Jæja, Þorbjörn minn. Hér hefur þú smíðað nýyrði.“ Eitthvað á þessa leið sagði Gylfi Gröndal ritstjóri Alþýðublaðsins þar sem hann stóð yfir ungum blaðamanni á ritstjórninni.
„Nú, er það?“ svaraði blaðamaðurinn, Þorbjörn Broddason að nafni.
„Já, já, enginn hefur áður kallað popphljómsveitina vinsælu The Beatles Bítlana. Þú hefur búið til nýyrðið „bítill“. Mjög vel gert.“
Þorbjörn var á þessum tíma nýgræðingur í faginu; réð sig til starfa á Alþýðublaðinu sumarið 1963, strax að loknu stúdentsprófi, og vann þar fram á haustið 1964, að hann hélt utan til Edinborgar í framhaldsnám. „Mér þótti blaðamennska spennandi og fór að hitta Gylfa Gröndal en hann var þá að taka við Alþýðublaðinu. Hafði áður verið ritstjóri Vikunnar. Í því samtali álpaðist ég til að upplýsa Gylfa um að ég væri góður í stafsetningu en hefði betur látið það ógert. Hann setti mig nefnilega fyrir vikið beint í að lesa prófarkir. Ég var sem sagt ekkert í dramatískri rannsóknarblaðamennsku eða að eltast við slys eða stórbruna. Sat bara við skrifborðið og las prófarkir.“
Ekki var það þó fullt starf. Þorbjörn var líka settur í innblaðið. „Ég bar ábyrgð á þeim hluta blaðsins en þetta var mest erlent slúður sem ég þýddi upp úr norrænum blöðum. Þetta var léttmeti sem þótti ómissandi enda poppaði það blaðið upp. Mest var þetta skraf um fólk sem ég þekkti lítið sem ekki neitt og meðal þess efnis sem rak á fjörur mínar var hver fréttin á fætur annarri um fjóra unglinga frá Liverpool sem voru að gera allt vitlaust í Bretlandi og víðar með tónlist sinni.“
Hlýtt til Bítlanna
Þorbjörn var ekki vel að sér um popptónlist en gerði sér eigi að síður grein fyrir mikilvægi þess að flytja reglulega fréttir af hljómsveit þessari, The Beatles. „Einhvern tíma á þessum vetri hugkvæmdist mér að finna íslenskt nafn á þessa ágætu menn og kalla þá Bítlana. Ég hafði ekki hugmynd um að það væri nýyrði en get gengist við þessu, vegna orða Gylfa. Geri aðrir tilkall til orðsins þá er það mér hins vegar alveg að meinalausu.“
– Varstu búinn að máta einhver önnur orð á undan?
„Nei, nei, mér fannst þetta bara liggja beint við.“
Orðið fór eins og eldur í sinu um samfélagið og festi sig á undraskömmum tíma í sessi. Og lifir enn góðu lífi, meira en sex áratugum síðar. Bítlaæðið var þarna í algleymingi og orðinu skeytt framan við alls konar hluti, til varð bítlahljómsveit, bítlahár, bítlaskór, bítlafár og þannig mætti lengi telja. Og svo auðvitað bara bítl. Ekki er betur vitað en að hljómsveitin heiti bara The Beatles í öllum öðrum löndum.
– Þykir þér þá ekki vænt um Bítlana?
