Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Miðvikudagur í annarri viku febrúar. Ofar skýjum í 8.000 fetum í TF-SIF; eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslunnar, sem er af gerðinni Dash-8. Við erum miðja vegu milli Íslands og Grænlands. Flugmennirnir fara eftir markaðri stefnu og skipan dagsins. Stýrimenn á útkíkki eru í sambandi við skipstjóra á hafinu og stjórnstöð Gæslunnar. Radartæki og myndavélar sýna lönd, skip og annað í langri fjarlægð. Úthafið á tölvuskjá og ekkert mál að bregða upp stærri myndum af því sem skoða þarf betur; óþekktri skipaumferð, hafís, útskerjum eða hugsanlegri mengun.
„Hjá Gæslunni er víða flogið. Snemma í vikunni vorum við fyrir austan land og norðan og núna í vestri. Mér fellur þetta vel; áður var ég flugmaður á Airbus hjá Play en datt svo í lukkupottinn í fyrra þegar ég komst að hjá Gæslunni þangað sem ég raunar hafði alltaf stefnt,“ segir Guðrún Margrét Gísladóttir flugmaður.
Fara 3-4 ferðir á viku
TF-SIF hefur að undanförnu farið í 3-4 flug á viku, en markmiðið með ferðunum er að greina óþekkta skipaumferð á hafinu, skoða athafnir skipa, greina mengun, hafís og annað sem kann að hafa áhrif á auðlindir eða siglingaöryggi. Með þessu móti, að viðbættu fjar- og gervitunglaeftirliti, næst góð yfirsýn yfir það sem er að gerast í lögsögunni auk þess sem varðskipin fara víða um og menn úr áhöfn þeirra um borð í skip til eftirlits. Þessi árstími er til þess að gera rólegur en með vorinu eykst umferð íslenskra og erlendra skipa við landið og þá verður meiri áhersla lögð á landamæraeftirlit og veiðar erlendra skipa við lögsöguna. Þá hefur vægi eftirlits með óþekktum skipum, með tilliti til öryggis- og varnarmála, aukist á undanförnum misserum.
„Þetta er spennandi starf og verkefnin fjölbreytt. Mér fellur líka vel að fljúga utan hefðbundinna ferla án sjálfstýringar við aðstæður sem oft eru krefjandi. Núna höfum við verið nánast alla ferðina ofan skýja þar sem sólin skín. Og bráðum sjáum við til lands,“ segir Guðrún Margrét flugmaður – þegar hún dregur fram leiðsögutækið. Hún er enn í þjálfun á Dash-vélinni, en í ferðinni síðasta miðvikudag var hún hægri hönd Gunnars Guðmundssonar flugstjóra. Hann er gamalreyndur; var í áraraðir hjá Flugfélagi Íslands en hefur verið hjá Gæslunni síðastliðin sex ár.
Stjórnstöð leggur línurnar
„Starfsmenn í stjórnstöð og á aðgerðasviði leggja línurnar um hvað kanna skuli í hverri flugferð, þá eftir því sem þörf er talin á hverju sinni,“ segir Gunnar flugstjóri. Í leiðangri vikunnar, þar sem blaðamaður fékk að fljóta með, var sérstaklega litið eftir hafís, eins og þarf að gera á þessum tíma árs. Ísinn var langt frá landi; raunar aðeins hröngl um 60 mílur út af Straumnesi. Á miðju Grænlandssundi í flugferðinni var stefnan tekin úr flugi til vesturs í norðaustur. Eftir langt flug í þá átt var snúið við djúpt norður af Vestfjörðum og rennt inn til Ísafjarðar.
„Við förum reglulega á Ísafjörð og æfum lendingu á flugvellinum þar, enda geta aðstæður þar verið krefjandi,“ segir Gunnar. Síðasti leggurinn var svo flug til Reykjavíkur, en samanlagt voru flognar um 850 sjómílur þennan dag á rúmum þremur klukkustundum.
Til Miðjarðarhafsins
Strax eftir helgi fer TF-SIF til nýrra verkefna. Flogið verður til Malaga á Spáni og þaðan verður vélin gerð út næstu vikur á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópu. Þar mun áhöfnin annast gæslu ytri landamæra Evrópu á Miðjarðarhafinu. Slíkt er til eftirlits með hugsanlegum ferðum skipa og báta með flóttamenn frá Norður-Afríku sem ætla til Evrópu. Því hefur, vegna væntanlegra frátafa ytra, verið leitast við í ferðum síðustu vikna hér heima að fara sem víðast um íslensku lögsöguna og líta eftir því sem þarf, meðan færi gafst.