Tungutak
Sigurbjörg Þrastardóttir
sitronur@hotmail.com
Einu sinni vann ég með manni sem er kallaður Svenni. Sá eignaðist son. Þegar spurt var hvort hugmyndir væru uppi um nafn, svaraði Svenni: Við erum að spá í að skíra hann Svamp Sveinsson.
Það er eitthvað sérlega vinalegt við nafn teiknimyndapersónunnar sem þarna var vísað til (ath. sonurinn fékk þó annað nafn) en um er að ræða skærgult svampdýr sem býr í Bikinibotnum (neðansjávar) ásamt liði á borð við Klemma krabba, Pétur krossfisk, Sigmar smokkfisk og Hörpu íkorna (já, íkorna). Það má sjá fyrir sér heim þeirra, þýðingarnar fóðra og bólstra þann heim.
Í sumar, þegar ég var að undirbúa spurningaleik fyrir ættarmót, datt mér í hug að spyrja um Svamp Sveinsson svo að þau yngri fengju eitthvað fyrir sinn snúð. Nefna átti tvo karaktera úr þáttunum, en þar sem börn af fjórum málsvæðum voru í hópnum þurfti ég að fletta upp nöfnum persónanna á sænsku, ítölsku og ensku. Svampur, sem heitir á frummálinu SpongeBob SquarePants, heitir það líka á ítölsku. Og til að gera langa sögu stutta eru nöfn hinna ýmist hálfþýdd eða lítt þýdd á téðum málum, svo þau virka hálf framandleg í málumhverfi sínu. M.ö.o. finnst mér íslensku heitin taka öðrum fram – en um hlutlægni mína má efast.
Með stuttri rannsókn tókst mér þó að treysta þessa skoðun mína, að tilefni sé til að hrósa hérlendum þýðendum barnaefnis. Mig langar t.d. strax að horfa á alla barnaþættina á RÚV. Þar eru Broddi og Oddlaug, sem vitanlega eru broddgeltir (Pins and Nettie), þá má horfa á Ferðalög Trymbils (Trumle på tur) og Bjössa brunabangsa, sem gefur sjálfur upp áhugasvið sitt. Blæja (Bluey) hefur slegið í gegn og Hæ, Sámur (Hey, Duggee) er á sínum stað. Þá er Bréfabær spennandi staður og Rán og Sævar hljóta að standa í sjávarbjástri – mikið rétt, þau eru sjóræningi og flugmaður sjóflugvélar (Pirata & Capitano). Þannig má áfram telja, allt til Hrútsins Hreins (Shaun the Sheep).
Þýðendur víða vinna þjóðþrifaverk en færa má rök fyrir því að þýðendur barnaefnis hafi einna mest áhrif, því þeir vinna beint inn í málvitund í mótun. Ef vel tekst til verða nöfnin að vinum sem stuðla að skilningi, auka samhengi. Ekki rétt? Og þótt ég sé ekki vel heima í dagskrá annarra stöðva hlýt ég að nefna líka Hvolpasveit, sem fer jafnvel betur við einkennislagið en frumheitið Paw Patrol! Sama gildir raunar um Smjattpattana, það er eiginlega bara hægt að syngja lagið með íslenska textanum svo vel sé, því ef sungið er Munch Bunch vantar atkvæði …! Er ég (aftur) farin að oflofa? Já og nei. Bara einföld dæmi um það hvað texti sem stimplast snemma inn verður mikill fasti. Alla ævi getur eitthvað annað reynt að keppa við fyrstu áhrif (Hálsaskóg, Kattholt, Köttinn með höttinn), án árangurs.
Ég bendi bara á: Engu af framangreindu skal taka sem gefnu. Bakvið ástsælustu línur æskunnar er alltaf manneskja sem vinnur störf sín vel – ekki vél.