Hinn mikli byr sem ný ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur nýtur tengist ekki aðeins því að myndun hennar er í góðu samræmi við skilaboð nýafstaðinna kosninga. Jákvæðni almennings tengist ekki síður því að stjórnin er mynduð um almannahagsmuni, gegn sérhagsmunum. Loksins er sett á dagskrá að sameign þjóðarinnar á auðlindum verði skilgreind í stjórnarskrá. Þjóðinni verður einnig tryggt eðlilegt endurgjald af þessari sameign. Um hvort tveggja vitnar stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar.
Þingmálaskrá þessa vors undirstrikar þetta einnig. Tökum tvö dæmi. Annars vegar á að vinda ofan af ólögum sem kipptu samkeppnislögum úr sambandi varðandi afurðastöðvar, á kostnað almennings og bænda. Vísbendingar eru um að lagasetningin geti stuðlað að hækkun á kjötverði til neytenda, jafnvel þótt dómstólar hafi þegar dæmt lögin úr gildi.
Hins vegar verður lagt fram frumvarp um hækkun veiðigjalda. Það er bæði eðlilegt, sanngjarnt og mikilvægt. Hækkun veiðigjalda er löngu tímabær, allar tölur undirstrika það. Hagnaður sjávarútvegs áður en hann greiddi veiðigjald, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð árið 2023 var um 87,5 milljarðar króna. Þegar hann var búinn að greiða öll opinber gjöld og alla fjárfestingu stóðu eftir 58 milljarðar króna sem runnu til eigenda útgerða sem hafa getað nýtt það fé til fjárfestinga í ótengdum geirum. Og það á þessu eina ári, 2023.
Á tímabilinu 2009-2023 hefur sjávarútvegur hagnast samtals um yfir sex hundruð milljarða króna á gengi hvers árs fyrir sig. Á föstu gengi er sá hagnaður enn meiri.
Hækkun veiðigjalda er aðeins fyrsta skrefið til að tryggja þjóðinni eðlilegan afrakstur af auðlindinni. Til lengri tíma kallar það á að gjaldtakan feli í sér skýra og varanlega tengingu við þau verðmæti sem í auðlindinni felast. Og varla er betri leið til þess en markaðstenging, til að mynda með einhvers konar útboðsleið. Það þarf að útfæra og ræða. Til þess hefur ríkisstjórnin sögulegt tækifæri.
Það er líka ástæða til að vekja athygli á mikilvægu frumvarpi atvinnuvegaráðherra varðandi gagnsæi í sjávarútvegi. Það mun leggja nýjan og betri grunn að umræðunni um viðskipti með kvóta og þau verðmæti sem þar eru að skipta um hendur með því að gera það að skyldu að skrá og birta upplýsingar um slík viðskipti. Það mun bregða ljósi á eignatengsl í sjávarútvegi með því m.a. að undanþiggja ekki systkini og annað venslafólk frá þeirri skilgreiningu og gefa Fiskistofu sterkari eftirlitsheimildir á þessum sviðum.
Allt eru þetta breytingar í þágu almannahagsmuna – gegn sérhagsmunum.
Höfundur er alþingismaður Samfylkingarinnar. dagur@althingi.is