Sigurjón Benediktsson
Sigurjón Benediktsson
Að leggjast inn á sjúkrahús er ekki álitið „hið besta mál“. En getur stundum reynst gæfuspor.

Sigurjón Benediktsson

Það var dag einn í janúarmánuði að litla hjartað mitt tók einhverja sjálfstæða ákvörðun og hóf að slá út og suður. Ekki var það notalegt og endaði með því að bróðir minn ók mér beint á Neyðarmóttökuna í Fossvogi.

Á bráðamóttökunni

Þar var margt að gerast. Maður með nefið rifið út við eyra, annar með blóðgusur í allar áttir, kona í krampaflogi, grátandi börn, full biðstofa, örþreytt starfsfólk, huggandi og líknandi innan um kösina. Mér var komið fyrir á ganginum.

Sjónarhornið var eins og úr íslenskri glæpamynd. Fólk sem hafði verið barið í klessu eða lent illa í hálkunni hljóðaði og bað um aðstoð. Ég með mitt litla hjarta og ómerkilega hjartsláttartruflun fylgdist með enda útsýnið óhindrað. Læknir leit til mín og svo hjúkrunarfræðingur, ég fékk pillu og hjartað róaðist. Var nú svo komið að allir gangar voru yfirfulllir af sjúklingum. Reiknaði ég út að við hvert rennsli sjúklings á ganginn töpuðust 2-3 mínútur af vinnutímanum, því ekki var hægt að koma rúmum fyrir, eða færa, nema með miklum tilfæringum og fyrirhöfn. Leið nú nóttin með stanslausri halarófu sjúklinga út og inn. Áfengisfnykur í lofti. Einhver heimtaði hass. Öll rými full. Tvöfalt á ganginum, rúm við rúm.

Það birti af degi en lítið gekk á sjúklingastabbann. Ég var fluttur í tjaldbúðir þar sem friður var meiri, en minna útsýni. Þrátt fyrir ömurlegar vinnuaðstæður var starfsfólkið á þönum. Glatt og yfirvegað. Var mér þá tjáð að fundist hefði pláss fyrir litla veika hjartað mitt á hjartadeild Landspítalans við Hringbraut. Gekk það eftir og kvaddi ég bráðamóttökuna og sá að rúmið var fyllt um leið.

Á hjartadeildinni

Fór i sjúkrabifreið, og áður en ég vissi af var mér sturtað úr rúminu. Ég var kominn á hjartadeildina. Þar var tekið a móti mér eins og ég væri í fjárveitinganefnd – sem ég er ekki. Mældur hátt og lágt, innvortis sem utan. Hvílíkt dekur. Ekki upplifað annað eins síðan Snædís mín kreisti bóluna á nefinu á mér 1998. En hér var alvara lífsins. Læknir ráðlagði hjartaþræðingu, þar sem hætta væri á varanlegum skemmdum í litla hjartanu mínu ef ekkert væri að gert. Og það varð. Fagmennskan og ljúfmennskan á Landspítalanum var á heimsmælikvarða. Og þekki ég þó nokkuð til. Eftir 80 mínútur voru kransæðar mínar hreinsaðar af ruslfæði, sukki og svalli síðustu tólf ára, hvílíkir snillingar. Hjúkrunarfræðingarnir, sjúkraliðar og læknar hver öðrum nærgætnari og vandvirkari. Ég fór að kvíða því að þurfa að yfirgefa hjartadeildina, en þar kom að, ég var útskrifaður. En margir biðu. Mér tókst ekki að ná titlinum „Erfiðasti sjúklingur deildarinnar“ í þetta sinn. Verð vonandi ekki í framboði aftur.

Til umhugsunar

Á bráðamóttökunni var lítið rými með litlum sjónvarpsskjá. Þar húktu heilsuveilir og hrjáðir sjúklingar og reyndu að gleyma raunum sínum. Gaman var þegar í fréttum kom að vesalings þingmennirnir okkar hefðu brotið sex milljón króna mánaðarlaunamúrinn, og voru þó sex vikur í að vinnustaðurinn opnaði. Ég hélt í einfeldni minni að þessir launaþiggjendur myndu streyma á staðinn til góðverka. Nei, þeir komu ekki færandi hendi. Ég kem með 70 tommu sjónvarpsskjá næst.

Að lokum

Tíminn á hjartadeildinni leið eins og í draumi, hver starfsmaðurinn var betri en daginn áður, ég fann bata færast yfir litla hjartað mitt. Því miður var ég að lokum útskrifaður. Með trega yfirgaf ég þetta yndislega fólk og forðaði mér til Tenerife. Hafið þökk fyrir frábært starf og endalausa umhyggju og þolinmæði.

Höfundur er tannlæknir.

Höf.: Sigurjón Benediktsson