München Selenskí og Vance funduðu í gær um stöðuna í Úkraínu og komandi friðarviðræður. Sögðu þeir báðir að fundurinn hefði verið góður.
München Selenskí og Vance funduðu í gær um stöðuna í Úkraínu og komandi friðarviðræður. Sögðu þeir báðir að fundurinn hefði verið góður. — AFP/Tobias Schwarz
JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sagði á Öryggisráðstefnunni í München í Þýskalandi í gær, að ríki Evrópu yrðu að efla eigin varnir svo Bandaríkin gætu beint athygli sinni að öðrum heimshlutum, og að það væri mikilvægur þáttur í bandalagi…

JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, sagði á Öryggisráðstefnunni í München í Þýskalandi í gær, að ríki Evrópu yrðu að efla eigin varnir svo Bandaríkin gætu beint athygli sinni að öðrum heimshlutum, og að það væri mikilvægur þáttur í bandalagi ríkjanna beggja vegna Atlantsála að Evrópa myndi styrkja eigin stöðu.

Vance sagði í ávarpi sínu að „nýr lögreglustjóri“ væri kominn í bæinn í Washington. „Og undir forustu Donalds Trumps kunnum við að vera ósammála viðhorfum ykkar en við munum berjast fyrir rétti ykkar til að lýsa þeim opinberlega,“ sagði Vance.

Hann sagði einnig að málfrelsi væri á undanhaldi í Evrópu og hvatti Evrópuríki til að breyta um stefnu í innflytjendamálum. Það vakti hörð viðbrögð hjá Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, sem sagði á ráðstefnunni að varaforseti Bandaríkjanna hefði dregið lýðræðið í allri Evrópu í efa.

Sagði Pistorius að varaforsetinn hefði borið aðstæður í hluta Evrópu saman við aðstæður í einræðisríkjum. „Það er ekki boðlegt,“ sagði Pistorius um ræðu Vance, en varaforsetinn fundaði síðar um daginn með Alice Weidel, leiðtoga AfD-flokksins þýska.

Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands, hafði fyrr um daginn gagnrýnt núverandi Bandaríkjastjórn harðlega í setningarræðu sinni á ráðstefnunni og sagði hana hafa mjög ólíka sýn á heimsmálin frá ríkjum Evrópu. „Sýn sem hefur að engu hefðbundnar reglur, bandalög og traust í samskiptum. Við getum ekki breytt því. Við verðum að sætta okkur við það og takast á við það,“ sagði Steinmeier.

Vance fundaði svo með Volodimír Selenskí Úkraínuforseta og ræddu þeir stöðuna í Úkraínustríðinu. Sagði Vance að Bandaríkjastjórn vildi tryggja varanlegan frið í Úkraínu, frekar en frið sem myndi enda með átökum í Austur-Evrópu eftir nokkur ár. Sögðu bæði Vance og Selenskí eftir fundinn að viðræður þeirra hefðu verið mjög góðar.

Selenskí fordæmdi einnig Rússa í gær, en þeir sendu 133 sjálfseyðingardróna til árása um nóttina á Úkraínu. Lenti einn þeirra á hvelfingunni í Tsjernóbyl-kjarnorkuverinu sem umlykur kjarnaofn nr. 4, þann sem sprakk í slysinu árið 1986. Hvelfingin hélt og geislavirkni var við eðlileg mörk. Sagði Selenskí árásina sanna að Pútín Rússlandsforseti væri ekki tilbúinn að semja um frið. „Hann er að búa sig undir að blekkja heimsbyggðina áfram.“