Seltindur Jakob með dætrum sínum uppi á Seltindi síðasta sumar, en fjölskyldan er dugleg að fara í göngu- og fjallaferðir um fallega landið okkar.
Seltindur Jakob með dætrum sínum uppi á Seltindi síðasta sumar, en fjölskyldan er dugleg að fara í göngu- og fjallaferðir um fallega landið okkar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jakob Már Ásmundsson fæddist 20. febrúar 1975 á Kópavogsbraut í Kópavogi. „Ég ólst að mestu upp á Hlíðarveginum á athafnasvæði Breiðabliks og þar sem Smáralindin er í dag,“ segir Jakob og að æskan hafi verið góð í Kópavoginum

Jakob Már Ásmundsson fæddist 20. febrúar 1975 á Kópavogsbraut í Kópavogi. „Ég ólst að mestu upp á Hlíðarveginum á athafnasvæði Breiðabliks og þar sem Smáralindin er í dag,“ segir Jakob og að æskan hafi verið góð í Kópavoginum.

Hann gekk í Kópavogsskóla en þegar kom að framhaldsskólastiginu ákvað hann að fara í Menntaskólann í Reykjavík. „Pabbi hafði verið í MR og við fórum allir vinirnir saman í MR.“ Það reyndist vera góð ákvörðun því að þar hitti Jakob Guðbjörgu, konuna sína, á síðasta árinu í skólanum.

Jakob fór í véla- og iðnaðarverkfræði í Háskóla Íslands. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna, þar sem hann og Guðbjörg hófu bæði nám haustið 1998. „Við fórum sitt í hvorn skólann, ég var í University of Illinois en hún fór í Purdue University.“ Þau höfðu bæði fengið styrk til meistaranámsins, en síðan ákváðu þau að ljúka við doktorspróf og þá færði Jakob sig yfir til Purdue.

„Ég kunni gríðarlega vel við mig í Bandaríkjunum. Einn helsti lærdómurinn var að ég upplifði mjög sterkt hvað maður var í rauninni fordómafullur komandi frá Íslandi og ég held að þessi reynsla hafi gert mig miklu víðsýnni.“

Jakob dvaldi um tíu ára skeið í Bandaríkjunum. Eftir útskrift sem doktor í iðnaðarverkfræði á sviði aðgerðarannsókna og framleiðslustjórnunar frá Purdue fór hann að vinna fyrir Intel í Phoenix í Arizona og sérhæfði sig þar í framleiðslustýringu. „Fyrsta verkefnið var að hanna og búa til nýja lausn fyrir þá til að stýra framleiðslunni,“ segir Jakob og bætir við að það hafi verið góður skóli að vinna hjá þessu rótgróna og virta fyrirtæki. „Það var merkilegt að fá að taka þátt í því að bæta ferla og sjá að með góðri breytingastjórnun var hægt að hafa mikil og jákvæð áhrif á alla starfsemi fyrirtækisins.“

Jakob kom heim til Íslands árið 2005 og réð sig til Straums fjárfestingarbanka sem framkvæmdastjóri áhættustýringar. Hann tók þátt í að stýra bankanum í gegnum bankahrunið og í kjölfarið stýra endurskipulagningu hans. „Ég vann með mjög góðu fólki og það var mjög lærdómsríkt að vera í hringiðu bankakerfisins á þessum umbrotatímum.“

Jakob tók þátt í að byggja upp nýjan banka á grunni Straums þar sem hann var forstjóri í tvö ár og leiddi síðan sameiningu nýja Straums við MP banka sem varð að Kviku banka. Þegar þarna var komið sögu var kærkomið að skipta aðeins um gír og tók hann þá ákvörðun að fara yfir í akademíuna.

„Ég varð lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Það var ánægjulegt að endurnýja kynnin af akademískum rannsóknum, en þegar kollegar mínir í Kviku báðu mig um að endurskipuleggja greiðslukortafyrirtækið Korta, sló ég til.“ Jakob varð forstjóri Korta, endurskipulagði reksturinn og tók þátt í að selja það til Rapyd.

Eftir fjölbreyttan feril í fjármálageiranum og tækniheiminum tók Jakob nýlega við sem framkvæmdastjóri DTE, þar sem hann leiðir fyrirtækið inn í vaxtarfasa og útrás á nýja markaði. „DTE hefur þróað tækni sem gerir álframleiðendum kleift að mæla efnasamsetningu í rauntíma. Þetta er forsenda þess að geirinn geti sjálfvirknivætt og umbylt framleiðsluferlum sínum, sem mun stuðla að aukinni skilvirkni og sjálfbærni í iðnaðinum.“

Áhugamál Jakobs hafa verið mörg í gegnum tíðina. „Ég er ekki Tenerife-týpan og Ísland heillar mig meira. Ég hef mjög gaman af því að veiða og við eigum griðastað uppi í Kjós þar sem við eyðum miklum tíma. Svo erum við dugleg að fara á fjöll og erum mikið á skíðum,“ segir Jakob og greinilegt er að framkvæmdagleðin er jafn mikil í einkalífinu og á starfsvettvanginum.

„Ég vil skilja hvernig hlutirnir virka og þegar ég var yngri átti ég það til að taka hluti í sundur bara til að skilja þá betur og þá var happa glappa hvort þeir fóru saman aftur! Núna er hægt að læra allt sem maður vill á netinu og með hjálp gervigreindar eru möguleikarnir orðnir óendanlegir. Þetta nýti ég mér í hvívetna, hvort sem það er fyrir bílaviðgerðir, forritun eða annað,“ segir hann og um síðustu helgi var hann að leggja flísar. Það er alltaf nóg að gera.

Fjölskylda

Eiginkona Jakobs er Guðbjörg Hrönn Óskarsdóttir, dr. í efnaverkfræði og framkvæmdastjóri Tækniseturs, f. 21.8. 1975. Foreldrar Guðbjargar eru Óskar Jónsson rafmagnsverkfræðingur, f. 21.2. 1951, og Ingveldur Hafdís Aðalsteinsdóttir framhaldsskólakennari, f. 14.7. 1951, d. 20.5. 2008. Óskar er búsettur í Reykjavík, sambýliskona hans er Ágústa Þorbergsdóttir málfræðingur.

Jakob og Guðbjörg eiga tvær dætur: Hafdísi Gyðu, f. 27.12. 2006, nemanda við Menntaskólann í Reykjavík, og Ásdísi Höllu, f. 4.8. 2010, nemanda í Öldutúnsskóla.

Bróðir Jakobs er Kjartan Freyr fyrirtækjaráðgjafi, f. 19.3. 1977.

Foreldrar Jakobs eru Guðbjörg Jóna Jakobsdóttir skrifstofustjóri, f. 5.10. 1949, og Ásmundur Ásmundsson byggingarverkfræðingur, f. 2.10. 1948, búsett í Reykjavík. Eiginkona Ásmundar er Gyða Baldursdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 24.2. 1957.