„Jú, mér er ákaflega hlýtt til þeirra. Maður fann að þetta var nýr tónn, Bítlarnir voru fulltrúar nýrrar æsku og breyttu mjög miklu. Þeir gerðu til dæmis alla rakara atvinnulausa um tíma. Samt voru þeir alltaf snyrtilegir til fara. Við Íslendingar fundum mjög fljótt fyrir þessum áhrifum og það eimir enn af því.“
Seinna átti Þorbjörn eftir að hlusta á Bítlana og nefnir plöturnar Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band og Yellow Submarine í því sambandi. „Mér mislíkaði þegar hópurinn tvístraðist. Við blasir að þessi hljómsveit er merkilegri en flestar ef ekki allar aðrar í poppsögunni. Tónlist þeirra er orðin klassík, rétt eins og Beethoven, og mun lifa áfram með okkar heimi. Hún verður spiluð, þeirra upptökur og annarra, um ókomna tíð.“
Morðið á John Lennon var Þorbirni harmafregn, eins og svo mörgum, og segir hann að setja megi það ódæðisverk í sama flokk og morðin á Kennedy-bræðrum og Martin Luther King á sjöunda áratugnum. Allir muni hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fréttina. „Heimsbyggðin var slegin enda var Lennon ekki bara tónlistarmaður, heldur lét til sín taka á annan hátt. Hann var friðarpostuli.“
Miklir höbbðingjar
Fyrir á Alþýðublaðinu sumarið 1963 hitti Þorbjörn vaskan hóp blaðamanna sem þrátt fyrir ungan aldur bjuggu þegar að talsverðri reynslu. „Það voru miklir höbbðingjar þarna,“ segir hann með að minnsta kosti tveimur béum. „Þetta voru Árni Gunnarsson, Eiður Guðnason, Hólmfríður Gunnarsdóttir og Guðmundur Halldórsson sem síðar vann lengi á Morgunblaðinu og skrifaði erlendar fréttir. Guðmundur var mjög forsjáll maður og átti alltaf tilbúnar í skúffunni greinar um erlenda mektarmenn sem hrukku upp af. Það er alla nema John F. Kennedy. Guðmundur sá andlát hans ekki fyrir enda var Kennedy ungur maður. Grétar Oddsson var þarna líka, alveg dásamlegur maður. Hann var í sjávarútvegsfréttum og skrifaði um skip eins og vini sína. Það var skáldæð í Grétari heitnum. Sem barn hafði hann slasast alvarlega í loftárás Þjóðverja á Seyðisfjörð. Það má heldur ekki gleyma Guðna Guðmundssyni, sem síðar varð rektor MR. Hann kom alltaf um þrjúleytið. Svo vann með mér á blaðinu þetta ár Karl vinur minn Grönvold sem einnig fór til náms í Edinborg haustið eftir.“
Þorbjörn hafði aðeins unnið í fáeina mánuði á Alþýðublaðinu þegar Kennedy forseti var myrtur. „Ég gleymi aldrei þeim degi. Guðmundur Halldórsson birtist í gættinni á skrifstofunni og talaði um „attentat“ á Kennedy. Það var í fyrsta skipti sem ég heyrði það orð,“ rifjar Þorbjörn upp en það er notað um tilraun til að fremja ofbeldisglæp. „Við stukkum í útvarpið en græddum ekkert á Kananum enda hafa menn ábyggilega verið í sjokki og ekki þorað að staðfesta neitt. Síðan kom frétt gegnum teleprompterinn: Kennedy forseti er látinn. Það sló þögn á mannskapinn.“
Jóhann Vilberg ljósmyndari var mættur með glænýjar myndir af Surtseyjargosinu en morðið á Kennedy sópaði öllu öðru út úr blaðinu enda ekki talað um annað.
Ógleymanlegt ár
Blaðið var til húsa í Alþýðuhúsinu við Ingólfsstræti og þegar menn fengu sér kaffi í Ingólfskaffi á jarðhæðinni bættust gjarnan reynsluboltar af öðrum blöðum í hópinn, svo sem Magnús Bjarnfreðsson og Indriði G. Þorsteinsson. „Þeir höfðu gaman af því að drekka kaffi með okkur.“
Prentsmiðjan var í kjallaranum, flatpressa á þeim tíma, og Þorbjörn kynntist mörgum úr röðum prentara líka. „Þetta var mjög skemmtilegt ár og í raun ógleymanlegt. Ég hugsa með hlýju til þessa tíma.“
Þorbjörn skrifaði sína síðustu frétt í Alþýðublaðið síðsumars 1964 og þar með var blaðamannsferli hans lokið. Ekki dró þó úr áhuga hans á fjölmiðlum en hann hóf ekki löngu síðar að kenna fjölmiðlafræði við háskólann í Lundi og gekk síðan á undan í því að gera fjölmiðla að rannsóknarefni við Háskóla Íslands, þar sem hann hóf að kenna 1970. Og í meira en 50 ár eftir það. Hann er nú prófessor emeritus, eins og það heitir, en er samt ekki alveg hættur. „Dr. Arnar Eggert Thoroddsen, sem tók við af mér í HÍ, kallar af og til á mig og fær mig til að spjalla við nemendur sína sem ég geri með glöðu geði.“
Hann kveðst enn búa að þessu ári á Alþýðublaðinu. „Það hefur verið mér til halds og trausts allan þennan tíma og ég fyrir vikið getað talað af meira öryggi um fjölmiðla en ella. Ég fann alltaf betur og betur hvað það skipti miklu máli að hafa fengið að vinna þarna og fylgjast með öllu þessu góða fagfólki við sín störf.“