Skál Sandra og Stefán með Gabríelu dóttur sinni sem var hringaberi.
Skál Sandra og Stefán með Gabríelu dóttur sinni sem var hringaberi. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mikið var um að vera í Glerárkirkju á Akureyri í gær. Þá létu 16 pör gefa sig saman en boðið var upp á eins konar hraðgiftingar í tilefni Valentínusardagsins. Prestarnir í Glerárkirkju tóku vaktir til skiptis í gær og þurftu raunar að sækja liðsauka frá Akureyrarkirkju til að hafa undan

Mikið var um að vera í Glerárkirkju á Akureyri í gær. Þá létu 16 pör gefa sig saman en boðið var upp á eins konar hraðgiftingar í tilefni Valentínusardagsins.

Prestarnir í Glerárkirkju tóku vaktir til skiptis í gær og þurftu raunar að sækja liðsauka frá Akureyrarkirkju til að hafa undan. Þannig tóku allir prestar á Akureyri þátt í þessum viðburði. Ástarlög hljómuðu á göngum kirkjunnar og allir voru í sínu fínasta pússi. Boðið var upp á myndabás fyrir brúðhjónin sem skreyttur var gullþema og bæði kirkjuverðir og prestar skáluðu svo með þeim að athöfn lokinni. Þá fengu hin nýgiftu hjón litla brúðkaupstertu sem þau gátu tekið með sér heim.

Sandra Rut Pétursdóttir hjúkrunarfræðingur og Stefán Þór Þengilsson málari voru eitt paranna sem létu gefa sig saman í gær. Sandra Rut segir í samtali við Morgunblaðið að hjónavígslan hafi gengið vel og hún var hæstánægð með þetta framtak. Dóttir þeirra, Gabríela Mjöll, var hringberi.

„Við erum búin að vera saman í rúm 15 ár og eigum saman tvö börn, hund, hús og bíl. Við höfum alltaf verið á leiðinni að gifta okkur en aldrei komið því í verk,“ segir Sandra. Hún segir að upphaflega hafi staðið til að láta sýslumann gefa þau saman. „En svo sáum við þetta auglýst og fannst þetta miklu skemmtilegra en að láta sýslumann gifta okkur. Við ákváðum að slá til og hafa þetta svolítið öðruvísi.“

Þegar Morgunblaðið ræddi við Söndru um miðjan dag í gær var von á fjölskyldunni í kaffi seinnipartinn og svo ætluðu þau hjónin að borða saman góðan mat um kvöldið. „Hver veit svo nema við höldum partí í sumar,“ segir Sandra.