutum góðs af. Margar ferðirnar fórum við á staði sem hann þekkti vel. Einn af þeim var aðalverslun L.L.Bean norður í Maine í Ameríku þar sem við keyptum helstu veiðigræjurnar ásamt öðru tilheyrandi.
Óli hafði mjög góða nærveru og var hreinskiptinn í öllum sínum samskiptum og gerðum. Hann var leiðtogi hvar sem hann var í hópi og oftar en ekki var hann búinn að hugsa fyrir næstu skrefum varðandi það sem þurfti að gera. Norður í Hvammi í Fljótum átti fjölskylda Óla athvarf. Þangað fór hann eins oft og hann fékk tækifæri til. Þar naut hann sín hvað best við ýmis störf í hvítbotna gúmmískónum úr kaupfélaginu í Ketilási.
Skyndilegt andlát Óla skilur eftir sig stórt skarð í nærsamfélaginu. Mestur er þó missir fjölskyldunnar þegar þessi mikli ættarhöfðingi er fallinn frá.
Jason Ívarsson.
Var rétt nýstiginn upp í bílinn á leið frá Grindavík um hádegisbil þann 2. febrúar þegar síminn hringdi og góður maður tjáði mér að Ólafur Þór Jóhannsson væri látinn. Eins gott að ég sat, mér brá virkilega illa við þessa sorgarfrétt og ég get varla sagt að hún sé almennilega meðtekin nú þessum dögum síðar.
Sameiginlega eigum við hjónin og Óli og Þórunn óteljandi minningar. Útilegur, matarklúbbur, körfubolti og golf svo eitthvað sé nefnt, aðallega þó traustur vinskapur sem aldrei bar skugga á. Óli var gjarnan hrókur alls fagnaðar, alltaf stutt í brosið og hláturinn hjá honum.
Hugur hans stefndi að kennslu, hann fullmenntaði sig sem kennara og samhliða því námi lauk hann fyrsta stigs námi í Stýrimannaskólanum, sem hann tók með námi á öðru ári í Kennaraháskólanum. Hann kenndi í nokkur ár, úrvals kennari, en hvarf frá kennslunni, einkum vegna slakra launakjara ef ég man rétt, og skellti sér aftur á sjóinn, nú sem stýrimaður. Hann gerðist frumkvöðull í fiskmarkaðsmálum þjóðarinnar, en 1987 var hann ráðinn framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Suðurnesja, sem var einn af fyrstu fiskmörkuðum á landinu. Teningunum var varpað og línan lögð, sjávartengda línan. Hann stofnaði síðar eigið fyrirtæki, Spes, sem sérhæfði sig í fiskútflutningi. Árið 2009 var hann kjörinn formaður stjórnar nýstofnaðs félags um rekstur Fisktækniskóla Ísland og gegndi þeirri stöðu til 2023.
Óli var kletturinn í stórfjölskyldunni, maðurinn sem sat efst á fjölskyldupíramídanum með góða yfirsýn, maðurinn sem alltaf var hægt að treysta á og leita til ef eitthvað bjátaði á hjá stóra glæsilega hópnum hans og Þórunnar sem og hjá vinahópnum. Alltaf boðinn og búinn að aðstoða og hjálpa. Áhrif Óla á körfuboltann í Grindavík eru ómetanleg og munum við Grindvíkingar ávallt standa í þakkarskuld við hann fyrir framlag hans innan vallar sem utan og svo lögðu þau hjónin körfuboltanum til fjóra öfluga leikmenn.
Óli var virtur af öllum sem kynntust honum, enda var hann stór manneskja í víðasta skilningi þess orðs og með stórt hjarta úr skínandi gulli. Hans verður sárt saknað og skarð hans vandfyllt en minningin um góðan dreng mun lifa í hjörtum þeirra sem áttu því láni að fagna að kynnast honum. Okkar innilegustu samúðarkveðjur til fjölskyldunnar á þessum erfiðu tímamótum.
Ingibjörg og Björn (Bjössi).