Þýska lögreglan telur að ungur Afgani, sem ók bíl inn í hóp fólks í München á fimmtudag, hafi aðhyllst íslamskar öfgaskoðanir. Engar vísbendingar séu hins vegar um að hann tengist herskáum íslömskum samtökum með beinum hætti.
Alls slösuðust 36 þegar þeir urðu fyrir bílnum. Tvennt er á gjörgæsludeild, annað þeirra barn, og átta til viðbótar slösuðust alvarlega.
Lögreglan segir að maðurinn hafi viðurkennt að hafa ekið bílnum vísvitandi á fólkið. Hann er 24 ára gamall afganskur hælisleitandi sem dvaldi löglega í Þýskalandi og stundaði vinnu sem öryggisvörður. Lögreglan segir að hann sé heittrúaður, hafi reglulega sótt samkomur í moskum og birt trúarlegar færslur á samfélagsmiðlum.