Sigríður Anna Þorgrímsdóttir (Anna Sigga) fæddist 15. ágúst 1947. Hún lést 31. janúar 2025. Útför Önnu Siggu fór fram 12. febrúar 2025.

Sigríður Anna tengdamóðir mín, eða Anna Sigga eins og hún var ávallt kölluð, var einstök kona.

Ég kynntist Önnu fyrir löngu þegar ég og konan mín byrjuðum að stinga saman nefjum, og tók hún alltaf á móti mér með brosi og hlýju. Anna var höfðingi heim að sækja, hvort sem það var þegar kom að mat eða ráðum og til Önnu var alltaf gott að leita.

Anna var kona sem kunni að njóta lífsins og skemmta sér. Hún hafði einstaka söngrödd, eins og allir vita, og var fræg barnastjarna.

Hún sýndi mikinn styrk og þrautseigju í veikindum sínum og mætti þeim með dugnaði og æðruleysi.

Minningar um Önnu eru margar og það er erfitt að kveðja hana, en minningar um góða konu munu lifa áfram í hjörtum okkar.

Almar Gunnarsson.

Anna Sigga frænka er dáin. Það var sárt að fá frétt um andlát hennar, þrátt fyrir vitneskjuna um að fyrir hana var þetta besta lausnin. Hún hét fullu nafni Sigríður Anna Þorgrímsdóttir og var dóttir hjónanna Þorgríms Einarssonar (Dodda frænda) og Aðalheiðar Skaptadóttur (Heiðu). Fjölskylda Önnu Siggu, foreldrarnir og bræðurnir þrír Skapti, Einar og Ragnar voru árvissir sumargestir á mínu æskuheimili, Hvammbóli í Mýrdal. Komu þeirra var ávallt beðið með eftirvæntingu, þeim fylgdi nýr og ferskur andi í sveitalífið. Öll systkinin dvöldu svo sumarlangt á Hvammbóli, sum lengur og oftar en önnur. Anna Sigga var sjö ára þegar hún kom fyrst. Hún undi sér vel allt sumarið og síðan mörg sumur þar á eftir. Hún var einstaklega falleg og glöð lítil stúlka með fallegt bros, ljóma í augunum og bjarta rödd. Þannig var hún líka fullorðin kona. Röddin hennar átti svo eftir að hljóma í útvarpinu öðru hvoru áratugum saman og gerir enn, mér og mörgum til ánægju. Lögin „Komdu niður“ og „Snjókarlinn“ sem hún söng með Soffíu vinkonu sinni þekkja flestir Íslendingar. Anna Sigga átti síðan eftir að taka þátt í söngstarfi með ýmsum kórum og um tíma söng hún í Pólýfónkórnum. Ég veit að hún var oft beðin um að syngja með danshljómsveitum þegar hún var ung stúlka en það hugnaðist henni ekki. Við Anna Sigga höfum alltaf verið vinkonur, þó að stundum í dagsins önn hittumst við ekki nema endrum og eins. En þegar við hittumst barst talið oft að sveitinni, þegar við hlupum heim úr heyskapnum ásamt Steinu frænku (Steinunni Helgu) og gripum gítarana til að taka nokkur lög. Svo minntumst við líka dúkkulísuleikjanna sem tóku ekki enda fyrr en skriðið var í bólið að kvöldi og svo haldið áfram næsta dag. Svona var lífið einfalt og skemmtilegt. Anna Sigga var fimm barna umhyggjusöm og góð móðir, einnig voru barnabörnin og langömmubörnin eftirlæti hennar. Umhyggjan og ástin til þeirra allra leyndi sér ekki í samtölum við hana, þau voru henni alltaf efst í huga. Anna Sigga var líka afar hugulsöm dóttir foreldra sinna og systir bræðra sinna þegar á bjátaði hjá þeim. Líf Önnu Siggu var ekki alltaf auðvelt. Skilnaður við eiginmann og föður barna sinna var henni erfiður, en hún tókst á við það með kjarki og dugnaði eins og hennar var von og vísa. Seinna kynntist Anna Sigga Gylfa Sveinssyni, sem varð síðan eiginmaður hennar. Þau voru falleg hjón og hamingjan leyndi sér ekki. Það er sárt að missa elsku Önnu Siggu frænku. Ég sendi Gylfa og börnunum hennar og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur frá mér og allri fjölskyldunni, sömuleiðis sendum við Einari bróður hennar innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Önnu Siggu.

Jóna Sigríður Jónsdóttir.