Æfing Karlakór Selfoss á æfingu fyrir 60 ára afmælistónleika sína, sem fram fara 1. mars næstkomandi.
Æfing Karlakór Selfoss á æfingu fyrir 60 ára afmælistónleika sína, sem fram fara 1. mars næstkomandi. — Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karlakór Selfoss fagnar 60 ára afmæli sínu 2. mars næstkomandi með afmælistónleikum og útgáfu nýrrar plötu á netinu. Tónleikarnir verða haldnir í sal Sunnulækjarskóla, laugardaginn 1. mars, en með kórnum verða jafnframt Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar

Úr bæjarlífinu

Sigmundur Sigurgeirsson

Selfossi

Karlakór Selfoss fagnar 60 ára afmæli sínu 2. mars næstkomandi með afmælistónleikum og útgáfu nýrrar plötu á netinu. Tónleikarnir verða haldnir í sal Sunnulækjarskóla, laugardaginn 1. mars, en með kórnum verða jafnframt Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Munu kórarnir syngja nokkur lög hvor um sig og svo nokkur lög saman við undirleik lúðrasveitarinnar. Það má því búast við miklum og kraftmiklum tónum á þessari menningarstund sem hefst kl. 16. Um kvöldið verður svo haldið upp á afmæli kórsins með veislu.

Vert er þess að geta að innan raða kórsins er einn af stofnfélögum hans, Sigurdór Karlsson tenórsöngvari, en hann hefur verið samferða kórnum frá upphafi. Má rekja upphaf kórsins til þess að veturinn 1964-1965 komu nokkrir félagar sem störfuðu hjá Mjólkurbúi Flóamanna saman og æfðu söng sér til gamans. Eftir velheppnaðan flutning á þorrablóti Mjólkurbúsins var leitað til fleiri manna í þeim tilgangi að stofna karlakór. Var stofnfundur kórsins haldinn 2. mars 1965 og sátu hann alls 25 karlar sem svo æfðu fram á vorið til að geta sungið á skemmtun kvenfélagsins á sumardaginn fyrsta.

Söngfélagar nú eru um 70 talsins. Karlakórinn var nýverið við upptökur á nýrri plötu en kórinn tók upp alls 21 lag sem flest bera þess keim að geta talist jarðarfararlög en kórinn er vinsæll til flutnings tónlistar við slík tækifæri. Upptökur fóru fram í Skálholti og var það Karl Þór Þorvaldsson sem stýrði upptökum og úrvinnslu.

Framkvæmdir hafa gengið vel við lagfæringar og endurbætur á Hótel Selfoss. Hafa þær staðið yfir í nokkra mánuði og sér nú fyrir endann á þeim. „Þetta er allt annað útlit á húsnæðinu,“ segir Björgvin Jóhannesson hótelstjóri í samtali við blaðið. Hann segir endurbætur innanhúss nú standa yfir. Hótelið sem upprunalega var í eigu bæjarins var stækkað til muna í upphafi þessarar aldar og var flaggskip ferðaþjónustuhluta Kaupfélags Árnesinga, en stækkunin reyndist félaginu fjárhagslega erfið. Núverandi eigendur eru framsæknir að mati Björgvins.

Hótelið verður á næsta ári hluti af alþjóðlegu hótelkeðjunni Marriott og það felast mikil tækifæri í því, segir Björgvin, sem er sjálfur hokinn af reynslu úr ferðaþjónustu og hótelstjórnun. Þess má einnig geta að nýir rekstraraðilar sjá nú um veitingareksturinn í hótelinu en stór veitingasalur þess er með mjög fallegt útsýni yfir ána og upp til fjalla.

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hafa auglýst eftir nýjum framkvæmdastjóra eftir að Bjarni Guðmundsson lét af störfum nýverið. Hafði Bjarni sinnt því starfi frá upphafi árs 2015. Áður var hann einn framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins. Samtökin hafa ýmis sameiginleg verkefni sveitarfélaganna á Suðurlandi á höndum sér en umræður hafa skapast um að við þær breytingar sem eru á mannahaldi hjá samtökunum sé mögulega æskilegt að rýna þörf á fyrirkomulagi samtakanna. Stjórnarformaður SASS er Rangæingurinn Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri Rangárþings eystra.

