Fjölskyldan Margrét, Helgi Valberg og börn í Búdapest í desember 2023.
Fjölskyldan Margrét, Helgi Valberg og börn í Búdapest í desember 2023.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Margrét Kristín Pálsdóttir er fædd 15. febrúar árið 1985 í Reykjavík. Fyrstu árin ólst hún upp í Reykjavík en einnig í Kaupmannahöfn þar sem foreldrar hennar voru við nám. Á unglingsárunum gekk Margrét í Austurbæjarskóla þegar fjölskyldan flutti í…

Margrét Kristín Pálsdóttir er fædd 15. febrúar árið 1985 í Reykjavík. Fyrstu árin ólst hún upp í Reykjavík en einnig í Kaupmannahöfn þar sem foreldrar hennar voru við nám.

Á unglingsárunum gekk Margrét í Austurbæjarskóla þegar fjölskyldan flutti í Þingholtin en stundaði síðar nám við Kvennaskólann í Reykjavík ásamt því að nema söng í Söngskólanum í Reykjavík. Margrét útskrifaðist af háskólabrú Keilis árið 2008 en hún tilheyrði fyrsta útskriftarárgangi skólans. Þaðan lá leiðin í laganám við Háskólann í Reykjavík þar sem hún útskrifaðist með meistarapróf árið 2013.

„Það lá nú ekki í augum uppi að ég myndi stefna á lögfræði í háskólanum en ég hafði ætlað mér að stunda nám í bókmennta- og/eða listfræði. Draumurinn var að stjórna listahátíðum en ég taldi praktískt að klára hið minnsta grunnpróf í lögfræði til að auka á samkeppnishæfni mína um slíkar stöður. Það var svo í fyrsta áfanga mínum í sakamálaréttarfari að ég kolféll fyrir málefnum réttarvörslukerfisins og varð þá ekki aftur snúið.“

Margrét fékk vinnu meðfram námi í þáverandi innanríkisráðuneyti á skrifstofu almanna- og réttaröryggis en þar starfaði hún allt þar til hún fór í ársleyfi frá störfum til þess að setja á fót landamæradeild hjá embætti ríkislögreglustjóra ásamt góðum samstarfsmanni árið 2019.

„Ég ætlaði mér alltaf að hverfa aftur til minna starfa hjá ráðuneytinu en þar bar ég ábyrgð á lögreglu- og landamæramálefnum en það eru þeir málaflokkar sem ég hef brunnið fyrir. Mér var hins vegar treyst fyrir því að gegna tímabundið embætti aðstoðarríkislögreglustjóra sem og aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum á árinu 2020 eða þar til ég tók við starfi yfirlögfræðings hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef því starfað innan lögreglunnar frá þeim tíma og var einstaklega stolt og þakklát þegar ég var síðan skipuð aðstoðarlögreglustjóri við sama embætti á síðasta ári.

Áskoranir lögreglu eru margar í síbreytilegu umhverfi og ég lít á það sem forréttindi að fá að starfa að svona mikilvægum og krefjandi verkefnum með framúrskarandi hópi fólks. Það er markmið okkar í lögreglunni að þjóna samfélaginu eins vel og mögulegt er á hverjum tíma. Ég hef verið einstaklega heppin með samstarfsfólk á þeim vinnustöðum sem ég hef starfað á og oftast hafa myndast vináttutengsl sem hafa haldist þótt fólk hafi horfið til annarra starfa.“

Áhugamál Margrétar eru bókmenntir og listir en fjölskyldan á þó oftast hug hennar allan. „Við Helgi Valberg, eiginmaður minn, erum bæði í krefjandi og skemmtilegum störfum en við pössum okkur á að taka frá tíma sem fjölskylda. Við erum samsett fjölskylda með fjögur börn á aldrinum 4-15 ára og því oft mikið um að vera á stóru heimili. Börnin okkar eru öll hæfileikarík á sínum sviðum en mér þykir mest vænt um hvað þau eru góðar manneskjur og bjart yfir þeim. Ég reyni eftir fremsta megni að gefa mér tíma í lestur og að fylgjast með öllu því hæfileikaríka listafólki sem við eigum hér á Íslandi.

Ég er mikill matgæðingur og er svo heppin að maðurinn minn er frábær kokkur. Ég geng út frá því að ég fái hans víðfrægu súkkulaðiköku á afmælinu mínu líkt og hefð er fyrir en ég er auk þess búin að óska mér ferðalags með honum og börnunum í tilefni afmælisins. Mér líður sjaldnast betur en þegar ég er í faðmi fjölskyldu og vina en ég á stóra fjölskyldu sem er mjög samrýmd. Ég er félagslynd og á yndislega vini, en mætti vera duglegri að bjóða þeim í mat. Held ég setji mér það sem markmið nú þegar ég geng sæl og glöð inn í nýjan tug æviskeiðsins.“

Fjölskylda

Eiginmaður Margrétar er Helgi Valberg Jensson, f. 25.8. 1978, lögfræðingur. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi. Foreldrar Helga voru hjónin Jens Eiríkur Helgason, f. 10.11. 1942, d. 1.9. 2021, bóndi og Sigríður Halldóra Þórarinsdóttir, f. 20.9. 1939, d. 13.9. 2010, húsfreyja á bænum Hátúni á Kirkjubæjarklaustri.

Dóttir Margrétar og Helga er Elsa María, f. 15.3. 2020, en fyrir átti Margrét soninn Pál Sölva, f. 3.8. 2013, og Helgi Valberg þau Arnór Helgason, f. 24.4. 2009, og Thelmu Sigríði, f. 13.10. 2012.

Bræður Margrétar eru Tryggvi Þór Pálsson, f. 13.12. 1983, Ólafur Sölvi Pálsson, f. 21.3. 1984 og Páll Kristinn Pálsson, f. 11.1. 1990, d. 28.12. 2019.

Foreldrar Margrétar eru hjónin Páll Kristinn Pálsson, f. 22.4. 1956, rithöfundur og Elsa María Ólafsdóttir, f. 20.12. 1963, bankastarfsmaður. Þau eru búsett í miðbæ Reykjavíkur.