Hugrekki „Rakel, Auður og Viktoría búa yfir miklum sviðssjarma sem nýtist vel í uppfærslunni,“ segir í rýni.
Hugrekki „Rakel, Auður og Viktoría búa yfir miklum sviðssjarma sem nýtist vel í uppfærslunni,“ segir í rýni. — Ljósmynd/Myriam Marti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Hver vill vera prinsessa? ★★★★· Eftir: Raddbandið og Söru Martí Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir Tónlist: Rakel Björk Björnsdóttir og Stefán Örn Gunnlaugsson. Útsetningar og hljóðfæraleikur: Stefán Örn Gunnlaugsson. Lagatextar: Viktoría Sigurðardóttir og Rakel Björk Björnsdóttir. Leikmynd: Auður Ösp Guðmundsdóttir. Búningar: Viktoría Sigurðardóttir. Teikningar og myndvinnsla: Usman Naveed. Lýsing: Friðþjófur Þorsteinsson og Kjartan Darri Kristjánsson. Hljóðmynd: Rakel Björk Björnsdóttir. Hljóðhönnun og tæknikeyrsla: Kristín Hrönn Jónsdóttir. Sviðshreyfingar: Raddbandið. Leikarar: Auður Finnbogadóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir, sem skipa Raddbandið. Frumsýning í Tjarnarbíói 1. febrúar 2025.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Hver vill vera prinsessa? nefnist nýr fjölskyldusöngleikur úr smiðju Raddbandsins (sem þær Auður Finnbogadóttir, Rakel Björk Björnsdóttir og Viktoría Sigurðardóttir skipa), Söru Martí Guðmundsdóttur og Stefáns Arnar Gunnlaugssonar, sem nýlega var frumsýndur í Tjarnarbíói í afbragðsleikstjórn Söru. Sýningin, sem tekur rúman klukkutíma í flutningi, hverfist um þrjár prinsessur. Þær bera engin nöfn heldur er vísað til þeirra sem prinsessa 7, 9 og 13. Prinsessa 7 (Viktoría Sigurðardóttir) ber í fasi og klæðaburði keim af Þyrnirós en prinsessa 9 (Rakel Björk Björnsdóttir) minnir um margt á Öskubusku og prinsessa 13 (Auður Finnbogadóttir) á Merídu í Pixar/Disney-teiknimyndinni Brave.

Í upphafi verks kynna prinsessurnar sig til leiks með sönglögum sem endurspegla með skemmtilegum hætti ólíkan karakter þeirra og óskir, en tónlistin (sem Rakel og Stefán sömdu) leikur mikilvægt hlutverk í uppfærslunni. Viktoría, með ljósa lokka og íklædd glitrandi bleikum kjól, dregur upp mynd af sykursætri prinsessu sem fædd er með silfurskeið í munni og býr „í höll með þjón og kokk“. Á yfirborðinu virðist allt fullkomið, en einmanaleikinn er aldrei langt undan. Rakel, í látlausum brúnum klæðnaði, fangar vel örvæntingu þeirrar sem föst er í þjónustuhlutverki þar sem hún þarf sífellt að vera að skúra, skúbba og bóna. Hún lætur sig dreyma um að vera bjargað af ástinni í formi prins á hvítum hesti. Auður birtist sem hreystin og dugnaðurinn uppmáluð, enda vílar persóna hennar ekki fyrir sér að klífa hæstu fjöll í græna flauelskjólnum sínum með bogann á öxlinni. Hún á það hins vegar sameiginlegt með prinsessu 7 að vera einmana og gerir sér líka vonir um að ástin geti breytt því.

Fyrr en varir dregur til tíðinda og öllum þremur prinsessum berast bréf þar sem þeim er boðið að mæta á svonefnda prinsabiðstofu þar sem þær geta freistað gæfunnar í leit að ástinni, en raunar virðist pörunin milli prinsa og prinsessa fara fram með slembivali í nokkur konar lottói. Hvörf verða í atburðarásinni þegar galdranorn tilkynnir prinsessunum þremur óvænt að engir prinsar muni mæta. Hún hafi lagt á þær álög og aðeins hrein ást muni geta bjargað þeim, en það þurfi að gerast fyrir miðnætti.

Nú eru góð ráð dýr. Prinsessurnar leggja upp í leit að hreinni ást og vonast til þess að finna fljótt þrjá álitlega prinsa í skóginum sem þær virðast fastar í. Við tekur bráðskemmtileg framvinda þar sem prinsessurnar kynnast hver annarri og kýta m.a. um það hvað þurfi að hafa til að bera til að vera sönn prinsessa. Þegar litið er til Disney-prinsessa í gegnum tíðina eru þær ýmist fæddar prinsessur (Þyrnirós og Mjallhvít) eða giftast inn í konungsfjölskylduna (Öskubuska), stundum settlegar og prúðar (Fríða), en oft líka óhræddar við að taka örlögin í eigin hendur (Garðabrúða, Aríel, Elsa og Anna). Flestar virðast þær þó eiga það sameiginlegt að geta talað við og/eða skilið dýr. Auk þess sem allar framangreindar teiknimyndaprinsessur bresta nær undantekningarlaust í söng þegar mikið liggur við og tilfinningarnar bera þær ofurliði.

Líkt og í öllum sönnum ævintýrum þurfa prinsessur 7, 9 og 13 að leysa ákveðnar þrautir og yfirvinna dýpsta ótta sinn. Í því ferli styrkjast böndin milli þeirra og sjálfsþekkingin eykst. Í þeim skilningi er þetta valdeflandi sýning fyrir áhorfendur. Á sama tíma komast þær að því að hrein ást er ekki aðeins bundin við maka heldur getur einnig, eins og hjá Önnu og Elsu í Frozen, birst meðal systra og/eða sannra vina.

Rakel, Auður og Viktoría búa yfir miklum sviðssjarma sem nýtist vel í uppfærslunni. Þær fá góðan „mótleik“ í frábærum teikningum og myndvinnslu sem Usman Naveed hannar og birtist sem myndbönd á þremur háum flekum á sviðinu. Umgjörðin öll, hvort heldur snýr að litríkum búningum, vandaðri lýsingu eða góðri hljóðmynd þjónar framvindunni vel. Hér er boðið upp á afbragðsskemmtun fyrir alla fjölskylduna. Yngstu áhorfendurnir geta skemmt sér við að horfa á prinsessurnar leika sér í dúkkuleik með tálgaða prinsa og taka út fyrir að neyðast til að prumpa meðan eldri áhorfendur geta notið þess hvernig snúið er upp á prinsessuþemað með skapandi hætti. Eftir situr síðan boðskapurinn um mikilvægi þess að bíða ekki með hendur í skauti eftir hamingjunni heldur þora að treysta á sjálfa/n sig í leit að eigin lukku.