Bílstjórar Ásgeir Þór Ásgeirsson úr Grundarfirði og Veigar Arthúr Sigurðsson með brot úr blæðandi vegi sem þeir plokkuðu af trukkum sínum.
Bílstjórar Ásgeir Þór Ásgeirsson úr Grundarfirði og Veigar Arthúr Sigurðsson með brot úr blæðandi vegi sem þeir plokkuðu af trukkum sínum. — Morunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðsjár eru nú á vegum á Vesturlandi vegna bikblæðinga. Síðustu daga hefur verið milt í veðri og hitastig nokkrar gráður í plús. Við þær aðstæður losnar um undirlag vega og klæðninguna sem á þeim er

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Viðsjár eru nú á vegum á Vesturlandi vegna bikblæðinga. Síðustu daga hefur verið milt í veðri og hitastig nokkrar gráður í plús. Við þær aðstæður losnar um undirlag vega og klæðninguna sem á þeim er. Losnað hefur um olíuborin stykki á vegunum svo þau festast í undirvögnum flutningabíla og á dekkjum. Komnir í áfangastað þurfa bílstjórar að fara í altæka hreinsun á bílunum og á ferð þarf að sýna fyllstu aðgæslu þegar bílar mætast svo tjörufyllt malarstykkin feykist ekki af trukkunum og lendi á fólksbílum sem koma úr gagnstæðri átt.

„Ég man ekki eftir ástandi líku þessu áður. Umferðin stöðvast fljótlega verði ekki gripið til aðgerða. Trukkarnir skemmast í þessum aðstæðum; lakkið rispast, ljós brotna og fleira,“ segir Veigar Arthúr Sigurðsson flutningabílstjóri. Hann hefur verið víða á ferð síðustu daga; um Snæfellsnes, Vestfirði og í Húnavatnssýslum. Þegar hann kom eftir langan túr í bæinn aðfaranótt föstudags þurfti hann langan tíma til að verka bíl sinn upp; þrífa og plokka tjörufyllt malarstykki af dekkjunum.

Atvinnulífið stöðvist

„Staðan er mjög alvarleg. Slit á vegunum veldur hættu; bæði lífs og lima, og bílar skemmast. Þegar leyfilegur ásþungi bíla er lækkaður er hætta á að atvinnulífið stöðvist; það er að stoppuð verði til dæmis umferð flutningabíla sem koma vestur að sækja fisk,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, í samtali við Morgunblaðið. Hann segir stöðuna á vegum á Snæfellsnesi mjög slæma; alveg frá Mýrunum og vestur á Hellissand. Einnig sé staðan slæm við þéttbýlisstaðina á Nesinu norðanverðu.

Vegna bikblæðinga hefur Vegagerðin svo gefið út að hættuástand sé á Vestfjarðavegi; það er á Bröttubrekku, við Búðardal, í Hvammssveit, Svínadal og Hvolsdal í Saurbæ. Þar og víðar hefur hámarkshraði verið tekinn niður í 70 km/klst. og hámarks-ásþungi á bílum er sjö tonn. „Við þessa stöðu fæst ekki lengur unað. Það að hættustigi sé lýst af veghaldara sýnir alvöru málsins,“ segir í bókun sveitarstjórnar Dalabyggðar, þar sem kallað er eftir skjótum viðbrögðum Vegagerðar.

„Ástandið er skelfilegt”

„Núna erum við með mannskap að fylla í holur á veginum. Við blæðingum er hins vegar lítið að gera, nema að takmarka umferð eins og gert hefur verið. Ástandið er skelfilegt,“ segir Sæmundur Kristjánsson, yfirverkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal, í samtali við Morgunblaðið.

Vegna takmarkana sem nú gilda fara flutningabílstjórar nú um hjáleiðir til að komast þangað sem þarf. Að aðeins léttari ökutæki megi fara um Dali þýðir til dæmis að sé komið á stórum bílum vestan af fjörðum þarf nú að fara um Þröskulda og svo um Strandir og Holtavörðuheiði suður í Borgarfjörð. Slíkt þýðir að ferðatími lengist mjög með röskunum sem fylgja.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson