Íslendinga þættir eru miklu styttri en Íslendinga sögur. Einn hinn skemmtilegasti er um Halldór Snorrason. Hann var dóttursonur Einars Þveræings og langalangafi Snorra Sturlusonar og hafði ungur verið í liði Væringja í Miklagarði ásamt Haraldi Sigurðssyni, hálfbróður Ólafs digra Noregskonungs. Þegar Haraldur varð konungur Noregs árið 1046 fylgdi Halldór honum.
Fyrst var slegin mynt í Noregi um 995 og var hún úr skíru eða brenndu silfri. En Haraldur konungur freistaðist til þess eins og valdsmenn fyrr og síðar að drýgja sjóði sína með því að framleiða verðlitla peninga. Voru peningar þeir sem hann lét slá blandaðir kopar að helmingi eða meira og kölluðust því bleikt silfur, Haraldsslátta. Um jólin 1049 skyldi konungur greiða Halldór mála. Þegar Halldór fékk peningana, sem reyndust úr bleiku silfri, en ekki skíru, kastaði hann þeim frá sér og var hinn reiðasti. Konungur þurfti hins vegar liðveislu Halldórs í herför, svo að hann sá sitt óvænna og greiddi honum málann í skíru silfri.
Í þessari sögu er lýst einum mikilvægasta rétti fólks, sem er að geta hafnað verðlitlum peningum. Það heldur valdsmönnum í skefjum. Þar sem gjaldeyrisviðskipti eru frjáls er þetta tiltölulega auðvelt, en valdsmenn hafa einmitt freistast til þess fyrr og síðar að takmarka slík viðskipti og neyða menn til að taka við þeim peningum sem þeir hafa framleitt. Um það snúast gjaldeyrishöft eins og þau sem Íslendingar þoldu árin 1931-1960.