Átta einbýlishúsalóðir við Móstekk á Selfossi voru seldar nýverið eftir að dregið var út meðal umsækjenda um þær. Til sölu voru tólf lóðir og komu fram 44 umsóknir, sumar hverjar frá sömu aðilum. Einungis var heimilt að úthluta einni lóð til hvers aðila og urðu því fjórar lóðir eftir. Að sögn Braga Bjarnasonar bæjarstjóra eru þær lóðir því falar hverjum sem vill kaupa. Verðið á hverri lóð er á bilinu 20-25 milljónir króna að meðtöldum gatnagerðargjöldum. Um er að ræða nokkuð stórar einbýlishúsalóðir fyrir áhugasama sem vilja byggja sér framtíðarheimili í Árborg. Bragi segir fleiri slíkar lóðir til á Eyrarbakka og von sé á nokkurm lóðum síðar við Dvergastein á Stokkseyri.

Það lítur út fyrir að rekstraruppgjör bæjarsjóðs Árborgar verði mun jákvæðara en útlit var fyrir fyrr í vetur. Vonir eru bundnar við að niðurstaðan verði sú að samstæðan skili um tveggja milljarða króna afgangi, en áætlun gerði ráð fyrir um 35 milljóna króna afgangi. Ýmislegt er til útskýringar á betri niðurstöðu að sögn Braga bæjarstjóra. Einskiptistekjur, svo sem sala lóða og landskika, breyta stöðunni talsvert, en einnig eru aðgerðir til að ná tökum á daglegum rekstri sveitarfélagsins að skila sínum árangri. Hann segir samstöðu innan hóps forstöðumanna deilda um að halda vel á spilum í rekstrinum, þá hafi stöðugildum fækkað um 30 á árinu auk þess sem tekjuaukning verður vegna aukins álags á útsvar. Slíkt álag verður þó aðeins bundið við eitt ár að sögn Braga. „Það er ennþá verkefni okkar að rekstur A-hlutans verði sjálfbær og að lánaþörf minnki með lækkun skulda.“ Bragi segir það ánægjulegt að á sama tíma og tekið sé til í fjármálum bæjarins sé þjónusta ekki að dragast saman, ef marka má áhuga fólks á að flytja í sveitarfélagið. „Íbúafjölgun er ívið meiri en við bjuggumst við, en við höfum náð að sinna okkar verkefnum og þjónustu, svo sem varðandi leikskóla og grunnskóla,“ segir Bragi. Til að mæta frekari fjölgun má ætla að ráðist verði fljótlega í þriðja áfanga Stekkjaskóla og þar verði hægt að taka við öllum árgöngum og hann fullsetinn árið 2027. Á sama tíma þarf að huga að framkvæmdum við nýja íþróttaaðstöðu og færslu tónlistarskólans.

Fasteignafélagið Eik, sem á húsnæðið er áður hýsti Húsasmiðjuna við Eyraveginn, þar sem nú er komin verslun Nettó, hefur boðið bæjaryfirvöldum í Árborg um 1.700 fermetra pláss í því húsi undir íþróttaaðstöðu. Þar var áður timbursala Húsasmiðjunnar. Til skoðunar er hvort bærinn leigi húsið sem hæglega væri hægt að breyta í íþróttamannvirki með löglegum handboltavelli og aðstöðu til fleiri íþrótta. Það verði hins vegar að vega og meta kostnaðinn við að leigja slíka aðstöðu eða flýta framkvæmdum við íþróttahús við Stekkjaskóla í staðinn. „Þetta eru útreikningar og vangaveltur sem við þurfum að fara yfir gaumgæfilega og leita álits okkar íbúa á,“ segir Bragi Bjarnason um málið.

Leikfélag Selfoss frumsýndi í gærkvöld gamanleikinn Átta konur eftir franska leikskáldið Robert Thomas í þýðingu og aðlögun Sævars Sigurgeirssonar. Þetta er 88. uppsetning félagsins sem hefur verið afar virkt undanfarin ár. Leikstjóri sýningarinnar er Rakel Ýr Stefánsdóttir. Hópur leikara og starfsmanna í kringum uppsetninguna hefur verið að undirbúa sýninguna frá því í desember síðastliðnum.

Höf.: Sigmundur Sigurgeirsson