Períóða Steven Knight, höfundur Peaky Blinders, heldur sig við períóðudramað í nýjum myndaflokki, A Thousand Blows. Nú fer hann með okkur til Englands Viktoríutímans, þar sem glæpagengið The Forty Elephants, sem eingöngu er skipað konum, leikur lausum hala. Inn í söguna fléttast líka hnefaleikakappar, en á þessum tíma höfðu menn ekki fyrir því að setja upp hanska við þá iðju. Erin Doherty, sem margir muna eftir sem ungri Önnu prinsessu í Krúnunni, leikur leiðtoga gengisins, Mary Carr, en af öðrum leikurum má nefna Malachi Kirby, Francis Lovehall og Stephen Graham. A Thousand Blows kemur inn á streymisveiturnar Hulu og Disney+ 21. febrúar.